Íþróttalög

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 22:05:55 (7324)

1998-06-02 22:05:55# 122. lþ. 141.21 fundur 447. mál: #A íþróttalög# (heildarlög) frv. 64/1998, Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[22:05]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til íþróttalaga frá menntmn.

Mál þetta var fyrst flutt á 121. löggjafarþingi og er nú endurflutt með fáeinum breytingum.

Núgildandi íþróttalög eru að stofni til frá árinu 1956, með síðari breytingum, en löggjöfin 1956 var reist á grunni hinna fyrstu almennu íþróttalaga sem sett voru árið 1940. Tilgangur þessa frumvarps er að laga almenna löggjöf um íþróttir að þeim breytingum sem orðið hafa í þjóðfélaginu á um 40 árum.

Hlutverk íþrótta í þjóðlífinu verður sífellt meira og fjöldi þeirra sem leggja stund á íþróttir í einhverri mynd hefur stóraukist. Íþróttahreyfingin hefur eflst að skipulagi og styrk og aðstaða til íþróttaiðkunar batnað mikið víða um land.

Við samningu frumvarpsins var lagt til grundvallar að íþróttaiðkun utan skólakerfisins fer fram innan vébanda eða á vegum frjálsra félaga að því leyti sem ekki er um einstaklingsbundin viðfangsefni að ræða. Gengið var út frá því að tilgangur lagasetningar um íþróttamál væri fyrst og fremst að mynda formlega umgjörð um atbeina hins opinbera til eflingar íþróttastarfi án íhlutunar um hvernig íþróttahreyfingin hagar störfum sínum. Íþróttakennsla í skólum fellur eðlilega undir skólalöggjöf eins og önnur skólastarfsemi.

Löggjöf samkvæmt þessu frumvarpi yrði nokkru umfangsminni og einfaldari í sniðum en gildandi íþróttalög.

Í tengslum við umfjöllun um frumvarpið fjallaði nefndin um skýrslu nefndar um eflingu íþróttastarfs frá desember 1997 og skýrslu nefndar um stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna frá október 1997. Helstu niðurstöður í skýrslu nefndar um eflingu íþróttastarfs eru þær að mikilvægt sé að stuðla enn frekar að samstarfi ríkis og annarra opinberra aðila við íþróttahreyfinguna svo hægt verði að efla íþróttastarfið í landinu og lögð er áhersla á forvarnagildi íþrótta fyrir holla lífshætti og heilsurækt almennings. Í skýrslu nefndar um stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna er að finna tillögur til úrbóta varðandi jafnrétti kynja til þátttöku í íþróttum. Þær tillögur miða að því að ríki og sveitarfélög gefi ákveðin skilaboð til íþróttahreyfingarinnar en þar er víða pottur brotinn í jafnréttismálum. Þannig er lagt til að allur stuðningur, fjármagn og aðstaða sem ríki og sveitarfélög veita til íþrótta skiptist hlutfallslega jafnt á milli karla og kvenna. Þá verði komið á fót jafnréttisnefnd innan íþróttahreyfingarinnar sem leggi fyrir íþróttaþing áætlun um hvernig verði best staðið að því að ná jafnrétti innan hreyfingarinnar. Rannsóknir er tengjast íþróttum verði efldar með það fyrir augum að auka vísindalega þekkingu á íþróttum kvenna. Að lokum er lagt til að menntun sem tengist íþróttum nái til fleiri þátta en verið hefur, t.d. til stjórnunar og reksturs íþróttafélaga, fjármálastjórnunar, forvarna o.s.frv.

Menntamálanefnd tekur undir þau meginmarkmið og tillögur sem koma fram í báðum skýrslunum. Nefndin leggur þunga áherslu á að unnið verði markvisst að jöfnuði milli kynja til hvers konar þátttöku í íþróttum hjá öllum sem vinna að þeim málum, íþróttafélögum, sveitarfélögum og ríkinu. Nefndin telur afar áríðandi að sveitarfélögin fjalli um þessi mál og bregðist við til úrbóta. Þá telur nefndin mjög mikilvægt að í öllu starfi innan íþróttahreyfingarinnar verði lögð áhersla á samþættingu.

Menntmn. mælir einróma með samþykkt frumvarpsins.