Lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 21:48:28 (7316)

1998-06-02 21:48:28# 122. lþ. 141.20 fundur 445. mál: #A lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara# (heildarlög) frv. 86/1998, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[21:48]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Aðeins til að víkja hér að atriði sem fram kom fyrr í umræðunni og mér fannst ekki gerð nægjanleg skil í andsvari en lýtur að sérkennslu og því sem hæstv. ráðherra sagði um sérkennslu. Hann útskýrði fyrir okkur, þolinmóður eins og góður kennari, að það hefði verið ákveðið með grunnskólalögunum að sérkennsla færi fram í grunnskólanum. Þar afleiðandi væru engir sérstakir sérkennarar til lengur heldur bara kennarar og svo væru gerðar til þeirra mismunandi kröfur. Ég held að ég fari nokkurn veginn rétt með það sem ráðherrann sagði.

Ég get sagt það, herra forseti, að þetta var líka minn skilningur. En þegar sérkennarar hnipptu í hv. menntmn. vegna þessa frv. þá fór ég og skoðaði þau gögn sem fyrir liggja og ég verð að segja að mér kom það nokkuð á óvart að í reglugerð um sérkennslu, nr. 389/1996, sett 26. júní það ár og sett með heimild í 37. gr. laga nr. 66/1995, um grunnskóla, kemur fram að sérkennsla skuli vera framkvæmd af sérkennurum, ef það má orða það svo. Þar kemur fram í 3. gr. um markmið og skilgreiningu á sérkennslu, með leyfi forseta:

,,Sérkennsla felur í sér verulega breytingu á námsmarkmiðum, námsefni, námsaðstæðum og/eða kennsluaðferðum miðað við það sem öðrum nemendum á sama aldri er boðið upp á.``

En það er augljóst að hér er verið að gera verulegar kröfur umfram það sem unnt er að gera til umsjónarkennara eða bekkjarkennara hvað varðar þekkingu á sérþörfum nemenda. Og það er bætt við í a-lið 3. mgr. 3. gr., með leyfi forseta, að í sérkennslu felist m.a.:

,,Gerð rökstuddrar námsáætlunar fyrir nemendahóp eða hvern einstakling sem byggð er á upplýsingum um heildaraðstæður nemanda og á athugun og mati á stöðu hans í námi og þroska.``

Þegar síðan þessi reglugerð er skoðuð og komið að kaflanum um starfsfólk, en það er VI. kafli þessarar reglugerðar, sem ber yfirskriftina Starfsmenn, og 16. gr. er lesin, þá stendur þar, með leyfi forseta:

,,Sérkennsla skal innt af hendi af sérkennara eftir því sem við verður komið, eða undir umsjón sérkennara ef betur þykir henta að nemandi fái sérkennslu hjá umsjónarkennara eða öðrum kennurum.``

Þegar síðan reglugerðin er skoðuð frekar, og það var gert vegna þess að sérkennarar báru sig aumlega, þá kemur í ljós að hér er engin skilgreining á þeim kröfum sem til þeirra hlýtur að verða að gera, eftir að annars vegar er búið að lýsa því hvað sérkennsla er og hins vegar að segja, eins og segir í 16. gr., að sérkennslu skuli inna af hendi af sérkennara.

Ég vildi bara, herra forseti, vegna þess sem áður hafði komið fram um þetta mál hér, láta það koma fram að tillögur okkar og málflutningur hvað varðar sérkennarana byggir á þessari reglugerð sem augljóslega skilur það eftir að kröfur til sérkennara verði skilgreindar í öðrum lögum og þá væntanlega í þeim lögum sem frv., sem við erum nú að fjalla um, á að lúta að.