Aðgerðir til að mæta mismunandi þörfum drengja og stúlkna í grunnskólum

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 22:16:48 (7326)

1998-06-02 22:16:48# 122. lþ. 141.22 fundur 109. mál: #A aðgerðir til að mæta mismunandi þörfum drengja og stúlkna í grunnskólum# þál. 29/122, Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[22:16]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um till. til þál. um aðgerðir til að mæta mismunandi þörfum drengja og stúlkna í grunnskólum.

Í 1. mgr. tillögugreinarinnar er kveðið á um að Alþingi álykti að fela menntamálaráðherra að skipa nefnd fagfólks í uppeldis- og kennslumálum sem geri tillögur um hvaða uppeldis- og kennsluaðferðum skuli beitt í grunnskólum til að mæta betur mismunandi þörfum drengja og stúlkna, þar sem upplýsingar um misvægi í sérfræðiþjónustu, athygli kennara og námsárangri benda til að úrbóta sé þörf.

Nefndin ræddi sérstaklega nauðsyn þess að skoða kennaramenntun með tilliti til þessa.

Í 2. mgr. tillögugreinarinnar er lagt til að nefndin ljúki störfum fyrir vorið 1999 og að störfum hennar verði hagað þannig að tillit verði tekið til tillagna hennar við gerð nýrrar námskrár fyrir grunnskóla en að endanlegar tillögur verði síðar hluti af námskrá grunnskólans.

Þar sem aðalnámskrárgerð fyrir næsta skólaár á að ljúka í sumar er það mat nefndarinnar að þessi málsgrein nái ekki tilgangi sínum og sé óþörf.

Nefndin mælir með samþykkt tillögunnar með breytingum sem gerð er grein fyrir í nál. Menntmn. er einróma í áliti sínu.