1998-06-02 14:21:14# 122. lþ. 139.4 fundur 617. mál: #A samningur milli Grænlands og Íslands um fiskveiðar innan grænlenskrar og íslenskrar lögsögu# þál. 16/122, Frsm. TIO
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[14:21]

Frsm. utanrmn. (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um till. til þál. um staðfestingu samnings milli Grænlands og Íslands um fiskveiðar innan grænlenskrar og íslenskrar lögsögu.

Með þáltill. þessari er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta samning milli Grænlands og Íslands um fiskveiðar innan lögsögu ríkjanna.

Samkvæmt samningnum er grænlenskum nótaskipum heimilt að veiða í efnahagslögsögu Íslands allt að 8.000 lestir af loðnu af loðnukvóta Íslands á loðnuvertíð þeirri sem lýkur 30. apríl 1998.

Á móti verður íslenskum skipum heimilt að veiða allt að 8.000 lestir af loðnu úr þeim kvóta, sem kemur í hlut Grænlands, á loðnuvertíð þeirri sem hefst 1. júlí 1998. Þá verður íslenskum skipum heimilt að veiða allt að 8.000 lestir af heildarkvóta Íslands í tilraunaskyni í fiskveiðilögsögu Grænlands sunnan 64°30'N, en samkvæmt loðnusamningnum eru loðnuveiðar íslenskra skipa óheimilar á því svæði.

Ákvæði um veiðar grænlenskra skipa í íslenskri lögsögu samkvæmt þessum samningi eru samhljóða ákvæðum í samningi aðila frá 20. febrúar 1997.

Nefndin hefur fjallað um þessa tillögu og leggur til að tillagan verði samþykkt. Rétt er að geta þess að sjútvn. hefur fjallað um málið og mælir með samþykkt tillögunnar.