Áfengislög

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 19:16:19 (7298)

1998-06-02 19:16:19# 122. lþ. 141.24 fundur 478. mál: #A áfengislög# (heildarlög) frv. 75/1998, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[19:16]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þær brtt. sem mælt hefur verið fyrir af hálfu formanns nefndarinnar styð ég allar og tel þær til bóta, en eins og fram kom í máli hennar skrifum við tveir nefndarmenn, ég og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir, undir nál. með fyrirvara. Tilefni þess er m.a. brtt. sem við flytjum á þskj. 1434 sem ég vil gera grein fyrir.

Eins og fram kom í máli formanns eru í frv. sett skýrari og ótvíræðari ákvæði um áfengisveitingaleyfi og skilyrði sem leyfishafar þurfa að fullnægja. Meðal þeirra skilyrða sem leyfishafar þurfa að uppfylla er að þeir leggi fram tryggingar fyrir kröfum sem kunna að stofnast á hendur þeim vegna rekstursins og að þeir séu ekki í verulegum gjaldföllnum skuldum við hið opinbera eða lífeyrissjóði. Þá kem ég að fyrri brtt. vegna þess að við sem skipum minni hlutann teljum að þetta þurfi einnig að ná til launa, þ.e. ef umsækjandi skuldar starfsmönnum eða fyrrverandi starfsmönnum sínum laun. Við teljum það ekki síður mikilvægt en ef umsækjandi skuldar t.d. lífeyrissjóðsgreiðslur eða opinber gjöld. Við teljum þó ekki rétt að undir upphæðina sem þarna er getið, 500 þús. kr. í frv., falli einnig launin þannig að hér er um sjálfstætt ákvæði að ræða, þ.e. það orðast svo að á eftir orðunum ,,hærri fjárhæð en 500.000 kr.`` í 3. mgr. komi: ef umsækjandi skuldar starfsmönnum eða fyrrverandi starfsmönnum sínum laun. Við teljum rétt að í ákvæði sem sett eru um reglugerð í 14. gr. þar sem kveðið er á um að dómsmrh. setji í reglugerð nánari reglur um áfengisveitingar, þar á meðal um veitingatíma, útgáfu leyfa, flokkun veitingastaða, húsnæði og búnað og eftirlit með starfsemi leyfishafa, væri hægt að fella þá upphæð sem þarna á að gilda eða eftir atvikum um reglugerð sem dómsmrh. ákveður um skilmálatryggingar. En við teljum mjög nauðsynlegt að undanskilja ekki launin.

Síðari brtt. er við 17. gr. frv. en þar er kveðið á um að heimilt sé, þegar sérstaklega stendur á, að veita ábyrgðarmanni húsnæðis leyfi til áfengisveitinga af sérstöku tilefni. Við teljum mjög nauðsynlegt að undirstrikað sé í þessari grein að leyfi samkvæmt þessari grein feli ekki í sér heimild til að stunda áfengisveitingar í atvinnuskyni og tekin séu öll tvímæli þar af með þessari brtt.

Ég vil líka fara aðeins inn á spírann sem hv. frsm. nefndi. Spurning var hvernig farið væri með dreifingu spírans eftir afnám einkaleyfis ÁTVR á dreifingu hans en samkvæmt núgildandi reglum geta viðskiptavinir heildsala verið ÁTVR, veitingahús og áfengisframleiðendur og spurningin snerist því um hverjir mega selja sjúkrahúsum eða rannsóknarstofum spíra, t.d. hvort dreifingin yrði í höndum Lyfjaverslunar ríkisins. Ég vil geta þess að ég gekk nokkuð fast eftir því að dómsmrn. hlutaðist til um að við fengjum upplýsingar um hvernig heilbrrn., sem kemur að hluta til að þessu máli, mundi standa að því og ég fékk eftirfarandi tölvupóst þar að lútandi frá Kolbeini Árnasyni, sem er fulltrúi í dómsmrn., sem ég vil lesa en þar segir svo:

,,Ráðuneytið vísar til samtala við yður varðandi þá breytingu sem frumvarp til áfengislaga sem nú liggur fyrir Alþingi gerir ráð fyrir að verði á innflutningi og sölu á spíra, annars en þess sem telst áfengi samkvæmt skilgreiningu frumvarpsins. Gert er ráð fyrir þeirri breytingu á frumvarpinu að einkaleyfi ÁTVR til innflutnings og sölu á spíra falli niður og ekki verði kveðið á um það í áfengislögum hvernig fara skuli með innflutning eða sölu hans.

Við samningu frumvarpsins var gert ráð fyrir að um þessi efni yrði fjallað á sama hátt og önnur efni sem notuð eru til svipaðra verka. Ráðuneytið taldi því eðlilegast að fjallað yrði um þessi mál í heilbrigðisráðuneytinu.

Dómsmálaráðuneytið hefur vakið athygli heilbrigðisráðuneytisins á þeim atriðum sem taka þarf á vegna breytinga þeirra sem gert er ráð fyrir í frumvarpi til áfengislaga hvað þetta varðar og samkvæmt upplýsingum heilbrigðisráðuneytisins mun verða brugðist við þessu verði frumvarpið að lögum.``

Við flytjum því ekki, herra forseti, brtt. við 3. gr. sem þetta félli þá undir heldur verðum við að treysta því að með dreifingu spírans verði farið með þeim hætti sem ég lýsti.

Ég vil geta þess varðandi 18. gr. frv. sem nokkuð mikið var rædd í frv., þ.e. um áfengiskaupaaldurinn, að ég hef lýst því yfir að ég telji að Alþingi eigi að taka afstöðu til þess hvort lækka eigi áfengiskaupaaldurinn í 18 ár. Ýmsar umsagnir liggja fyrir um að eðlilegt sé að gera það, m.a. frá Landlæknisembættinu, lögreglunni og Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar auk þess sem Samband veitinga- og gistihúsa hafa mjög eindregið tekið undir þetta. Það hefur komið fram hjá þeim og eftirlitsmönnum að mjög erfitt sé að fylgjast með því á áfengisveitingastöðum að þeir sem eru yngri en 20 ára neyti þar ekki áfengis eða þeim sé selt áfengi. Það er auðvitað fyrir utan önnur rök sem við sem viljum lækka áfengiskaupaaldurinn höfum teflt fram í þessu máli sem ég ætla ekki að tíunda núna. Ég gerði það við 1. umr. þessa máls og boðaði þá að ég mundi flytja brtt. um lækkun á áfengiskaupaaldrinum. Eins og formaður allshn. nefndi náðist breið samstaða um það í nefndinni að sett yrði milliþinganefnd í málið sem starfa mundi í sumar og skila af sér í upphafi næsta þings þar sem hún mundi kanna ýmsa þætti sem lúta að þessu máli, kosti og galla þess að breyta áfengiskaupaaldrinum hér á landi og liti þar til reynslu annarra þjóða sem hafa breytt áfengiskaupaaldrinum og meta áhrif þess til lengri og skemmri tíma að færa áfengiskaupaaldurinn niður í 18 ár og hvaða forvarnaaðferðum þurfi að beita ef farið er í slíka breytingu. Einnig hvort rétt væri að skoða það að breyta samhliða aldrinum til ökuleyfa úr 17 í 18 ár. Ég tel það góðra gjalda vert þótt ég þurfi út af fyrir sig enga sannfæringu fyrir því að rétt sé að gera þetta. Ef það má verða til þess að um það náist breiðari samstaða á þinginu, er ég tilbúin að fallast á svo afdráttarlausa tillögu sem hér er sett fram um að tafarlaust verði farið í slíka vinnu og að þetta muni liggja fyrir í upphafi næsta þings þannig að næsta þing geti þá tekið afstöðu í því máli.

Í lokin vil ég nefna að það er aldeilis fráleitt ákvæði í 18. gr. frv., og er að vísu gamalt ákvæði en ekki nýtt, þar sem vikið er að því að á veitingastað sem hefur leyfi til áfengisveitinga er ungmennum yngri en 18 ára óheimil dvöl eftir kl. 20 á kvöldin og fram til lokunar staðarins nema í fylgd með foreldrum sínum eða maka. Unglingar 16 til 18 ára mega þá ekki fara inn á þessa staði sem hafa leyfi til áfengisveitinga nema í fylgd með foreldrum sínum eða maka. Það þarf ekki mörg orð um það, herra forseti, að svona ákvæði á ekki heima í nútímalegri löggjöf og heyrir fortíðinni til og ég verð auðvitað að vænta þess að samhliða því sem nefnd dómsmrh. skoðar þetta mál, þurrki hún þetta ákvæði út úr íslenskri áfengislöggjöf, því það tilheyrir gömlum tíma.