Heilbrigðismál

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 17:29:38 (7274)

1998-06-02 17:29:38# 122. lþ. 140.94 fundur 435#B heilbrigðismál# (umræður utan dagskrár), MF
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur, 122. lþ.

[17:29]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Heilbrigðisumræða undir neikvæðum formerkjum. Það hefur ansi lítið tækifæri gefist til þess í vetur að ræða um heilbrigðismálin nema um þessi örfáu afmörkuðu frv. sem hér hafa legið fyrir og svo aftur gagnagrunninn sem hv. þm. Katrín Fjeldsted nefndi ekki áðan. Ég hefði kannski viljað heyra álit hennar á hvaða afleiðingar það gæti haft fyrir heilbrigðiskerfið og hvernig hægt væri að skipuleggja það því það áttu að vera helstu rökin fyrir gagnagrunni að hægt væri að ná betur utan um heilbrigðiskerfið en áður.

Hér hefur verið nefnt að stjórnarandstaðan tali um niðurskurð, það geri ekki aðrir. Hvað með alla þá sem vinna innan þessa kerfis? Hvað með allar greinarnar, allar ályktanirnar frá öllum fundum þeirra starfsstétta sem vinna innan heilbrigðiskerfisins? Er ekkert að marka það? Hvernig í ósköpunum eiga heilbrigðisstofnanir að gera áætlanir fram í tímann? Aldrei nokkurn tímann getur neinn stjórnandi stofnunar innan heilbrigðiskerfis gert áætlun lengra en ár fram í tímann. Hingað til hefur það verið talinn aðall hvers fyrirtækis og hverrar stofnunar að geta gert áætlanir til lengri tíma litið. En í heilbrigðiskerfinu er ekki hægt að gera áætlanir nema hugsanlega til eins árs og varla það og þær þá brotnar niður jafnóðum og síðan er ábyrgðinni varpað yfir á stjórnendur heilbrigðisfyrirtækjanna eða stofnananna ef áætlanir ganga illa upp. Þetta er helsti og stærsti veikleikinn. Það segir sig sjálft að fyrsta og besta leiðin til að ná utan um heilbrigðiskerfið er að þessar stofnanir búi við fjárhagslegt öryggi um einhvern tíma.

Er það líka skrök, svo ég noti ekki ljótara orð en það, þegar við tölum um niðurskurð í byggðarlagi eins og því sem ég kem frá þar sem fólk bjó fyrir stuttu síðan við heilsugæslu sem var opin tvisvar í viku en núna einu sinni í viku í tvo tíma. Undirstaða heilbrigðiskerfisins, heilsugæslan, er opin í tvo tíma einu sinni í viku.

Auðvitað er hægt að hafa mjög hátt um þær tölur sem farið hafa til forvarnastarfsemi, í tóbaksvarnir, og hefur verið dreift til ýmissa félagasamtaka um land allt, sem er auðvitað alls góðs maklegt, til að mynda allir þeir samningar sem gerðir eru við öll sveitarfélög um forvarnastarfsemi varðandi fíkniefnin. En á meðan sú stofnun, heilsugæslan sem á að sjá um forvarnastarfsemina og við verðum að treysta á að sé í lagi fær ekki meira fjármagn en lýst var áðan af hv. þm. Katrínu Fjeldsted, sem þekkir þetta vel, er hún auðvitað bara að fara með bull úr því að hún segir að þetta sé ekki allt saman alveg hrein dýrð. Og að heilsugæslan öll í landinu fái það sama og heimilin bera af tannlæknakostnaði, einum þætti heilsugæslunnar, 2,3 milljarða og 2,3 til heilsugæslunnar allrar, til allrar forvarnastarfsemi því að hún er undirstaða allrar forvarnastarfsemi í landinu, þá lái mér hver sem vill, virðulegi forseti, þó að ég gefi lítið fyrir þá forvarnastarfsemi sem í gangi er ef það apparat sem á að skipuleggja hana og ég treysti miklu betur til að skipuleggja en heilbr.- og trmrn. því þar virðist mér ekki vera gott skipulag, fær ekki það fjármagn sem til þarf til að sinna lögboðnu hlutverki sínu, og lái mér hver sem vill að ég treysti því ekki að þarna sé nógu vel að verki staðið.