Málefni LÍN

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 16:38:11 (7263)

1998-06-02 16:38:11# 122. lþ. 140.93 fundur 433#B málefni LÍN# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur, 122. lþ.

[16:38]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Alþingi hefur aldrei komist að þeirri niðurstöðu að Lánasjóður ísl. námsmanna ætti að starfa með þeim formerkjum að um laun til námsmanna væri að ræða og taka ætti mið af því hver launaþróunin hafi verið. Það hefur aldrei verið niðurstaða Alþingis og aldrei verið samþykkt nokkuð um það í lögum frá Alþingi. (ÖJ: En að fólk geti lifað?) Það er því algerlega rangt hjá hv. þingmönnum að gera þetta veður út af þessu máli. Það hefur verið lögformlega rétt að þessu staðið og miðað við, eins og ég sagði, hækkun á framfærslugrunni sem miðast við almenna verðlagsþróun.

Við samningu úthlutunarreglnanna var að þessu sinni einnig komið til móts við hópa námsmanna sem ekki hafa áður haft tækifæri til að fá lán úr Lánasjóði ísl. námsmanna. Í því felst að sjálfsögðu menntastefna og ákvörðun um það að auðvelda fleirum en áður að stunda nám. Það er alveg ljóst. Útúrsnúningur af því tagi sem fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni er líka dæmdur ómerkur í þessu máli og þessum umræðum. Hins vegar er nauðsynlegt að ræða áfram kröfur námsmanna. Það er ljóst.

Í þessum umræðum á undanförnum vikum hafa verið reifaðar ýmsar hugmyndir um úthlutunarreglurnar, um það hvernig eigi að taka á málum í framtíðinni við endurskoðun á þessum reglum. Til dæmis hefur verið rætt um að stofna sérstakan lánaflokk handa þeim sem búa við háan húsnæðiskostnað. Þá hefur því verið hreyft að skapa mætti svigrúm til að hækka grunnframfærslu nemenda með því að miða upphæð námsláns til hvers og eins aðeins við þá daga sem hann stundar nám í skóla sínum en ekki við 9 mánuði eins og nú er. Þannig kynni að skapast það svigrúm sem menn vilja til að taka á því viðfangsefni að hækka framfærslugrunninn án þess að stofna til þeirrar þenslu, sem allir sem um efnahagsmálin fjalla vara við þótt hv. stjórnarandstæðingar hafi ekki tekið eftir þeim viðvörunum.

Herra forseti. Það er staðið þannig að ákvörðunum um málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna að hagsmunir nemenda séu í fyrirrúmi. Að þessu sinni hefur verið tekið tillit til sérstakra hópa og komið til móts við þá við breytingu á úthlutunarreglunum.