Lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 20:41:11 (7301)

1998-06-02 20:41:11# 122. lþ. 141.20 fundur 445. mál: #A lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara# (heildarlög) frv. 86/1998, Frsm. meiri hluta SAÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[20:41]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) (andsvar):

Í 2. tölul. 12. gr. segir:

,,Leyfi til þess að nota starfsheitið framhaldsskólakennari skv. 11. gr. má aðeins veita þeim sem lokið hefur námi á háskólastigi sem veitir undirbúning til kennslu í faggrein eða á fagsviði framhaldsskóla og jafngildir a.m.k. 120 námseiningum ásamt fullgildum lokaprófum; þar af skulu 60--90 einingar vera í aðalgrein og 30--60 einingar í aukagrein; til viðbótar þessu námi komi 15 eininga nám í kennslufræði til kennsluréttinda.``

Það er alveg ljóst að hér er verið að setja niður ákvæði sem gerir þeim sem hafa þennan heildareiningafjölda, 120 námseiningar, kleift að öðlast kennsluréttindi með því að taka þá til viðbótar 15 einingar í kennslufræði. Og þau skilyrði sem hér eru sett til þess að fólk geti gert þetta eru að það skuli vera 60--90 einingar í aðalgrein og 30--60 einingar í aukagrein, nákvæmlega eftir orðanna hljóðan í greininni.