Lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 22:01:38 (7322)

1998-06-02 22:01:38# 122. lþ. 141.20 fundur 445. mál: #A lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara# (heildarlög) frv. 86/1998, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[22:01]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi inntak náms í Kennaraháskólanum þá er það Kennaraháskólinn sem skilgreinir það. Það er ekki menntmrn. sem setur Kennaraháskólanum námskrá eða háskólunum yfirleitt og það eru ekki heldur gerðar kröfur um neina sérmenntun eða kennslufræðikunnáttu hjá þeim sem kenna við þær stofnanir. Ég veit ekki hvort það á þá að álykta af því að það fólk geti ekki kennt fólki til þess að verða sérkennarar. Mér finnst þetta þannig að það eru gerðar ákveðnar kröfur, það eru sett ákveðin markmið, og þetta fólk lærir til þess að sinna þessum störfum. Hvað sem þessi lög segja þá ráða menn auðvitað starfsfólk til að kenna eftir fögum og sérkennarar eru hópur af kennurum sem ráðast til starfa í framhaldsskólunum og í grunnskólunum. Þannig er það. Og það þarf ekki að tíunda það sérstaklega í þessum lögum að mínu mati. Um inntakið í náminu er hins vegar ákveðið af Kennaraháskóla Íslands. Hvað það er sem hann kallar sérkennaranám er hans ákvörðun, eins og við mælum ekki fyrir í þessum lögum hvert er inntakið í kennaramenntuninni, hvað það er sem er kennt, en við vitum það og geta menn dregið þá ályktun af því að menn sem hafa lært stærðfræði geti kennt stærðfræði o.s.frv. Þannig að mér finnst það nú hálfeinkennilegt fyrir mig að þurfa að standa hér og predika þetta yfir prófessor í uppeldis- og kennslufræðum.