Lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 21:52:53 (7317)

1998-06-02 21:52:53# 122. lþ. 141.20 fundur 445. mál: #A lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara# (heildarlög) frv. 86/1998, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[21:52]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Meginstefnan er sú að sérkennslan sé hluti af almennu kennslustarfi og að sérkennarar séu þess vegna með sams konar réttindi og almennir kennarar. Telji menn síðan að þessi reglugerð um sérkennslu, sem hv. þm. vísaði til, sé gölluð að því leyti að hún geri of miklar kröfur og standist þess vegna ekki grunnskólalögin þá er sjálfsagt að taka það til endurskoðunar því ég ætla ekki að sitja undir því að sett hafi verið reglugerð sem ekki stenst grunnskólalögin og að það verði þá að skoða það frekar heldur en að fara að búa til hér einhverja nýja skiptingu í þessu frv. sem við erum nú að fjalla um. Það verður að skoða það alveg sérstaklega því ég tel að það sé samdóma álit allra sem hafa komið að þessu --- sérkennarar reka að sjálfsögðu sitt mál --- að lögin veiti þeim nægileg réttindi miðað við þær almennu kröfur sem sjálfsagt er að gera.

Ef hins vegar svo fer að þessi reglugerð er lögð út á þann veg sem hv. þm. gerði, að það þurfi að setja í sérstök lög um sérkennara, þá er það spurning í mínum huga hvort ég hafi hugsanlega gengið of langt með setningu reglugerðarinnar.