Lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 21:34:37 (7310)

1998-06-02 21:34:37# 122. lþ. 141.20 fundur 445. mál: #A lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara# (heildarlög) frv. 86/1998, GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[21:34]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það var fróðlegt að heyra viðbrögð hæstv. ráðherra. Það eru nokkrar spurningar sem ég vil koma með. Í fyrsta lagi andmælti ráðherrann því að þarna væru gerðar minni kröfur. Ég velti fyrir mér, hvar kröfur eru efldar? Ég get ekki séð að það sé neins staðar gert.

Varðandi þennan þátt sem hæstv. ráðherrann ræddi síðast, um að það hefði ekki verið hægt að orða þetta þannig að miða við meistarapróf, þá ætla ég að leyfa honum að heyra orðalagið á tillögunni eins og við vorum búin að koma okkur saman um hana og munum hugsanlega flytja við 3. umr. Þar stendur:

,,Æðri prófgráðu frá háskólum, þ.e. meistara- eða doktorspróf sem krefst a.m.k. 120 námseininga og veitir undirbúning til kennslu í fagrein eða fagsviði framhaldsskóla. Til viðbótar þessu námi komi 15 einingar.``

Ég tel að þetta orðalag muni gera heilmikið í því að tryggja að það komi til aukin fagmenntun samfara því að kennslufræðinámið minnki. Það er því miður ekki tryggt núna því að fólk getur bætt við sig einingum úr nýrri grein þess vegna. Vissulega má taka á því með reglugerð en það væri mun æskilegra að hafa skýrara lagaákvæði og ég beini því til ráðherrans að hann taki það til skoðunar.

Þá vil ég aftur koma inn á annað atriði sem er mjög varhugavert. Það stendur í 15. gr. að við það skuli miðað að framhaldsskólakennari kenni þær greinar eða á því sviði sem hann er menntaður á. Fyrir þetta er meiri hlutinn að hrósa sér í nál. En á það hefur verið bent að þetta t.d. þýði þá að ef einhver hefur 60 og 30 einingar þá geti viðkomandi framhaldsskólakennari kennt með 30 eininga nám í grein. Þetta er bein viðurkenning á því og þess vegna lækkun á þeim kröfum sem verið hafa ef hann á að kenna þær greinar sem hann er menntaður til. Hins vegar má hann kenna á því sviði sem hann er menntaður til, ef hann er t.d. menntaður sem landfræðingur þá hefur hann réttindi samkvæmt þessu frv. til að kenna stærðfræði. Þetta er ekki til þess að efla faglegar kröfur í framhaldsskólanum.

Í þriðja lagi vil ég nefna sérkennara. Hvar hefur sérkennari nú tryggingu fyrir því að hans fagréttindi séu viðurkennd? Vissulega eru sérkennarar líka kennarar en það er ekki punkturinn. Punkturinn er að þeir eru búnir að mennta sig sem fagkennara, sem sérkennara, og núna er allt í einu ekkert um það í lögum, þannig að ég get ekki séð annað en að skólastjóri geti látið bara hvern sem er fá sérkennslukvóta. Eru það þær auknu kröfur sem hæstv. ráðherra er að boða?