Lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 21:56:04 (7319)

1998-06-02 21:56:04# 122. lþ. 141.20 fundur 445. mál: #A lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara# (heildarlög) frv. 86/1998, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[21:56]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Ég ætla að nota tækifærið, herra forseti, og spyrja hæstv. ráðherra. Það kemur fram í umsögn Skólameistarafélagsins minnir mig að það sé mjög bagalegt að ekkert skuli vera sagt um sérkennara á framhaldsskólastigi, og það muni verða til þess að það verði erfiðara að ráða sérkennara þar inn. Yfirleitt eru sérkennarar ekki starfandi á framhaldsskólastigi. Nú eru gerðar auknar kröfur um það, bæði vegna náms fatlaðra í framhaldsskólum og einnig vegna þess að það er stefnt að því að sem flestir fari í framhaldsskóla og þá koma jafnvel ólæsir einstaklingar þangað inn. Þannig að vaxandi þörf á sérkennurum til kennslu í framhaldsskólunum er viðurkennd. Skólameistarafélagið kemur með þá ábendingu að þeim finnist bagalegt að ekkert skuli vera talað um sérkennara í framhaldsskólum í þessu frv. Þess vegna vil ég enn einu sinni spyrja, því mér finnst ekki hafa komið nægilega góð rök fyrir því hvers vegna, eins og í gömlu lögunum stendur skýrt, að til þess að vera kallaður sérkennari þurfi að hafa 30 einingar eða 60 einingar eftir því hvar kennt er. Mér finnst t.d. algjörlega óljóst nú hver skilgreiningin á sérkennara er. Hvort það sé nóg að hafa eitt ár, eins og sumir hafa, eða hvort verði að hafa tvö. Hvort það sé mismunandi eftir því hvort kennt er sérskólum eða í almennum grunnskólum og hvaða kröfur á að gera til þeirra sem hugsanlega verða ráðnir sem slíkir inn í framhaldsskólana. Þetta verður að vera skýrara og þess vegna óska ég eindregið eftir því að mennmtn. komi saman á milli 2. og 3. umr. og það verði hugað að því hvernig hægt er að tryggja að sérkennarar fái sín réttindi viðurkennd og að það verði hægt að ráða þá til framhaldsskólana.