Skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 18:46:14 (7295)

1998-06-02 18:46:14# 122. lþ. 141.18 fundur 465. mál: #A skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald# þál. 26/122, MF
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[18:46]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka meiri hluta hv. umhvn. og hv. fulltrúum í umhvn. fyrir þá afgreiðslu sem hér er en verð jafnframt um leið að lýsa því að þessi niðurstaða skiptir kannski ekki eins miklu máli og hún hefði getað gert fyrir einhverjum vikum eða örfáum vikum síðan vegna þess að á þeim tíma sem liðinn er frá því að umhvn. hv. fjallaði um þessi mál er búið að afgreiða mjög stór mál sem snerta nákvæmlega þetta svið, þau svið sem kveðið er á um í tillögunni og greinargerðinni og við umræðu um tillöguna í þinginu. Eitthvert stærsta pólitíska mál þingsins sem heitir nú Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu, hefur verið afgreitt frá þinginu.

Það sem hægt er að gera sér vonir um eftir samþykkt þessarar tillögu er fyrst og fremst það að vönduð vinna leiði til betri vinnubragða en hafa verið viðhöfð varðandi afgreiðslu og framsetningu þeirra mála sem hér hafa verið afgreidd með býsna miklum hraða og snerta eignarhald og nýtingu á auðlindum landsins.

Ég get á vissan hátt tekið undir þá brtt. sem var verið að mæla fyrir um það að setja nefndinni ákveðin tímamörk, þ.e. að hún ljúki störfum innan ákveðins tíma. Ef þau tímamörk yrðu sett á næstu áramót þyrfti að sjálfsögðu að skipa þessa nefnd áður en þingið færi heim. Ég treysti því vel hvort sem um er að ræða þingflokka í minni hluta eða meiri hluta að menn velji til setu í slíkri nefnd fagmenn á sviði hagvísinda, félagsvísinda og náttúruvísinda eins og kemur fram í nál. 1. minni hluta umhvn. að sé nauðsyn á, þ.e. að þessi nefnd verði ekki bara pólitískt skipuð heldur verði hún skipuð fagfólki. Og ég treysti því að þingflokkarnir, eigi þeir að skipa í nefndina, hafi það að leiðarljósi að okkar færustu vísindamenn fjalli um þessar viðkvæmu auðlindir sem við eigum.

Ég get samt ekki látið hjá líða að nefna það að viss tvískinnungur er á ferðinni í því að afgreiða þessa tillögu frá þinginu þegar búið er að afgreiða frv. til laga um eignarhald á nýtingu á auðlindum í jörðu, sem heitir að vísu öðru nafni í dag, og þau mál sem keyrð voru hér í gegn. Ég verð því að lýsa þeim vonum mínum að niðurstaða úr vinnu nefndarinnar liggi fyrir hið fyrsta sem gæti hugsanlega orðið um næstu áramót þó að það sé kannski fullmikið í lagt að setja tímamörk í svo skamman tíma því að mikla vinnu á eftir að vinna. Þó að búið sé að afgreiða frv. til laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu þá virðist vera að þar hafi vinnunni verið afar ábótavant við undirbúning þess frv. Miðað við þær umsagnir sem við höfum séð frá þeirri nefnd sem fjallaði um frv. og miða við þá umræðu sem hér átti sér stað þá var undirbúningurinn ekki mjög vandaður, svo maður taki ekki sterkara til orða.

En ég vænti þess að sú nefnd, ef þetta nál. verður samþykkt, ljúki störfum sem allra fyrst og tek undir þá brtt. sem hér var á ferðinni, a.m.k. að menn reyni að ná sáttum um vinnulok, um dagsetningu og að sú vinna verði notuð til þess að laga það sem aflaga fór við afgreiðslu þeirra mála sem meiri hlutinn er nýlega búinn að gera að lögum hér.