Lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 20:43:09 (7303)

1998-06-02 20:43:09# 122. lþ. 141.20 fundur 445. mál: #A lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara# (heildarlög) frv. 86/1998, Frsm. minni hluta SJóh
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[20:43]

Frsm. minni hluta menntmn. (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hluta menntmn. um frv. um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra, en nál. er svohljóðandi:

,,Í gildandi lögum um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra er kveðið á um endurskoðun þeirra eftir fjögur ár. Frumvarp um endurskoðun laganna var fyrst lagt fram árið 1990 á 113. löggjafarþingi og síðan á 121. löggjafarþingi án þess að hljóta afgreiðslu. Löngu er tímabært að endurskoða umrædd lög.

Eftir umræðu í þjóðfélaginu um nauðsyn bætts skólastarfs veldur miklum vonbrigðum að ríkisstjórnin skuli leggja fram jafnmetnaðarlaust lagafrumvarp um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra og raun ber vitni hér.

Þrátt fyrir stór orð um mikilvægi þess að efla kennaramenntun í kjölfar TIMSS-rannsóknanna á árangri íslenskra grunn- og framhaldsskólanema í raungreinum í nýlegri heildarúttekt á kennaramenntun í landinu og þrátt fyrir kröfur um aukna fagmennsku framhaldsskólakennara í námsmati, mati á skólastarfi og skólanámskrárgerð í framhaldsskólalögunum ber lítið á metnaði í frumvarpinu og sums staðar er dregið úr menntunarkröfum frá því sem nú er. Mest er dregið úr kröfum um kennslufræðimenntun tveggja hópa framhaldsskólakennara, þ.e. tæknifræðinga og iðnmeistara annars vegar og þeirra sem hafa lokið 120 eininga námi eða meira á fagsviði framhaldsskóla hins vegar. Segja má að frumvarpið gengisfelli starfsréttindi framhaldsskólakennara. Þá er rýrt gildi kennararéttinda listgreinakennara í framhaldsskólum, sbr. 21. gr. frumvarpsins og breytingartillögu meiri hlutans við hana. Þetta er gert þvert á vilja samtaka kennara, þ.e. HÍK og KÍ, sem harma trúnaðarbrest sem varð milli samtakanna og menntamálaráðherra við samningu frumvarpsins, en því var breytt eftir að kennarasamtökin komu að málinu. Þetta gengur sömuleiðis þvert á vilja Félags íslenskra myndlistarkennara, en stjórn þess harmar að 30 eininga kennsluréttindanám, sem félagsmenn þeirra sækja til HÍ, er með þessu frumvarpi gert óþarft. Þetta er einnig gagnstætt vilja allra stofnana sem veita kennaramenntun, þ.e. Kennaraháskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands, sem mæla með að halda kröfum óbreyttum eða auka þær. Háskóli Íslands telur að skerðing á kennslufræðináminu sé í ósamræmi við tillögur matsnefndar um kennaramenntun sem mælir með að kennsluárið sé lengt, það er 40 vikur víða erlendis en 26 vikur hér, og segir að ekki megi skerða grunnmenntun kennara og að auk 30 eininga kennslufræðináms í HÍ eigi að bjóða kennslufræði greina innan BA- og BS-námsins í deildum HÍ og auka æfingakennslu. Þá hefur verið bent á margs konar fagleg og fjárhagsleg rök gegn þessari skerðingu. Þau hafa verið ítarlega kynnt nefndinni og menntamálaráðherra. Enn eitt dæmið um gengisfellingu réttinda er að með frumvarpinu eru felld úr lögunum öll ákvæði um starfsheiti og starfsréttindi sérkennara, bæði í almennum skólum og sérskólum.``

[20:45]

Vegna misskilnings eða einhvers konar mistaka var Félag ísl. sérkennara ekki beðið um að veita umsögn um þetta frv. sem snertir þeirra mál svo mikið en þeir sendu á síðasta stigi málsins eftir að það hafði verið afgreitt út úr menntmn. umsögn og í þeirri umsögn er svohljóðandi klausa:

,,Í 4. gr. gildandi laga eru sett fram skilyrði um menntun sérkennara sem sinna sérþörfum nemenda í almennum skólum á grunnskólastigi. Þar kemur einnig fram hvaða menntunar er krafist af sérkennara sem sinnir börnum í sérdeildum og skólum fyrir börn með sérþarfir. Þessi grein gildandi laga (4. gr.) er í samræmi við 38. gr. laga um grunnskóla frá 1995 og núgildandi reglugerð um sérkennslu. Þessar greinar hafa miðað að því að í grunnskólum og sérskólum sé fagfólk sem hefur sérfræðilega þekkingu á námi og kennslu nemenda með sérþarfir.

Í frumvarpinu er ekkert minnst á menntunarkröfu til þeirra sem sinna sérkennslu nemenda sem tilheyra almennum bekkjardeildum en tekið fram að fellt sé niður ákvæði 4. gr. gildandi laga um skilyrði þess að vera skipaður eða ráðinn sérkennari við sérskóla eða sérdeildir grunnskóla. Það er rökstutt með því að þessar deildir og skólar séu hluti af almennum grunnskóla.

Stjórn Félags íslenskra sérkennara telur þennan rökstuðning ófullnægjandi og bendir á að þegar gildandi lög voru sett, sem kveða á um menntun sérkennara til að sinna sérkennslu, voru nemendur með sérþarfir einnig í almennum grunnskólum. Aðrar aðstæður eru einnig óbreyttar. Ekki hafa orðið slíkar breytingar á inntaki kennaranáms né lengd þess að ætla megi að almennir kennarar séu nú færari en áður til þess að glíma við vanda barna með sérþarfir án menntaðs sérkennara. Ekkert hefur komið fram sem bendir til að nemendur með sérkennsluþarfir hafi minni þörf fyrir þekkingu sérkennarans á námi þeirra og kennslu í grunnskólum og sérskólum nú en þegar gildandi lög voru sett. Ekki verður betur séð en frumvarpið veiki stöðu barna með sérþarfir í skólakerfinu.``

Niðurstaða okkar í nefndarálitinu var að auk þess að minnka gildi menntunar sérkennara muni þetta gera erfiðara að ráða sérkennara til framhaldsskóla, eins og bent er á í umsögn Skólameistarafélags Íslands. Þetta er gert án þess að sérkennarar hafi fengið tækifæri til að veita umsögn um frumvarpið. Af þessum sökum mun minni hlutinn fara fram á að menntamálanefnd hitti fulltrúa sérkennara á milli 2. og 3. umr. Þá mun minni hlutinn flytja breytingartillögur þar að lútandi við 3. umr. ef ástæður þykja til.

Í nefndaráliti meiri hlutans er því haldið fram að í frumvarpinu sé lögð áhersla á mikilvægi aukinnar fagmenntunar kennara. Í því sambandi er bent á ákvæði 5. gr. um að kennari geti fengið forgang til að kenna faggrein sína í 8.--10. bekk grunnskóla. Spyrja má, hvers vegna eingöngu í þessum bekkjum? Meiri hlutinn bendir á að í 15. gr. er miðað við að framhaldsskólakennari kenni þær greinar eða á því sviði sem hann er menntaður til. Þetta orðalag takmarkar í raun ekki að landfræðingur sem ekki hefur mikla stærðfræðiþekkingu kenni stærðfræði. Einnig er bent á að í 11. gr. er gert ráð fyrir að í leyfisbréfi framhaldsskólakennara skuli tilgreina kennslugrein þeirra eða sérsvið. Af frumvarpinu má skilja að nóg sé að hafa próf í aukagrein, þ.e. 30 einingar, til að kenna grein í framhaldsskóla. Það eru verulega minni kröfur en samkvæmt gildandi lögum þó að þetta svari þörfum smærri skóla fyrir kennara sem geta kennt fleiri en eina grein. Því verður alls ekki séð að hér séu gerðar meiri kröfur um þekkingu í faggrein en áður og ekki er farið að tilmælum KHÍ um kandídatsár eða að fjórða árinu sé bætt við B.Ed.-námið í KHÍ. Þá má benda á að ekki eru gerðar sérstakar menntunarkröfur til skólastjóra eða skólameistara umfram kennara í þessu frumvarpi, þótt annað mætti ráða af nafni frumvarpsins.

Vandann við að ráða sérhæfða kennara í fámennum tæknigreinum eða öðrum greinum verður að leysa með skýrari ákvæðum í framannefndum greinum frumvarpsins, en ekki með því að skerða færni þeirra sem hafa mestu fagmenntunina til að miðla henni með því að draga úr menntun í kennslufræði.

Minni hlutinn mun flytja breytingartillögur við 12. og 21. gr. í sérstöku þingskjali og styður þær breytingartillögur meiri hlutans sem vissulega eru til bóta. en þær eru nokkrar.

Þær brtt. sem við leggjum til við 12. gr. er að 2. tölul. 1. mgr. falli brott og 3. tölul. 1. mgr. orðist svo: ,,námi í tæknifræði eða meistaranámi í iðngrein; til viðbótar þessu námi komi 30 eininga nám í kennslufræði til kennsluréttinda.``

Svo leggjum við til breytingu við 21. gr., um að greinin orðist svo:

,,Heimilt er að víkja frá ákvæðum laga þessara þegar um er að ræða kennslustörf í sérskólum í listum.``

Við samþykkjum ekki eins og meiri hlutinn leggur til að það verði einnig í sérstökum listnámsdeildum framhaldsskólanna.