Heilbrigðismál

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 16:57:40 (7267)

1998-06-02 16:57:40# 122. lþ. 140.94 fundur 435#B heilbrigðismál# (umræður utan dagskrár), MF
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur, 122. lþ.

[16:57]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Enn einu sinni tökum við fyrir til umræðu stefnuna í heilbrigðismálum þegar við blasa mjög alvarleg vandamál eins og það sem hér var nefnt af hv. málshefjanda, hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, og ég vil þakka honum fyrir að taka þessi mál á dagskrá, en það er að hjúkrunarfræðingar hafa sagt upp störfum sínum. Það er óánægja með kjaramálin rétt eina ferðina enn innan heilbrigðisstéttanna sem segir okkur að þar höfum við staðið illa að málum á undanförnum árum þar sem upp koma nánast á hverju einasta ári ekki bara eitt heldur tvö eða þrjú alvarleg tilvik þegar heilu stéttirnar hafa sagt störfum sínum lausum og virkilega orðin þörf á því að kjaramál allra heilbrigðisstétta séu tekin til heildarendurskoðunar.

Þær fréttir sem við fáum samkvæmt fjölmiðlum, því að hæstv. ráðherra hefur ekki að fyrra bragði séð ástæðu til þess að upplýsa Alþingi um það alvarlega ástand sem við blasir sem auðvitað ætti að vera í verkahring hæstv. ráðherra, þ.e. að láta Alþingi vita af því þegar svona vandamál koma upp, en við megum hins vegar hlusta á það í fjölmiðlum að það vanti 340 hjúkrunarfræðinga eins og hér kom fram til þess að hægt sé að standa við svokallaða neyðaráætlun vegna sumarlokana. Það er mjög alvarlegt. Við lesum líka um það í fjölmiðlum að við megum búast við enn frekari sumarlokunum á sumum sjúkrahúsum en hafa verið undanfarin ár. Það er alvarlegt og það er enn alvarlegra þegar maður hugsar til þess að hæstv. ráðherrar hafa hver um annan þveran, ríkisstjórnin hæstv. endilöng, eins og ágætur maður orðaði það fyrir stuttu síðan, hefur keppst um það að segja okkur hvað við búum nú við mikið góðæri hér, þessi þjóð, hvað við höfum það fjári gott. En þetta góðæri hefur ekki skilað sér inn í heilbrigðiskerfið nema að sáralitlu leyti. Hæstv. ráðherra kom inn á það sem hún gerir svo gjarnan þegar rætt er um starfsemina, hvað allt sé nú á leið til betri vegar innan heilbrrn., þ.e. forvarnastarfið, að lagðar hafi verið að mér heyrðist hæstv. ráðherra segja 250 millj. kr. meira á undanförnum árum en áður hafi verið gert til forvarnastarfs. Mér finnst það satt að segja alltaf hlálegt þegar talað er um það í þessum tóni og það sé verið að gera þarna góða hluti. Forvarnastarfsemi er mjög takmörkuð. Forvarnastarfsemi sem hefur fengið meira fjármagn eru tóbaksvarnirnar. Höfum við séð sama árangur varðandi aðra fíkniefnaneyslu ungmenna? Hvað sagði skýrslan okkur sem sænskur lögregluþjónn og íslenskur, sem eru sérfræðingar á þessu sviði, voru að skila? Hvað sagði sú skýrsla? Að við hefðum náð þar árangri? Hvað sögðu foreldrarnir á ráðstefnu Vímulausrar æsku sem höfðu leitað til yfirvalda æ ofan í æ og hvergi er til meðferð fyrir börnin þeirra fársjúk? Hvergi nokkurs staðar. Ef við erum að tala þar um tiltölulega takmarkaðan hóp sem þarf á meðferð að halda vegna alvarlegra veikinda sem vímuefnaneyslan er, (Gripið fram í: Hvað þá?) er þá ekki komin ástæða til þess, úr því að við búum við þetta góðæri og hæstv. heilbrrh. talaði um milljarðana sem hafa farið í heilbrigðiskerfið, að beina þeim í þann farveg að þessu vandamáli, þessu alvarlegasta vandamáli þjóðarinnar í dag sé mætt?

Ég held að við megum skammast okkar fyrir það hvernig við höfum staðið að málum. Við stæðum ekki frammi fyrir þessum alvarlega vanda í dag ef við hefðum tekið á eins og okkur var bent á af erlendum sérfræðingum sem koma hingað til að segja okkur fleira en það að við búum við gott heilbrigðiskerfi. Þeir hafa komið hér líka til að segja: Þið standið illa að forvarnastarfsemi hvað varðar eiturlyfjaneyslu.

Virðulegi forseti. Ég vildi (Forseti hringir.) gjarnan taka heilsugæsluna og þær aðstæður sem hún býr við, en einn sterkasti þátturinn í allri forvarnastarfsemi er uppbygging heilsugæslunnar. Það er ekki nóg að byggja húsnæðið. Það verður líka (Forseti hringir.) að sjá til þess að peningar séu til fyrir rekstur.

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Það varð að samkomulagi að skammta okkur svona lítinn tíma fyrir þennan málaflokk og því miður verður hæstv. forseti þess vegna að slá svona oft í bjölluna.