Málefni LÍN

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 16:35:49 (7262)

1998-06-02 16:35:49# 122. lþ. 140.93 fundur 433#B málefni LÍN# (umræður utan dagskrár), Flm. SvG
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur, 122. lþ.

[16:35]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég verð að harma það að í svari hæstv. menntmrh. komu ekki fram nein svör. Þar komu engin rök fyrir því af hverju þessi 2,5% eru valin. Það komu engin rök fram í þeim efnum.

Það merkilega við umræðuna var einnig að hv. talsmaður Framsfl. í þessari umræðu lýsti því yfir að hann væri á móti því að þessi 2,5% væru valin en ekki viðmiðun við veruleikann í þjóðfélaginu. Þar með er auðvitað bersýnilegt að þessi reglugerð, sem meiri hluti stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna tók ákvörðun um á dögunum, styðst ekki við þingmeirihluta. Ég vil spyrja hæstv. menntmrh. að því hvernig hann hyggist taka á þessu máli. Ætlar hann að afturkalla þessa reglugerð sem sett var á dögunum, þessa að samþykkt meiri hluta stjórnar lánasjóðsins? Það greinilega ekki þingmeirihluti á bak við þessa niðurstöðu.

Það er náttúrlega ekki hægt, herra forseti, að láta framsóknarmönnum líðast það aftur og aftur að segja sig frá ábyrgð á málum án þess að því sé fylgt eftir. Ég get lofað hv. þm., sessunauti mínum, Hjálmari Árnasyni, því að því verður fylgt eftir að Framsókn standi við stóru orðin í þessu máli en svíki þau ekki eins og venjulega.

Einu rökin sem hæstv. menntmrh. bar fram í þessu máli var þensla ríkissjóðs. Það voru einu rökin sem hann flutti, hinn ægilegi vandi þjóðarinnar um þessar mundir, sem hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir gerði að umtalsefni, þ.e. hve það mikið væri orðið af peningum í þjóðfélaginu.

Í máli hans kom ekkert fram sem benti til þess að hann hefði skoðað þessi mál í samhengi menntastefnunnar. Það er greinilegt að ef þessari ákvörðun verður fylgt eftir þá mun hún hrekja fólk úr námi í vaxandi mæli. Það væri alvarlegt fyrir lífskjör þjóðarinnar í framtíðinni. Þess vegna segi ég, herra forseti: Það var gagnlegt að þessar umræður fóru fram en það er óhjákvæmilegt að þeim umræðum verði fylgt eftir síðar í umræðum um önnur mál, áður en þinginu lýkur, til þess að koma því á hreint hvort hæstv. menntmrh. sé virkilega að skerða kjör námsmanna með minni hluta þingsins á bak við sig.