Heilbrigðismál

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 17:11:24 (7270)

1998-06-02 17:11:24# 122. lþ. 140.94 fundur 435#B heilbrigðismál# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur, 122. lþ.

[17:11]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég ætla að gera að umtalsefni þær blikur sem eru á lofti í heilbrigðisþjónustu hér á landi, sérstaklega í rekstri stóru sjúkrahúsanna vegna uppsagna hjúkrunarfræðinga sem allt bendir til að muni koma til framkvæmda 1. júlí nk., eftir tæpan mánuð, og það hefur ekkert svar komið fram frá hæstv. ráðherra um hvernig hún muni haga þeirri neyðaráætlun sem hún hefur rætt um.

Í stuttum ræðutíma mínum ætla ég að gera að umtalsefni Sjúkrahús Reykjavíkur sem er aðalslysasjúkrahús allra landsmanna. Þar eru 400 stöður hjúkrunarfræðinga nú. Neyðaráætlun sjúkrahússins, ef af verkfalli verður, gerir ráð fyrir a.m.k. 230 hjúkrunarfræðingastöðum. Þann 1. júlí nk., eftir tæpan mánuð, verða 89 hjúkrunarfræðingar starfandi. Og við vitum að það er alltaf nokkuð stór hópur sem ekki getur sagt upp vegna heimilisaðstæðna, heilsufars, fjárhagsaðstæðna og t.d. barnshafandi konur. Þær eru í þessum hópi 89 hjúkrunarfræðinga.

Það er ljóst að aðstæður á slysasjúkrahúsinu Sjúkrahúsi Reykjavíkur verða þannig að aðeins verður hægt að veita lágmarksþjónustu við mikið slasaða og bráðveika einstaklinga. Það er ógjörlegt að veita þjónustu eins og t.d. núna um hvítasunnuna, á þeirri miklu ferðahelgi og þeirri því miður miklu slysahelgi. Ég minni á að helgin eftir að hjúkrunarfræðingarnir hætta, helgin 4. júlí, er langmesta unglingaferðahelgi ársins og ekki verður hægt að veita nema brot af þeirri þjónustu sem veitt var um síðustu helgi á slysasjúkrahúsinu. Þá verður ástandið þannig á helsta slysasjúkrahúsi allra landsmanna að óstarfhæf verður m.a. neyðarmóttaka vegna nauðgana, símaráðgjöfin, Almannavarnir ríkisins, eitrunarupplýsingamiðstöðin, áfallahjálpin, skyndihjálpin við aðstandendur deyjandi og mikið slasaðra og bæði skurðstofa og gæsludeild slysa- og bráðamóttöku, og hér er fátt eitt talið. Og ég minni á að ástandið er ekki betra á öðrum sjúkrahúsum.

Á geðdeild Sjúkrahúss Reykjavíkur hafa allir hjúkrunarfræðingar nema einn í hálfri stöðu sagt upp. Ég minni á að fólk er lagt inn á geðdeildina í kjölfar alvarlegra sjálfsvígstilrauna, vegna ofbeldis og jafnvel í sturlunarástandi og þarna er einn hjúkrunarfræðingur starfandi í hálfu starfi. Mikið geðsjúka og mikið sjúkt fólk þarf að senda heim til aðstandenda sem eru misjafnlega í stakk búnir til að sinna þeim eða jafnvel yfirleitt að taka við þeim og margir geðsjúkir eiga ekki í nein hús að venda.

Á Landakoti, öldrunarsjúkrahúsinu, verður ástandið skelfilegt. Það þarf að senda heim 50--60 rúmliggjandi öldrunarsjúklinga, sjúklinga sem ekki hefur verið hægt að útskrifa vegna sumarlokana.

Herra forseti. Grafalvarlegt ástand blasir við ef ekki verður samið við hjúkrunarfræðinga fyrir 1. júlí og ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig hyggst hún bregðast við þessu alvarlega yfirvofandi ástandi?