Lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 21:30:18 (7307)

1998-06-02 21:30:18# 122. lþ. 141.20 fundur 445. mál: #A lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara# (heildarlög) frv. 86/1998, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[21:30]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í umræðunum þá var það svo og hefur verið að þeir sem hafa sinnt uppeldis- og kennslufræðum telja æskilegast að það séu 30 einingar. Hins vegar hefur það líka komið fram í gögnum til hv. nefndar og í skjölum sem ég hef einnig fengið frá þeim sem starfa í Háskóla Íslands að þeir telja að það sé unnt að skipuleggja 15 eininga nám í uppeldis- og kennslufræði. Það sem þeir hafa hins vegar gert athugasemdir við er það atriði hvort krafan um fagþekkinguna sé nægilega skýr í 12. gr. Hvort þar sé nægilega fast að orði kveðið um það að menn hafi raunverulega fagþekkingu eins og hv. þm. hafa einnig rætt hér í þessum umræðum.

Þeir hafa hins vegar sagt: Við getum leyst 15 eininga málið en við viljum fá skýrara skilgreint í frv. eða þá í reglugerð hvað það er sem menn þurfa að uppfylla til þess að geta sagt við okkur: Við eigum rétt á því að fá þessi réttindi eftir 15 einingar.

Það liggur því alveg fyrir hjá þessum aðilum að þeir hafa sagt að þeir geti boðið 15 eininga nám sem þeir telja fullnægjandi.