Málefni LÍN

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 16:28:17 (7259)

1998-06-02 16:28:17# 122. lþ. 140.93 fundur 433#B málefni LÍN# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur, 122. lþ.

[16:28]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Stjórnarflokkarnir halda áfram að vísa ábyrgð hver á annan. Það er athyglisvert. Sú sem hér stendur vakti athygli á þessu máli í fyrirspurnatíma á Alþingi í fyrra mánuði og þá kom fram hjá hæstv. menntmrh. að hann vonaðist eftir að samningar næðust við námsmenn. Það kom einnig fram hjá honum að hann tók ekki sjálfur undir þær kröfur námsmanna að fá sömu kjarahækkanir og aðrir hópar þjóðfélagsins og að tekið yrði mið af lágmarkslaunum í landinu við ákvörðun frítekjumarks lánanna. Það kom því ekki beint á óvart að nú hefur verið ákveðið að námsmenn fái ekki þær kjarabætur sem aðrir hafa fengið þar sem lán þeirra hækka aðeins í takt við verðlagsbreytingar og skerðast eftir 185 þús. kr. sumartekjur en ekki 210 þús. eins og búast mætti við ef miðað væri við lágmarkslaun í landinu.

Herra forseti. Ég tel mjög mikilvægt að allir átti sig á að þó ég tali hér um kjarabætur, þá er ekki í raun svo því að námslán eru greidd til baka með vöxtum og verðbótum, þau eru neyslulán en ekki laun. Því skil ég ekki þau rök að námsmenn þurfi að lifa undir fátæktarmörkum. Það eru ekki rök að nemar geti unnið með námi því að það bitnar á náminu, bæði námsárangri og námshraða. Um það getur sú sem hér stendur vitnað, sem hefur margra ára reynslu af háskólakennslu. Því vil ég biðja hæstv. menntmrh. að rökstyðja betur hvers vegna kjör námsmanna fá ekki að fylgja kjörum annarra. Það er ekki nægilega góður rökstuðningur að mínu mati að vísa til þenslu. Að ætla námsmönnum 57.600 kr. á mánuði að hámarki, sem er lægra en atvinnuleysisbætur, er óviðunandi og ekki í samræmi við þann sess sem menntun ungs fólks á að hafa í þjóðfélaginu og vísa ég þar í rökstuðning í skýrslu OECD.