Málefni LÍN

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 16:21:20 (7256)

1998-06-02 16:21:20# 122. lþ. 140.93 fundur 433#B málefni LÍN# (umræður utan dagskrár), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur, 122. lþ.

[16:21]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það var afar athyglisvert að heyra það sem fram kom í máli hæstv. menntmrh., hvernig ríkisstjórnin hefur orðið að bakka frá þeim miklu breytingum sem gerðar voru á lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna árið 1992. Þá urðu mikil átök um málið og við bentum á það sem þá vorum í stjórnarandstöðu hvílíkt hrikalegt verk var verið að vinna á lögunum og hve mikið misrétti þau mundu hafa í för með sér. Það hefur auðvitað komið í ljós og menn hafa sem betur fer gert nokkrar breytingar þó að betur þurfi að gera.

Hæstv. menntmrh. vísar til efnhagslegra raka þegar hann er að rökstyðja það að námsmenn eigi ekki að fá viðlíka hækkanir og aðrir í þjóðfélaginu. Ég spyr nú bara: Um hvað var samið í kjarasamningum? Eru það einhver rök að vísa til hættu á þenslu? Auðvitað hafa allar ákvarðanir um kjarasamninga eða hvað sem er efnahagsleg áhrif hvort sem slíkar ákvarðanir heyra undir ríkissjóð eður ei.

Aðalmálið er það, hæstv. forseti, að námsmenn eiga auðvitað rétt á því að fá hækkun eins og aðrir. Þeirra framfærslukostnaður hækkar eins og annarra. Ég get ekki látið hjá líða að minna á að fyrir nokkrum dögum var verið að samþykkja ný lög um húsnæðismál, sem sumum fannst flytja með sér mikið sólskin, en þau lög munu hafa veruleg áhrif á framfærslugrunn námsmanna þegar þau fara að virka því að ef svo heldur fram sem horfir munu þau hafa veruleg áhrif á leigukostnað námsmanna og hann hækkar auðvitað líka og mun kalla á réttlátar kröfur um hækkun á framfærslugrunninum. En ég tek undir það að námsmenn eiga auðvitað rétt á hækkunum eins og aðrir. Lánasjóður ísl. námsmanna er eitt af örfáum dæmum um það að tekið er tillit til þess kostnaðar sem fylgir því að eiga börn og það er hið besta mál. En kjör námsmanna verða auðvitað að fylgja því sem annars staðar er og við skulum ekki gleyma því að lánasjóðurinn er eitt mikilvægasta jöfnunartækið í okkar samfélagi.