Heilbrigðismál

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 16:41:32 (7265)

1998-06-02 16:41:32# 122. lþ. 140.94 fundur 435#B heilbrigðismál# (umræður utan dagskrár), Flm. SighB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur, 122. lþ.

[16:41]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðherra hefur setið í ráðherrastól í þrjú ár af fjórum. Niðurstaðan er sú að nauðsynlegt er að leita svara við ýmsum spurningum um stefnu ráðherrans í nokkrum þáttum er varða heilbrigðismál. Þau boð sem frá hæstv. ráðherra hafa komið hafa verið svo ruglingsleg að það er erfitt að átta sig á því hvað snýr upp og hvað snýr niður í þeirri stefnumótun.

Í fyrsta lagi varðandi málefni sérfræðilækna. Fyrsta verk hæstv. ráðherra var að semja við sérfræðilækna um að hætta við svokallað tilvísanakerfi gegn því að í staðinn yrði tekið upp kerfi sem sagt var að ætti að vera til frambúðar og grundvallaðist á takmörkun á aðgengi lækna annars vegar og þaki á þjónustu með stighækkandi afslætti hins vegar. Samningsákvæðið um takmörkun á aðgengi var dæmt ólögmætt og afsláttarkerfinu hefur verið hafnað af læknum sjálfum. Þessi frambúðarlausn er þar með hrunin til grunna.

Næsta vers var að hæstv. ráðherra tilkynnti um nýja stefnumörkun, svonefnt valfrjálst stýrikerfi, sem m.a. var gert samkomulag um við heimilislækna. Frá því kerfi hefur ekkert heyrst. Hefur það gefið upp öndina?

Þriðja versið var samningur við sérfræðilækna síðla vetrar. Sá samningur felur í sér tímabundið afnám kvóta og opnun fyrir greiðslur úr opinberum sjóðum fyrir mun dýrari, flóknari og fleiri læknisverk á einkastofum utan sjúkrahúsanna en áður þekkist.

Í ljósi þessara atburða er eðlilegt að spurt sé hver stefna hæstv. ráðherra er nú. Er hún sú að ná betri stjórn á þessum málum, eins og hugmyndirnar um valfrjálsa stýrikerfið fólu í sér, eða er stefna ráðherrans að auka einkavæðingu heilbrigðiskerfisins, eins og samningar við sérfræðilækna fólu í sér?

Í öðru lagi hefur ráðherra boðað þá stefnu að skipta landinu upp í sjálfstæð heilbrigðisumdæmi með einni yfirstjórn í hverju umdæmi sem m.a. eigi að hafa það hlutverk að ákveða í hvaða tilvikum sjúklingum sé heimilað að gangast undir aðgerðir utan heimahéraðs. Ekkert hefur orðið úr þessum framkvæmdum og um þessar hugmyndir hefur ekkert heyrst upp á síðkastið. Er þess að vænta að hæstv. ráðherra sé horfinn frá þessari stefnu sinni? Ef svo er, hver er þá stefna hæstv. ráðherra nú í skipulagi heilbrigðisþjónustunnar?

Í þriðja lagi hefur hæstv. ráðherra lýst áhuga sínum á því sem nefnt hefur verið forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu. Sérstök nefnd var sett á laggirnar að tilhlutan ráðherrans til að vinna slíkar tillögur en frá því að nefndin lauk störfum hefur ekkert meira um málið heyrst. Ég spyr: Hvernig hyggst ráðherra standa að framkvæmd þessa máls, forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu, og hvenær munum við sjá tillögur í þá átt?

Í fjórða lagi minni ég á að þegar hæstv. ráðherra tók við voru hafnar undirbúningsviðræður milli heilbrrn. og forráðamanna Sjúkrahúss Reykjavíkur um samningsstjórnun, þ.e. gerð samkomulags um að Sjúkrahús Reykjavíkur tæki að sér tiltekin læknisverk gegn tiltekinni greiðslu. Mér er ekki kunnugt um hvort haldið hefur verið áfram við það verk en ekki alls fyrir löngu ræddi ráðherrann hins vegar um að rétt væri að gera slíkan samning. Ég spyr: Er það vilji ráðherrans? Ef svo er, hvar er það verk þá á vegi statt?

Á sama tíma ræðir hæstv. ráðherra hins vegar um sameiningu Sjúkrahúss Reykjavíkur við Ríkisspítala og raunar fjögur önnur sjúkrahús, ýmist sem fullkomna sameiningu í einni stofnun, um samvinnu stofnana undir einni sameiginlegri yfirstjórn eða nánara samstarf þeirra með samkomulagi um verkaskiptingu. Jafnframt hefur ráðherra lýst sig sammála tillögum Félags ísl. hjúkrunarfræðinga um tilhögun á samstarfi þessara stofnana. Þessar tillögur ganga að sjálfsögðu ekki allar saman. Það er ekki hægt að framkvæma þær allar í einu. Því spyr ég: Hver er stefna hæstv. ráðherra í þessu máli? Að hvers konar samstarfi eða sameiningu umræddra sjúkrahúsa er hæstv. ráðherra að vinna og hvenær munu tillögur hennar í málinu líta dagsins ljós?

Í sjötta lagi fordæmdi hæstv. ráðherra á sinni tíð þær aðgerðir fyrirrennara sinna að leggja takmörkuð þjónustugjöld á við komu á heilsugæslustöðar, fyrir ferliverk, vegna tannlæknaþjónustu o.fl. Hæstv. ráðherra hefur hins vegar ekkert gert sl. þrjú ár til að afnema eða lækka þessi þjónustugjöld heldur þvert á móti. Því hlýt ég að spyrja: Hefur ráðherra skipt um skoðun eða má ætla að hæstv. ráðherra nýti fjórða og síðasta ár sitt á ráðherrastól til að afnema þau gjöld sem ráðherrann hafði áður lýst andstöðu sinni við?

Í sjöunda lagi minni ég á að hæstv. ráðherra beitti sér harkalega gegn því ákvæði nýrra lyfjalaga sem heimilaði frjálsa samkeppni í lyfjaverslun. Sú samkeppni hefur leitt til mikillar lækkunar á verði lyfja til almennings. Þrátt fyrir margítrekaðar hækkanir ráðherrans á kostnaðarþátttöku sjúklinga í lyfjaverði hefur samkeppnin valdið því að neysluvísitala lyfja, þ.e. kostnaður þeirra sem lyfin kaupa, hefur lækkað úr 100 árið 1996 í 74 nú. Engu að síður lýsti ráðherra því yfir í svari til hv. alþm. Guðmundar Árna Stefánssonar að hún hefði ekki breytt skoðun sinni á frjálsri samkeppni í lyfjaverslun. Hún kvaðst enn þeirrar skoðunar að hún ætti ekki rétt á sér. Því spyr ég: Mun ráðherrann, í samræmi við þá skoðun sína, beita sér fyrir því að breyta lyfsölulögum í fyrra horf?

Að lokum, virðulegi forseti, hefur það komið fram í fréttum að nú skorti um 340 hjúkrunarfræðinga til starfa við stærstu sjúkrastofnanir landsins svo hægt sé að framkvæma svokallaða neyðaráætlun vegna fyrirsjáanlegra lokana sjúkrahúsa í sumar. Það skortir ekki 340 hjúkrunarfræðinga til að hægt sé að standa við starfsáætlun sjúkrahúsanna heldur til að framkvæma neyðaráætlun vegna fyrirsjáanlegra lokana. Þessir hjúkrunarfræðingar eru ekki til staðar. Engu að síður heldur hæstv. ráðherra við svokallaða neyðaráætlun sína um starfsemi sjúkrahúsa í sumar, og ég spyr: Hvar ætlar hæstv. ráðherra að fá þessa 340 hjúkrunarfræðinga sem ekki eru til, svo að hægt sé að standa við neyðaráætlun ráðherrans?

Virðulegi forseti. Það er ekki langur tími sem við höfum í þessari utandagskrárumræðu en það er vissulega full ástæða til þess að spyrjast fyrir um meiningu hæstv. ráðherra í þeim málaflokkum sem hún hefur með höndum. Hvar er stefna hæstv. ráðherra? Hæstv. ráðherra hefur boðað eitt og framkvæmt annað. Hún hefur jafnvel í einni og sömu setningunni lýst yfir skoðunum sem ekki ganga saman, um framkvæmd einstakra þátta í heilbrigðiskerfinu. Ég auglýsi eftir því, virðulegi ráðherra, að hæstv. ráðherra komi fram með þá stefnu og segi vilja sinn þannig að menn viti hvar hæstv. ráðherra stendur. Hvað er það sem hæstv. ráðherra vill? Hvað er það sem hæstv. ráðherra hefur hugsað sér að leggja fyrir Alþingi á síðasta starfsvetri sínum?