Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 12:51:40 (7208)

1998-06-02 12:51:40# 122. lþ. 139.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál. 28/122, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[12:51]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér skilst að atkvæðagreiðsla um þetta mál verði síðar í vikunni og ég mun þá svara þeirri spurningu hér í atkvæðagreiðslu. En vegna þess að hv. þm. kom hér upp, þá vil ég aðeins víkja frekar að spurningu sem mér vannst ekki tími til að svara áðan. Hv. þm. bar fram spurninguna: Hversu langt ganga öryggishagsmunir Rússa? Eiga þeir að neita eða eiga þeir að ráða í þeim efnum? Þessari spurningu geri ég ráð fyrir að ég sé ekki fær um að svara frekar en hv. þm. Hér er auðvitað um að ræða samspil margra þátta þar sem Íslendingar koma ekki mikið við sögu við matið. Það er annarra að leggja á það mat.

Þó er dagljóst að þau skref sem tekin eru í nágrannaríki kalla óhjákvæmilega á viðbrögð hinum megin landamæra. Það er vel þekkt. Síðasta dæmið eru þeir hörmulegu atburðir sem við fáum fregnir af frá Indlandsskaga nú síðustu daga í sambandi við kjarnorkuvopnatilraunir. Auðvitað verða menn að skoða málin í slíku samhengi. Ég ætla bara að vona að menn þurfi ekki að standa í þeim sporum sem reynt var að setja menn í í almennri umræðu hér á landi, að þeir væru hallir undir hagsmuni þessa eða hins stórveldisins. Íslendingar eiga að meta sína stöðu út frá eigin hagsmunum og auðvitað varast það eins og heitan eldinn að ganga hagsmuna stórvelda, sumra langt í burtu.