Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 12:22:25 (7204)

1998-06-02 12:22:25# 122. lþ. 139.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál. 28/122, HG
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[12:22]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég ræddi þetta mál nokkuð við fyrri umr. þess ef ég man rétt og lýsti viðhorfum mínum þá og ég skal ekki taka langan tíma til að fara yfir sviðið þótt af nógu sé að taka.

Hér liggja fyrir tvö álit frá hv. utanrmn. um málið og stendur formaður Alþb. að minnihlutaáliti en fulltrúar annarra þingflokka standa að áliti meiri hluta nefndarinnar að því er virðist án fyrirvara. Ég tel að það skref sem verið er að stíga með stækkun NATO sé mjög ófarsælt skref og liggja fyrir því mjög margar ástæður sem oft hafa verið ræddar á Alþingi m.a. af okkur þingmönnum Alþb. í sambandi við umræður um utanríkismál. Það sem er efst í huga mínum í þessum efnum er það sem í þeirri ákvörðun felst, þ.e. að færa yfirráðasvæði hernaðarbandalagsins NATO enn austar í álfuna en verið hefur og þrengja enn frekar að þeim sem eru austan við þá markalínu og hætta er á að þar komi upp endurreist járntjald í einu eða öðru formi. Þó að það verði vafalaust ekki með sömu formerkjum og hið gamla járntjald, þá kann það engu að síður að verða til þess að viðhalda og auka spennu í álfunni.

Ég er þeirrar skoðunar að það hefði átt að fara allt aðra leið í sambandi við öryggismál álfunnar eftir að breytingin mikla varð á landakortum og stjórnmálasviði álfunnar í kringum 1990. Þá hefðu menn átt að nota tækifærið til að draga úr spennu með því að leggja af Atlantshafsbandalagið í þeirri mynd sem það þá var í stað þess að endurreisa það í rauninni og leitast við að efla það sem hernaðarbandalag og bjóða fleiri ríkjum þar til þátttöku. Það er auðvitað umræðunnar vert hvað ætti að taka við. Menn þekkja viðleitni innan Evrópusambandsins til að gera Vestur-Evrópusambandið að hernaðararmi þess og hugsanlega leiðir það til þess innan tíðar að Evrópusambandið verði sjálfstæðara í utanríkispólitík sinni eins og það raunar stefnir að og hefur verið að gera samþykktir um ítrekað á ríkjaráðstefnum 1992 og aftur í Amsterdam í fyrra þar sem greinilega er mikill áhugi á og stefnt að því að Vestur-Evrópusambandið verði hernaðararmur þessa væntanlega evrópska stóra sambandsríkis. Til hvers það leiðir í samskiptum við Atlantshafsbandalagið skal ósagt látið en það mun vafalítið draga úr áhuga ýmissa þeirra sem nú styðja NATO-aðildina. Afstaða Frakka hefur lengi verið þekkt í þessu sambandi þar sem þeir hafa ýmist verið með hangandi hendi aðilar í Atlantshafsbandalaginu eða dregið sig afgerandi út úr hernaðarþætti þess eins og menn þekkja.

Með þessari útvíkkun til austurs sem boðuð er sem aðeins fyrsta skref af frekari útfærslu Atlantshafsbandalagsins í austurátt er m.a. verið að koma í veg fyrir þann möguleika sem að mínu mati var afar mikilvægur ef hann hefði gengið fram, þ.e. að stía kjarnorkuveldunum sundur í Evrópu, stía sundur kjarnorkuveldinu Rússlandi og ríkjunum í Vestur-Evrópu sem búa yfir kjarnorkuvopnum með kjarnorkuvopnalausu belti, kjarnorkuvopnalausu svæði um álfuna þvera frá Norðurlöndum suður úr. Það er hörmulegt til þess að vita að sá möguleiki skuli ekki hafa komið meira inn í umræður um mál og orðið ofan á sem leið til að draga úr spennu í álfunni.

Ég er alveg sammála þeim áherslum sem hér hafa komið fram m.a. frá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur varðandi kjarnorkuvopnin og ég býst við að margir taki undir það að þeim eigi ekki að beita. Hitt er þó staðreynd að Atlantshafsbandalagið er kjarnorkuveldi sem áskilur sér rétt til beitingar kjarnorkuvopna að fyrra bragði og hefur ekkert dregið úr þeirri áherslu sinni þrátt fyrir gerbreytt viðhorf í sambandi við óvininn sem var á dögum kalda stríðsins. Þessi staðreynd er eitt af því sem segir mönnum á skýran hátt hvers eðlis Atlantshafsbandalagið er þrátt fyrir alla viðleitni til að telja mönnum trú um að það sé aðallega vörður friðar og frelsis eins og gjarnan er haft á orði. Þetta er kjarnorkuvopnabandalag sem byggir allar sínar meginhernaðaráætlanir á kjarnorkuvígbúnaði og áskilur sér réttinn til að beita honum að fyrra bragði. Svo einfalt er það. Það er undir þessa kjarnorkuregnhlíf sem verið er að bjóða þeim þremur ríkjum sem hér eru til umræðu, Póllandi, Tékklandi og Ungverjalandi og látið að því liggja að fleiri eigi eftir að fylgja.

Auðvitað vona allir hugsandi menn að ekki komi til kjarnorkustyrjaldar. En skemmst er að minnast atburða sem vekja menn til umhugsunar á ný um stöðu þessara mála og hv. formaður utanrmn. kom að í máli sínu, þær tilraunasprengingar og sú kjarnorkustigmögnun sem orðið hefur á Indlandsskaga, sem við köllum svo, milli Indlands og Pakistans, og sýnir okkur þá viðleitni sem kjarnorkuveldin höfðu uppi með tiltölulega lélegri siðferðilegri stöðu að segja öðrum að þau mættu ekki eignast þessi voðalegu vopn og hafa þau auðvitað reynt að þrýsta á það.

Við Íslendingar höfum tekið undir það að vegna ógnarinnar er það mjög mikið áhyggjuefni þegar þessi geigvænlegu vopn fara í fleiri hendur og færast yfir á svæði þar sem veruleg spenna og ófriðarhætta ríkir eins og á Indlandsskaga. Það er auðvitað stórfellt áhyggjuefni. Hér er engan veginn komið að neinum endapunkti á þessu. Það eru mörg ríki sem þegar ráða yfir kjarnorkuvopnum þótt þau hafi ekki stundað tilraunasprengingar svo vitað sé en búa yfir þeirri tækni og hafa að líkindum kjarnorkuvopn undir höndum. Vitað er um Ísrael svo dæmi sé tekið. Suður-Afríka er á leiðinni, ef ekki þegar orðið kjarnorkuveldi og svo mætti lengi telja. Um Suður-Afríku vil ég þó ekki fullyrða en örugglega var sú ríkisstjórn sem þar ríkti í skjóli hins hvíta minni hluta komin á leið að koma sér upp kjarnorkuvopnum.

Ég vil þá nefna, virðulegur forseti, að stuðningurinn við þessa útfærslu NATO til austurs er engan veginn sá sem látið er að liggja í hinni almennu umræðu og af þeim sem ræða málin sem stuðningsaðilar þeirrar útvíkkunar á Alþingi Íslendinga. Fyrir það fyrsta má nefna að þátttakan í atkvæðagreiðslum um þessa NATO-aðild var mjög takmörkuð í ríkjunum þremur, misjafnlega mikil en í rauninni stendur þar að baki í sumum þessara ríkja verulegur minni hluti atkvæðisbærra manna. Það var með miklum þrýstingi má ég fullyrða --- þetta er nú eftir minni sagt, virðulegur forseti --- að Ungverjar rétt mörðu það að ná meiri hluta, þ.e. þátttöku, 51% í atkvæðagreiðslunni og af þeim 51% voru 4/5 sem greiddu jáatkvæði. Þetta bara sýnir það sem dæmi. Svipað var uppi varðandi Tékkóslóvakíu en um Pólland vil ég ekki fullyrða. Ég hef ekki farið yfir tölur þar en þetta ættum við að hafa hugfast um leið og við áttum okkur á því hvert aðalhreyfiafl þessara óska er af hálfu ríkisstjórna þessara landa, og vil ég þó ætla að það sé ekki allt saman hugsað af þeim sjálfum heldur hafi hugmyndinni og tilboðunum verið komið allrækilega á framfæri við þessa aðila. Ég þori að fullyrða og hef lesið það eftir málsmetandi mönnum sem fjalla um alþjóðamál að það hafi verið býsna langt frá því að þeir sem ruddu núverandi stjórnarháttum og lýðfrelsi braut í Póllandi og Tékkóslóvakíu, menn eins og Vaclav Havel í Tékkóslóvakíu og aðrir slíkir, voru ekki með það á dagskrá 1990--1991 að lönd þeirra yrðu aðilar að NATO. Það er í rauninni fyrst eftir að það skýrist að NATO ætlar sér öfluga framhaldstilveru sem þessi mál komu á dagskrá og þeir aðilar sem þjóðarleiðtogar gerast talsmenn þess að verða þar aðilar, bæði Lech Valesa og Vaclav Havel.

Síðan er þess að geta að það eru ekki eingöngu vinstri menn á Vesturlöndum sem vara við þessari þróun. Þess gætir víða hinum megin í hinu pólitíska litrófi og nægir þar að nefna harðar deilur á Bandaríkjaþingi í sambandi við málið. Ekki voru það vinstri sjónarmið sem þar var talað fyrir og þar réðu ferðinni og svipað má segja um viðhorf á þjóðþingum ýmissa landa í Vestur-Evrópu þar sem viðhorfin voru engan veginn einhlít, langt frá því, t.d. í Þýskalandi þar sem þekkt er hvernig Græningjaflokkurinn stóð að málum og ályktaði á flokksþingi sínu að því er Atlantshafsbandalagið varðaði. Var það ýmsum umræðuefni og talið hafa áhrif á möguleika þess sem sækir mest eftir kanslaraembættinu, Gerhards Schröders, til að geta stuðst við þennan flokk ef til ríkisstjórnarmyndunar kæmi af hans hálfu.

Þetta nefni ég, virðulegur forseti, vegna þess að því er ekki mikið til haga haldið að það er langt frá því að einhver samhljóma kór standi að þessu í NATO-ríkjunum og það sé eingöngu bundið við vinstri menn á þingum landanna.

Þá vil ég nefna, virðulegur forseti, kostnaðinn í sambandi við þetta. Það geri ég ekki vegna þess að ég hafi þar eitthvað sérstakt fram að færa, einhverjar nákvæmari tölur en uppi hafa verið. Það eru hreinar ágiskanir sem menn hafa verið með í þessum efnum, mig minnir að 1,5 milljarðar Bandaríkjadala eða 1.400 millj. Bandaríkjadala hafi verið nefndar sem lágmarkstala sem er hins vegar tífalt lægri en aðrar áætlanir sem fram voru reiddar í þessu máli báru með sér. En ég vil benda á að fjármunum sem varið er í þessu skyni til að hervæða væntanleg aðildarríki og gera þau stofuhæf í þessum klúbbi Atlantshafsbandalagsins verða ekki notaðir til annarrar uppbyggingar öryggismála eða í efnahagsskyni eða til úrbóta í umhverfismálum. Hér er verið að sóa fjármunum að mínu mati mjög óskynsamlega til hernaðaruppbyggingar á vegum NATO-ríkjanna og eiga Íslendingar m.a. að leggja í það púkk. Þessi meðferð fjármuna er því raunaleg og hefði þurft að beinast í allt, allt aðrar áttir.

Margt hefur verið sagt um þessi mál m.a. í íslenskum dagblöðum. Ég las af athygli grein sem birtist í Morgunblaðinu 3. apríl sl. undir fyrirsögninni Stækkun NATO í austurátt, eftir blaðamann sem heitir Ásgeir Sverrisson þar sem um þetta efni er fjallað og mér finnst margt athyglisvert í þeim sjónarmiðum sem þar koma fram. Þar er vakin athygli á því að þessi stækkun marki tímamót og hún geti haft verulegar afleiðingar og ekki allar í þá átt sem látið er í veðri vaka af þeim sem ræða málin hér á landi. Ég ætla ekki að vitna í langa kafla, þó að ástæða væri til, úr þessari grein en leyfi mér þó, með leyfi forseta, að grípa niður í henni. Þar segir m.a.:

,,Stækkunin markar algjör vatnaskil í sögu NATO og mun hafa víðtækar afleiðingar í för með sér. Og ekki verða þær allar jákvæðar. Nú þegar sjást þess merki að Rússar hyggist láta andstöðu sína við þessa áætlun í ljós í verki. Hin góða samvinna Bandaríkjamanna og Rússa á vettvangi alþjóðamála, sem einkenndi fyrstu árin eftir lok kalda stríðsins, heyrir nú sögunni til. Þessa hafa sést merki í Mið-Austurlöndum og nú síðast í Kosovo-deilunni þar sem Rússar hafa tekið málstað trúbræðra sinna í Serbíu. Rússar hyggjast alls ekki taka stækkun NATO þegjandi.

Þeim rökum var beitt að stækkunin til austurs væri réttlætanleg þar sem það væri yfirlýstur vilji þessara þriggja þjóða að ganga í bandalagið. Eðlilegt væri að sá þjóðarvilji yrði virtur auk þess sem aldrei mætti fela Rússum neitunarvald í málefnum NATO. Sú spurning vaknar hvort þessi sömu rök muni heyrast þegar Eystrasaltsríkin þrjú taka á ný að þrýsta á um aðild. Haldi menn að Rússar muni sætta sig við inngöngu þessara ríkja er það mikil og jafnvel hættuleg óskhyggja. Hættan er því sú að Eystrasaltsríkin þrjú verði enn á ný skilin eftir líkt og gerðist í Helsinki-sáttmálanum 1975 og skipting Evrópu verði aftur staðfest, heldur austar að þessu sinni. Erfitt mun reynast að verja þá afstöðu enda telja Eystrasaltsþjóðirnar að þær hafi verið sviknar í Helsinki.

Þrátt fyrir fullyrðingar um að stækkun NATO beinist ekki gegn Rússum`` segir Ásgeir Sverrisson enn fremur í þessari grein ,,blasir við að vilji ríkjanna í Mið- og Austur-Evrópu til að ganga í bandalagið er til kominn sökum ótta við að Rússar muni á ný ógna öryggi þeirra. Söguleg og sálfræðileg rök virðast hafa vegið þyngst. Rússneski herinn, þetta mikla þjóðarstolt, hefur mátt þola algjöra niðurlægingu á undanförnum árum. Þessi hervél er nú ófær um að ógna alvarlega öryggi nágrannaríkjanna. Hygðust Rússar hrinda af stað stórsókn til vesturs tæki slíkur undirbúningur nú marga mánuði og Vesturlönd gætu auðveldlega brugðist við þess háttar ógnun. Engin herfræðileg rök mæla sérstaklega með stækkun NATO til austurs.``

Hér segir síðan enn fremur:

,,Sagan sýnir að stöðugleiki í Evrópu er best tryggður með þátttöku Rússa en ekki útskúfun þeirra. Rússland tilheyrir í raun tveimur heimum, er evró-asískt landveldi og hin dýpri pólitísku átök þar hafa jafnan snúist um hvort halla beri sér til vesturs eða austurs. Útvíkkun NATO kann því að hafa mikil og langvarandi pólitísk áhrif í Rússlandi og getur sú þróun þegar til lengdar lætur orðið vesturlandamönnum lítt að skapi.``

Ég læt þessa tilvitnun nægja í hina athyglisverðu grein og tek undir mörg þeirra sjónarmiða sem þar koma fram.

Ég vek líka athygli, virðulegur forseti, á ummælum sem koma fram í frétt í Morgunblaðinu 28. mars sl. þar sem fréttastofa í Eistlandi, sem kallast Baltic Highlights á ensku, fjallar um Íslandsheimsókn utanríkisráðherra Eistlands hingað til lands og fyrirsögnin er: Takmark Eista um NATO-aðild aldrei fjarlægara.

Hér segir m.a., með leyfi forseta:

,,Horfur Eistlands á að nálgast takmarkið um aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO) hafa ekki batnað með nýafstaðinni Íslandsheimsókn utanríkisráðherra Eistlands, Toomasar Hendriks Ilves.``

Síðar í greininni segir:

,,Meðal almennings í Eistlandi og ekki síður stjórnmálamanna landsins eru tengdar sérstakar vonir við stuðning Íslands.

Jafnvel þótt aðild að ESB þyki eftirsóknarverð, einnig í öryggispólitísku tilliti, er NATO-aðild draumurinn. En hún er draumur, sem strax á fyrstu mánuðum þessa árs er farinn að taka á sig drætti svo óraunsæs draums, að hann líkist því sem kalla mætti ,,martröð við Eystrasalt``.

Þessi þróun varð umheiminum fyrst ljós fyrir alvöru með undirritun öryggissáttmála Eystrasaltsríkjanna og Bandaríkjanna í janúar og með leiðtogafundi Eystrasaltsráðsins. Vissulega er tekið fram í sáttmálanum að Bandaríkin styðji áfram aðild Eystrasaltslandanna að NATO. En í honum er enn fremur sérstaklega kveðið á um ,,lögmæta öryggishagsmuni Rússlands á Eystrasaltssvæðinu.`` --- Þetta er í tilvitnun í sáttmálann að því er virðist ,,lögmæta öryggishagsmuni Rússlands á Eystrasaltssvæðinu``. --- ,,Margir álíta sáttmálann því greinilegra tilboð um öryggissamstarf við Rússa en Eystrasaltsþjóðirnar.``

Virðulegur forseti. Þessi dæmi sem ég vitna til og þau sjónarmið sem þar koma fram falla í þá átt sem mér sýnist að þróunin stefni. Ég geri ráð fyrir að þessi útvíkkun NATO núna verði ekki léttilega endurtekin, og alveg sérstaklega að því er varðar viðhorf í NATO-ríkjunum sjálfum. Og ég geri ráð fyrir að það verði þrautin þyngri í raun að koma upp einhverju bærilegu öryggiskerfi í álfunni eftir þá ófarsælu ákvörðun að mínu mati að færa NATO til austurs með því tilboði sem hér er óskað eftir staðfestingu á á Alþingi Íslendinga. Ég óttast að menn séu að fórna möguleikum til að ná saman um allt aðrar og vænlegri lausnir í öryggismálum álfunnar og að menn séu í rauninni með flumbrugangi að fara út á braut sem ekki er hugsuð til enda og geti átt eftir að verða til mikilla vandræða og erfiðleika fyrir utan þau viðbrögð sem auðvitað er alveg ljóst að uppi eru innan Rússlands og geta átt eftir að hafa þar, bara þessi ákvörðun ein út af fyrir sig getur orðið lóð á pólitíska vogarskál þarlendis sem ekki er í þá átt sem æskilegt væri til styrkingar bærilegs lýðræðis og stöðugleika í því stóra ríki. Ég tel einnig af þeim sökum að þessi gjörningur sem verið er að leggja til að Alþingi staðfesti sé óvænleg ráðstöfun svo maður noti nú hversdagslegt orð um annars mjög stórt og heldur skuggalegt málefni.