Málefni LÍN

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 16:16:56 (7255)

1998-06-02 16:16:56# 122. lþ. 140.93 fundur 433#B málefni LÍN# (umræður utan dagskrár), menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur, 122. lþ.

[16:16]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Í ár er í fyrsta sinn starfað samkvæmt lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna eins og þeim var breytt á Alþingi vorið 1997. Breytingin varð námsmönnum til verulegra hagsbóta. Í samræmi við hana samþykkti Alþingi að hækka fjárveitingar til lánasjóðsins um 100 millj. kr. og er þar um varanlega hækkun að ræða.

Úthlutunarreglur LÍN eru endurskoðaðar á hverju ári. Er almennt góð samstaða um þessar reglur. Þegar kom að endurskoðun reglnanna að þessu sinni vildu fulltrúar námsmanna í stjórn LÍN nálgast starfið á svipaðan hátt og gert er í kjarasamningum, þ.e. þeir settu fram launakröfur. Hins vegar er nauðsynlegt að hafa í huga að sjóðurinn veitir fyrst og fremst framfærslulán sem taka mið af því að lántakendur afla sér einnig almennra launatekna. Lagt var mat á kröfur námsmanna af hálfu LÍN og talið að þær jafngiltu nokkur hundruð millj. kr. hækkun á útlánum sjóðsins.

Fulltrúar ríkisstjórnarinnar gátu ekki fallist á þessar kröfur, enda hefði það gengið þvert á allt sem talið er skynsamlegt við stjórn ríkisfjármála um þessar mundir. Allir sem taka til máls um markmið árangursríkrar stjórnar á efnahagslífi íslensku þjóðarinnar um þessar mundir vara eindregið við þenslu í útgjöldum ríkissjóðs. Með henni yrði mest grafið undan nauðsynlegum stöðugleika.

Þegar ljóst var að ekki næðist samkomulag við námsmenn kom það í hlut meiri hluta stjórnar lánasjóðsins að taka ákvarðanir sínar. Er áætlað að þær leiði til þess að árleg útlán sjóðsins hækki um 100 millj. kr. og þar af hækki framlag úr ríkissjóði til LÍN um 55 millj. kr.

Höfuðatriði breytinga á útlánareglum eru þessar:

Viðmiðunartölur vegna framfærslu, tekna, skólagjalda og fleiri þátta hækka í samræmi við almenna verðlagsþróun, þ.e. um 2,5%. Í framhaldi af því að hlutfall endurgreiðslukröfu í laun lánþega að námi loknu var lækkað úr 5 og 7% í 4,75% með lagabreytingunni á síðasta ári hafa reglur um rétt til undanþágu frá endurgreiðslum nú verið samræmdar með vísan til ívilnandi túlkunar.

Með nýju reglunum er námsmönnum tryggður ótvíræður lánsréttur þegar þeir þurfa að endurtaka nám vegna reglna um fjöldatakmarkanir, t.d. í hjúkrunarfræði og læknisfræði. Er með þessu leyst úr ágreiningi sem kom upp á liðnum vetri.

Sérstaklega var litið á lánsrétt námsmanna í framhaldsháskólanámi. Var réttur þessara nemenda til láns vegna tungumálanáms rýmkaður. Sömu sögu er að segja um rétt þeirra sem stunda stutt starfstengt viðbótarháskólanám sem ekki lýkur með æðri prófgráðu, t.d. kennslufræði til kennsluréttinda, félagsráðgjöf, listnám og námsráðgjöf.

Þá er stjórn LÍN veitt heimild til að veita undanþágu frá ákvæðum um almenn lán vegna skólagjalda erlendis, ef námsmaður er verulega fatlaður, getur sannanlega ekki stundað nám sitt hér á landi að óbreyttum aðstæðum og sérstakar ástæður mæla með undanþágu.

Allar þessar breytingar miða að því að koma til móts við þá sem vilja afla sér menntunar og eru í samræmi við það meginmarkmið Lánasjóðs ísl. námsmanna að stuðla að jafnrétti til náms.

Hér hef ég lýst þeim sjónarmiðum sem lágu til grundvallar þegar teknar voru ákvarðanir um úthlutunarreglur LÍN á næsta skólaári. Í samræmi við þær má gera ráð fyrir að ráðstöfunarfé námsmanns í leiguhúsnæði verði nálægt 74 þús. kr. á mánuði. Sambærileg tala fyrir hjón með eitt barn sem bæði eru í námi og hvort um sig með meðaltekjur er með barnabótum um 186 þús. kr. á mánuði. Þessar tölur sýna glögglega að ekki er unnt að skoða hækkanir á námslánum með sama hætti og launahækkanir. Hjá lánasjóðnum er tekið tillit til stöðu hvers lántakanda og hún metin. Þeir sem skoða tölurnar geta ekki heldur af neinni sanngirni fullyrt að illa sé gert við námsmenn á Íslandi.