Lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 21:41:20 (7313)

1998-06-02 21:41:20# 122. lþ. 141.20 fundur 445. mál: #A lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara# (heildarlög) frv. 86/1998, Frsm. minni hluta SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[21:41]

Frsm. minni hluta menntmn. (Sigríður Jóhannesdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir að það er nauðsynlegt að hafa faglegar meginkröfur að leiðarljósi og það er mjög áríðandi að við köllum það besta fólk sem völ er á til starfa í skólunum þegar við erum að kenna starfsgreinar.

En það sem hefur skort á hingað til er ekki að fólk sem hefur köllun til að sinna þessum kennslustörfum hafi ekki viljað fara í þetta nám. Það hefur sótt mjög fast að fara í þetta nám. Vandamálið er að það hefur ekki verið nægilegt framboð af slíku námi til að allir gætu komist í það sem hafa áhuga á. Ég verð að segja að nú verður sjálfsagt að reka þetta 30 eininga nám áfram því að ekki hafa margir --- a.m.k. ekki allir --- margra ára reynslu af því að hafa lærlinga sem vilja fara þarna til starfa, og þá verður að reka þetta 15 eininga nám samhliða. Og ekki einfaldar það málið eða gerir það ódýrara.

Mér finnst þarna verið að fara úr öskunni í eldinn, hæstv. forseti. Og ég hef áhyggjur af þessu, sérstaklega hvað viðkemur starfsmenntakennurunum sjálfum.