Íslenskt sendiráð í Japan

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 14:26:20 (7217)

1998-06-02 14:26:20# 122. lþ. 139.7 fundur 94. mál: #A íslenskt sendiráð í Japan# þál., Frsm. MF
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[14:26]

Frsm. utanrmn. (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Á þskj. 94 er till. til þál. um íslenskt sendiráð í Japan, sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, Össur Skarphéðinsson og Kristín Ástgeirsdóttir flytja. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að koma á fót íslensku sendiráði í Japan á árinu 1998.``

Tillaga sama efnis var fyrst flutt á 115. löggjafarþingi af hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, Gunnlaugi Stefánssyni, Jóni Helgasyni og Kristínu Einarsdóttur þar sem gerð var grein fyrir, eins og reyndar í greinargerð með tillögunni núna, að nauðsynlegt væri fyrir Íslendinga að mati flutningsmanna að opna sendiráð í Japan. Þrátt fyrir að 1995 hafi verið opnað sendiráð í Kína eru veigamikil rök fyrir því í dag að hagsmunatengslum Íslendinga við Japan, sem sífellt eru að aukast, verði fylgt eftir með því að opna sendiráð í Japan.

Í greinargerðinni kemur m.a. fram að verðmæti útflutnings til Japans á árinu 1995 námu rúmlega 13 milljörðum kr. eða 11,3% af heildarútflutningi Íslendinga. Tillaga þessi er eitt af fyrstu málunum sem lögð var fyrir þetta þing og kom til utanrmn. sem skilaði eftirfarandi nál., með leyfi forseta:

Nefndin hefur fjallað um tillöguna.

Á síðasta ári skipaði utanríkisráðherra nefnd til að fjalla um málefni utanríkisþjónustunnar og áttu sæti í henni m.a. fjórir nefndarmenn í utanríkismálanefnd. Hlutverk hennar var að kanna hvernig utanríkisþjónustu Íslendinga yrði best hagað með tilliti til alþjóðavæðingar undanfarinna ára, í stjórnmálum, viðskiptum og menningarmálum. Nefndin skilað áliti í lok mars sl. og er í því fjallað ítarlega um hvernig Íslendingar geti tryggt hagsmuni sína í margþættara og að mörgu leyti erfiðara alþjóðaumhverfi. Nefnd utanríkisráðherra leggur meðal annars til að hagsmunagæsla erlendis verði styrkt með opnun nýrra sendiráða í Japan og Kanada.

Þar sem efni tillögunnar er í samræmi við niðurstöðu nefndar ráðherra leggur utanríkismálanefnd til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Undir nál., sem dags. er 28. apríl, rita auk mín hv. þm. Össur Skarphéðinsson, Siv Friðleifsdóttir, Árni R. Árnason, Gunnlaugur Sigmundsson, Kristín Ástgeirsdóttir, Tómas Ingi Olrich, Vilhjálmur Egilsson og Lára Margrét Ragnarsdóttir.