1998-06-02 14:15:58# 122. lþ. 139.2 fundur 614. mál: #A samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 1998# þál. 14/122, Frsm. TIO
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[14:15]

Frsm. utanrmn. (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um till. til þál. um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 1998.

Samkvæmt samningi þessum er færeyskum nótaskipum heimilt að veiða allt að 15 þúsund lestir af loðnu innan íslenskrar lögsögu á tímabilinu janúar til apríl 1998. Aðilar munu semja fyrir 1. júlí 1998 um veiðiheimildir færeyskra nótaskipa á loðnuvertíðinni sem stendur frá júlí 1998 til apríl 1999. Er við það miðað að veiðiheimildir færeyskra nótaskipa á þessu tímabili verði um 30 þúsund lestir enda breytist forsendur varðandi leyfðan heildarafla og önnur atriði er máli skipta ekki í verulegum atriðum.

Samningurinn gerir enn fremur ráð fyrir gagnkvæmri heimild skipa hvors aðila til kolmunnaveiða og þá er einnig gert ráð fyrir að landa afla til vinnslu á Íslandi en óheimilt er að vinna eða frysta afla sem veiddur er á tímabilinu 1. janúar til apríl 1998 um borð og að utan Íslands sé einungis heimilt að landa þeim afla til bræðslu.

Þá er einnig í samningnum staðfest heimild íslenskra skipa til veiða á allt að 1.300 lestum af makríl, sem er um 300 lestum meira en árið 1997, og á 2.000 lestum af síld annarri en norsk-íslenskri innan færeyskrar lögsögu á árinu 1998.

Sjútvn. hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Árna Kolbeinsson og mælir nefndin með samþykkt tillögunnar.

Herra forseti. Ég vil geta þess að í texta þáltill. hefur \mbox{slæðst} villa þar sem sagt er að staðfesta beri samning milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 1997 og flytur sá sem hér stendur brtt. við till. til þál. um staðfestingu samningsins milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 1998 eins og sér á þskj. 1380. Ég mæli með að þessi þáltill. verði samþykkt.