Almannatryggingar

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 22:20:40 (7328)

1998-06-02 22:20:40# 122. lþ. 141.23 fundur 348. mál: #A almannatryggingar# (lögheimilisskilyrði, slysatrygging sjómanna o.fl.) frv. 59/1998, MF
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[22:20]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að spyrjast fyrir um það hvort hæstv. heilbr.- og trmrh. sé í húsinu.

(Forseti (StB): Forseti mun kanna hvort hæstv. heilbrrh. er í húsinu.)

Ég tel, virðulegi forseti, að það sé erfitt að ræða þessa brtt. og það mál sem hér er á dagskrá án þess að hæstv. ráðherra sé á staðnum. Við 1. umr. komu fram mjög margar spurningar til hæstv. ráðherra sem ég teldi eðlilegt að við fengjum svör við við þá umræðu sem hér er að hefjast.

Fyrir rétt rúmu ári síðan, 17. apríl 1997, var ég hér með utandagskrárumræðu um setningu reglugerðar um tekjutryggingu almannatrygginga þar sem ég beindi nokkrum spurningum til hæstv. heilbr.- og trmrh. um það hvort reglugerð nr. 485/1995, sem sett er á grundvelli 17. og 18. gr. laga um almannatryggingar, ætti sér í raun stoð í lögunum. Hæstv. ráðherra sagði þá að sú reglugerð sem ráðherra hafði nýlega sett ætti sér sömu stoð í lögum og hún hefði átt þá um margra ára skeið vegna þess að þarna hefði ekki verið um neinar breytingar að ræða, þetta er reglugerð nr. 485/1995.

Ég vitnaði þá m.a. í álit frá lögfræðingi, Arnmundi Backmann, þar sem hann dró í efa að til væri lagastoð fyrir setningu þessarar reglugerðar eða þessa ákvæðis þessarar reglugerðar og jafnvel að ákvæði reglugerðarinnar bryti í bága við 65. gr. stjórnarskrár. Þau svör sem þá komu frá hæstv. ráðherra voru öll í þá veru að þar sem ekki væri um neina breytingu að ræða þá væri náttúrlega sama lagastoð og hefði verið fyrir reglugerðinni.

Síðan þá hefur komið álit frá umboðsmanni Alþingis þar sem hann staðfestir í sjálfu sér ekki eða kveður ekkert skýrt á um það að reglugerðin eigi sér stoð í lögum heldur gerir því skóna að þar sem ekki hafi komið fram í umræðum við breytingar á almannatryggingalögum 1993 afgerandi það sjónarmið að fella ætti niður þessa tekjutengingu almannatrygginga, að þar með mætti gera ráð fyrir að vilji Alþingis hefði verið til þess að málið yrði óbreytt frá því sem verið hefði.

Flestar þær skerðingar sem gerðar eru á kjörum lífeyrisþega og þeir þurfa að þola eru framkvæmdar með setningu reglugerða og þær reglugerðir eiga flestar stoð í lögum um almannatryggingar eða öðrum lögum er varða kjör þessara hópa, og reglugerðarbreytingar hafa verið nokkuð tíðar á undanförnum árum. Í flestum tilvikum er þó um ótvíræða lagaheimild að ræða fyrir setningu reglugerðar enda verður það að vera þannig því að reglugerð getur þá aðeins tekið gildi að hún eigi sér styrka stoð í lögum. Það hefur verið dregið í efa í umræðu hér, bæði utan dagskrár og í heilbr.- og trn., að þessi margumrædda reglugerð eða þetta ákvæði hennar sem snertir skerðingu á tekjutryggingu öryrkja og ellilífeyrisþega vegna vinnu maka eða tekna maka eigi sér stoð í lögum.

Til okkar á fund í heilbr.- og trn. komu fulltrúar frá Öryrkjabandalagi Íslands þar sem var farið yfir nýjustu niðurstöðu, eða úrskurð réttara sagt, umboðsmanns Alþingis og heilbr.- og trn. Alþingis fékk bréf frá kjaramálanefnd Öryrkjabandalags Íslands þar sem gerðar voru verulegar athugasemdir við niðurstöðu umboðsmanns Alþingis og afstöðu ráðuneytis og farið mjög rækilega yfir hvað áhrif þessi skerðing vegna tekna maka hefði á tekjutryggingu viðkomandi aðila.

Í framhaldi af þessum fundi og eftir að hafa farið yfir rök Öryrkjabandalagsins og reyndar fleiri aðila sem hafa haft samband við okkur fulltrúa í heilbr.- og trn. var ákveðið að flytja brtt. við afgreiðslu á því frv. sem hér er til umræðu um breytingar á lögum um almannatryggingar sem er vissulega hið besta mál og er um leiðréttingar að ræða sem heilbr.- og trn. var öll sammála um að þyrfti að afgreiða. Það hefur aldrei verið dregið í efa.

Hins vegar vegna þess að mjög stuttur tími var til loka þings og sá frestur sem við höfðum til þess að leggja fram sérstakt þingmál var útrunninn, a.m.k. trygging fyrir því að það yrði tekið hér á dagskrá, þá var brugðið á það ráð að bera fram brtt. við lög um almannatryggingar, brtt. sem tengist því frv. sem hér er til umræðu. Það er gert m.a. með þeim rökum að í því tilviki sem það frv. sem hæstv. ráðherra lagði fram og hér er til afgreiðslu, og allir voru sammála um að væri hið besta mál, þar er um nauðsynlegar leiðréttingar að ræða. Og við teljum að brtt. sem flutt er á þskj. 1381 af hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur, Guðnýju Guðbjörnsdóttur, Össuri Skarphéðinssyni, Kristínu Ástgeirsdóttur og þeirri sem hér stendur, að þá væri þar ekkert síður um nauðsynlegar leiðréttingar að ræða, leiðréttingar sem komu fram í umræðu fyrir rúmu ári síðan að nauðsynlegt væri að gera, að það þyrfti að taka af öll tvímæli hvað varðar rétt öryrkjans til þess að halda tekjutryggingu sinni burt séð frá tekjum maka. Það sé mannréttindamál og er þar vitnað í lög og reglugerðir sem lúta að réttindum einstaklinga í hjónabandi í mannréttindasáttmála um málefni fatlaðra sem Sameinuðu þjóðirnar hafa samþykkt og við erum aðilar að. Þess vegna væri nauðsynlegt að taka af öll tvímæli. Það kom einnig fram í umræðum í nefndinni að mönnum fannst að flestir nefndarmenn væru á þeirri skoðun að þarna væri mál sem þyrfti að skoða sérstaklega.

Í því bréfi, dags. 20. apríl 1998, sem barst heilbr.- og trn. vegna þessa máls --- en fulltrúar Öryrkjabandalagsins komu að eigin beiðni fyrir heilbr.- og trn. til að kynna viðhorf sín --- ég tel rétt að lesa þetta upp því að hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir, sem hóf umræðuna, hafði ekki tíma til þess að fara yfir erindið frá kjaramálanefnd Öryrkjabandalagsins á þeim stutta tíma sem þá var eftir þar til þingflokksfundir hófust. Og þess vegna vildi ég, með leyfi forseta, lesa upp bréf þetta sem heilbr.- og trn. barst 20. apríl 1998, en þar segir:

,,Í framhaldi af utandagskrárumræðu 17. apríl 1997, ítrekuðum tilmælum Öryrkjabandalags Íslands og nýrri álitsgerð umboðsmanns Alþingis, fer kjaramálanefnd Öryrkjabandalagsins þess á leit við Alþingi að það tryggi eins fljótt og frekast er kostur að tekjur maka öryrkja skerði ekki tekjutryggingu þeirra.

Eins og þingmönnum er kunnugt er hvergi í íslenskum lögum kveðið á um að öryrkjar megi ekki taka upp sambúð með heilbrigðum einstaklingum. Á hinn bóginn er búið svo um hnúta að geri þeir það missa þeir ekki aðeins uppbætur heldur fá þeir að auki litla eða enga tekjutryggingu. Í sambúð getur öryrki að hámarki fengið 43.722 kr., örorkubætur 15.123 kr. plús tekjutrygging 28.603 kr. Vegna þessara lágu tekna kemst makinn sjaldnast hjá því að leggja á sig viðbótarvinnu. Sá böggull fylgir hins vegar að tekutrygging öryrkjans byrjar að skerðast um leið og mánaðartekjur makans fara fram úr 38.677 kr. og þurrkast alveg út ef makinn nær að afla 165.802 kr. á mánuði. Nái hann því marki er öryrkinn sviptur allri tekjutryggingu og getur einungis lagt með sér í búið 15.123 kr. á mánuði.

[22:30]

Fyrirkomulag þetta gengur þvert á þær réttarhugmyndir sem gilda um atvinnuleysisbætur, lífeyrissjóðsgreiðslur og aðrar tryggingabætur og gerir í raun ráð fyrir því að öryrkjar taki ekki upp sambúð með öðrum en þeim sem möguleika hafa á að fæða þá og klæða, taka þá algjörlega á sitt framfæri.

Ekki þarf neina sérþekkingu á högum öryrkja til að sjá í hendi sér hvílík áhrif svona reglur hafa á hjónabönd fólks og möguleika til sambúðar. Ofan á þá byrði sem sjálf örorkan er kemur þetta eins og viðbótarhögg frá yfirvöldum, viðbótarrefsing fyrir það eitt að vera í hjónabandi eða sambúð. Gagnvart hjónabandi og sambúð er hér um mun alvarlegra og áþreifanlegra vandamál að ræða en önnur þau dæmi sem rakin hafa verið á opinberum vettvangi því að sú fátæktargildra sem öryrkjum er gert að sæta grefur svo undan samböndum þeirra, vígðum sem óvígðum, hvort sem þeim líkar betur eða verr enda þau gjarnan með raunverulegum skilnaði og upplausn fjölskyldna.

Það hefur um nokkurra ára skeið verið á vitorði embættismanna að skerðingarákvæði þetta stríðir gegn bókstaf gildandi laga enda hafa hvorki Tryggingastofnun né heilbrrn. treyst sér til að rökstyðja það með vísan til lagaákvæða. Í stað kostnaðarsamrar lögsóknar hefur formanni kjaramálanefndar Öryrkjabandalags Íslands þótt einfaldara að leita liðsinnis umboðsmanns Alþingis sem raunar hafði fjallað um þetta mál fyrir áratug þegar lög um almannatryggingar voru önnur en þau sem nú gilda. Í úrskurði sem umboðsmaður felldi 13. mars 1997, en kemur hvergi fram í greinargerð þeirri sem Alþingi hefur nú undir höndum, sagði orðrétt:

,,Kveðið er á um rétt til örorku og tekjutryggingar í lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar. Í 17. gr., sbr. 11. gr. þeirra laga, hefur löggjafinn tekið skýra afstöðu til þess hver skuli vera fjárhæð tekjutryggingar og hvernig sú fjárhæð skerðist vegna tekna lífeyrisþega og maka hans.``

Þessi röksemdafærsla var ekki sú sama og hann hafði áður beitt í sams konar máli, enda heimildarákvæði sem þá var vísað til ekki lengur fyrir hendi í lögum. Með bréfi, dags. 4. apríl 1997, er þessi nýja röksemdafærsla umboðsmanns hrakin með svofelldum orðum:

,,Þegar rætt er um tekjur einstaklings er átt við hann sjálfan nema annað sé tekið fram. Kemur þetta ekki aðeins fram í lagatextum á borð við sjálf almannatryggingalögin heldur hvarvetna sem einstaklingar þurfa að gera grein fyrir tekjum sínum. Í þessu sambandi gildir einu hvernig yfirvöld kjósa að skattleggja tekjur hjóna, enda þar um annað mál að ræða.

Í 17. gr. laga um almannatryggingar er einungis tekið fram að hafi bótategi tekjur umfram tiltekin mörk skuli skerða tekjutryggingu hans um ákveðna prósentu þess sem umfram er. Til að forðast endurtekningar er í lok greinarinnar tekið fram að um tekjutrygginguna gildi ákvæði 11. gr. eftir því sem við eigi, þ.e. um annað en það sem þegar hefur komið skýrt og greinilega fram.

En jafnvel þó að við féllumst á að ákvæði 11. gr. ættu líka að gilda um þau atriði sem á svo ljósan og umbúðalausan hátt er kveðið á um í sjálfri 17. gr., þá vill nú svo til að þar sem fjallað er um skerðingu vegna atvinnutekna í 11. gr. segir að lífeyri skuli skerða ef árstekjur einstaklinga eða hjóna hvors um sig fari yfir tiltekið mark. Hér er með öðrum orðum alveg sérstaklega tekið fram að atvinnutekjur maka megi alls ekki skerða lífeyri bótaþegans. Skýrara getur það naumast verið. Geti einhver vafi leikið á um hvað átt er við í 17. gr. ætti þetta samsvarandi ákvæði 11. greinar að taka af öll tvímæli ef það á líka að gilda um það sem á svo ótvíræðan hátt er tekið fram í 17. gr.``

Að fengnum þessum gagnrökum ákvað umboðsmaður að taka úrskurð sinn til endurskoðunar og ritaði nú heilbrrh. bréf þar sem farið er fram á að ráðherra geri grein fyrir lagagrundvelli reglugerðar sinnar. Í bréfinu, sem dagsett er 6. maí 1997, segir:

,,Til mín hefur leitað Garðar Óskar Sverrisson, Kaplaskjólsvegi 53 í Reykjavík. Beinist kvörtun hans að skerðingu tekjutryggingar örorkulífeyrisþega vegna tekna maka sem ekki njóti elli- eða örorkulífeyris, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 485/1995, um tekjutryggingu, samkvæmt lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993.

Af ofangreindu tilefni er þess óskað, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að heilbr.- og trmrn. geri grein fyrir lagagrundvelli framangreinds ákvæðis reglugerðar nr. 485/1995 og skýri viðhorf sitt til kvörtunar Garðars Óskars.``

Eftir hálfs árs bið, ófullnægjandi viðleitni ráðuneytis til svars og ítrekanir umboðsmanns birtist loks greinargerð frá embættismönnum ráðherra þar sem einkum er stiklað á stóru um sögu almannatrygginga, vísað í greinargerðir og ræður sem stjórnmálamenn fyrri tíðar höfðu látið frá sér fara við aðstæður sem voru á flestan hátt gerólíkar þeim sem við nú búum við, bæði í þjóðfélagslegu og lagalegu tilliti. Eftir talsverða umfjöllun um svokallaðan hjónalífeyri, sem er þó málinu óviðkomandi eins og skýrt má sjá í tilvitnuðu bréfi umboðsmanns, er reynt að leiða rök að því að Alþingi hafi gengið eitthvað annað til en fram kemur í bókstaf laganna. Meginrökin voru þessi:

,,Ráðuneytið telur að fyrirliggjandi gögn vegna setningar laga nr. 117/1993 bendi til þess að ekki hafi verið ætlun löggjafans að fella á brott heimild til setningar reglugerðar á grundvelli 17. gr. laga.``

Hér er með öðrum orðum tekið undir það að í gildandi lögum er hvergi að finna heimild til umræddrar skerðingar á tekjutryggingu þótt ráðuneytið víki sér því miður undan því að fjalla um það hve berlega reglugerð þess brýtur gegn þeim réttindum sem skýrt og greinilega er kveðið á um í 17. gr. laganna.

Í nýjasta áliti sínu, dags. 13. apríl sl., vefengir umboðsmaður Alþingis ekki þann skilning að í gildandi lög skorti heimild til setningar þeirrar reglugerðar sem hér um ræðir. Í áliti hans kemur fram að slíka heimild sé ekki lengur að finna í almannatryggingalögum. Hins vegar álítur hann að þar sem áður hafi verið í lögum ákvæði, sem hafi heimilað umrædda reglugerð og afnám þess hafi verið samþykkt þegjandi og hljóðalaust, megi líta svo á að Alþingi hafi ekki ætlað sér að breyta neinu. Í þessu þriðja áliti umboðsmanns sættir hann sig með öðrum orðum við þá túlkun ráðuneytisins að einhvers konar mistök hafi ráðið því að lögin séu eins og þau eru, því í lögskýringargögnum sé ekkert ,,sem bendi til þess, að átt hafi að auka rétt lífeyrisþega að þessu leyti,`` en slík breyting hefði kallað á sérstaka greinargerð, ,,m.a. um áhrif hennar á útgjöld ríkissjóðs.`` Þetta segir í áliti umboðsmanns þótt skýrt og greinilega komi fram á öðrum stað í hans eigin áliti sú skoðun ráðuneytisins að óbreytt fyrirkomulag bitni einungis á innan við 150 öryrkjum og sé þegar á heildina er litið heppilegt fyrir mikinn meiri hluta lífeyrisþega.

Í stað þess að fallast á þá skoðun ráðuneytisins ,,að ekki hafi verið ætlun löggjafans`` að samþykkja þau lög sem sett voru er nær að ætla að þingmönnum hafi einfaldlega þótt 17. gr. laganna nógu skýr og tæmandi til að þarflaust væri að hafa þar inni ákvæði sem heimilaði ráðherra að setja sérstaka reglugerð um framkvæmd hennar, reglugerð sem e.t.v. tæki til baka þau réttindi sem í lagagreininni er kveðið svo skýrt og greinilega á um. Enda má af samtölum við þingmenn miklu fremur ráða að þorra þeirra hafi verið alls ókunnugt um hvernig ráðherra beitti og beitir enn því heimildarákvæði sem áður var í lögunum en er þar ekki lengur að finna.

En þrátt fyrir þetta allra nýjasta álit sitt segir umboðsmaður að það sé á hinn bóginn skoðun sín ,,að lagaákvæði um þau réttindi sem hér er um að ræða séu hvorki nægjanlega aðgengileg né skýr, þar á meðal um það hvaða takmörkunum þau megi binda.`` Segir hann að umræddum lagaákvæðum sé að þessu leyti áfátt. Þá endurtekur hann það álit sitt frá 1988 að deila megi um hvort umrædd skerðingarákvæði geti talist réttlát eða heppileg. ,,Var það skoðun mín,`` segir hann, ,,að ástæða væri til að taka þessar reglur til athugunar og taka á ný afstöðu til þess hvort þær ættu að haldast óbreyttar. Þá taldi ég eðlilegt að í lögum væri afmarkað nánar en þá væri gert hvaða skilyrði mætti setja í reglugerð fyrir því að menn nytu umræddrar tekjutryggingar.``

Ekki kemur á óvart að umboðsmaður telji að ekki aðeins séu lagaákvæðin óskýr heldur orki það þar að auki tvímælis að reglugerðin geti talist réttlát enda hefur verið á það bent að hún brjóti ekki aðeins gegn jafnræðisreglum stjórnsýslulaga heldur einnig gegn nýjustu ákvæðum sjálfrar stjórnarskrárinnar. Þá er óhjákvæmilegt að líta til þess að þegar reglugerð ráðuneytisins var upphaflega sett var ekki búið að setja lög um heimilisuppbót og sérstaka heimilisuppbót einstaklingum til handa. Á þeim árum heyrði það að auki til undantekninga fremur en reglu að bæði hjón ynnu utan heimilis. Nú hefur gerbreyting orðið á þessu enda kveða gildandi hjúskaparlög skýrt á um að hjón skuli sameiginlega sjá fjölskyldum sínum farborða og skipta milli sín útgjöldum vegna heimilisrekstursins og framfærslu fjölskyldunnar. Með reglugerð sinni kemur heilbrrn. í veg fyrir að öryrkjar geti uppfyllt þessa lagaskyldu. Reglugerðin gerir þá að lögbrjótum gagnvart mökum sínum og börnum.

Í þessu sambandi er rétt að minna á að síðasta prestastefna samþykkti að beina því til Alþingis að leiðrétta þetta ranglæti, ranglæti sem prestar fullyrða að stefni hjónaböndum öryrkja í voða.

Til viðbótar er rétt að minna á að síðan upphafleg lög um almannatryggingar voru sett höfum við skuldbundið okkur til að uppfylla tvo mannréttindasáttmála, mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og sáttmála Evrópu. Að auki erum við nú aðilar að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra sem nýlega voru kynntar á Alþingi en í þeim er alveg sérstakur bálkur þar sem segir að aðildarríkin skuli tryggja að öryrkjum sé ekki mismunað í möguleikum til hjónabands og fjölskyldulífs. Umboðsmaður Sameinuðu þjóðanna í málefnum fatlaðra, Bengt Lindqvist, sem á að hafa eftirlit með því að mannréttindi fatlaðra séu í heiðri höfð, sá ástæðu til að gagnrýna það opinberlega í desember sl. hvernig reglugerð íslenskra stjórnvalda takmarkar möguleika fatlaðra til hjónabands og fjölskyldulífs.

Kjaramálanefnd Öryrkjabandalags Íslands vonar að þingmenn sjái sér fært að taka sem fyrst á þessu alvarlega máli svo það böl sem stöðugt hlýst af núgildandi fyrirkomulagi megi einhvern endi taka. En vegna seinagangs hjá ráðuneyti og umboðsmanni hefur mál þetta nú þegar tafist um heilt ár. Áður en það verður tekið fyrir mundi kjaramálanefnd Öryrkjabandalags Íslands vilja fá að skýra fyrir heilbr.- og trn. málstað öryrkja í þessu máli.

Með virðingu og þökk, fyrir hönd kjaramálanefndar Öryrkjabandalags Íslands, Garðar Sverrisson og Helgi Seljan.``

Virðulegi forseti. Ástæða þess að ég taldi rétt að lesa þetta upp frá orði til orðs er að það gerist ekki aftur að umboðsmaður Alþingis fái til sín mál þar sem hann leitar eftir, fer yfir umræðu á Alþingi, og telur að þingheimur hafi ekki viljað breyta vegna þess að ekki hafi verið haft orð á hvert ranglætið er. Ég er sammála því sem fram kemur í bréfi kjaramálanefndar Öryrkjabandalags Íslands að 17. gr. sé það skýr að það sé algjör óþarfi að bæta þar inn reglugerðarheimild til ráðherra nema ef hv. þm. hafa haft þá fyrirætlan að skerða tekjutrygginguna. En vegna þess að hv. þm. höfðu ekki þá ætlan að skerða tekjutrygginguna var ekki sett þarna inn heimild til handa ráðherra til setningar reglugerðar.

Ég hef rætt við þó nokkra lögfræðinga um túlkun hæstv. ráðherra eftir utandagskrárumræðuna sem átti sér stað 17. apríl 1997 --- ég tel rétt, virðulegi forseti, að leyfa þeim hæstv. ráðherra og formanni heilbr.- og trn. að ljúka samtali sínu. Það er sjálfsagt að bíða. (Heilbrrh.: Viltu aðeins bíða.) Það er sjálfsagt að bíða og þegar þau hafa lokið samtali ...

(Forseti (StB): Forseti vill biðja hv. þm. og ráðherra að leyfa þingmanninum að ljúka máli sínu.)

[22:45]

Eitt af þeim atriðum sem umboðsmaður Alþingis tekur sérstaklega fyrir er að ekki hafi verið reiknaður út kostnaðarauki því samfara að þessir 150 eintaklingar sem þarna skerðast, sem hann telur að séu einungis innan við 150 öryrkjar, að ástæða þess að ekki hafi verið reiknaður út kostnaðarauki vegna þessa megi ætla að sé sú að annar kostnaður sparist verulega ef staðið væri við greiðslu á fullri tekjutryggingu.

Hæstv. ráðherra nefndi í umræðu í dag að umönnunarbætur vegna langveikra barna hefðu verið hækkaðar verulega. Í kostnaðaráætlun með því frv., eða a.m.k. umsögn sem barst frá fjárlagaskrifstofu fjmrn., kom ekki fram að þetta hefði í för með sér neinn kostnaðarauka, einfaldlega vegna þess að það var verið að gera þær breytingar að það var skorið niður annars staðar á móti. Kostnaðaraukinn vegna þeirrar leiðréttingar sem þarna átti sér stað fyrir ákveðinn hluta foreldra langveikra barna var óverulegur þannig að ekki var talin nein sérstök ástæða til þess að taka það fyrir í umræðum á Alþingi. Og ég man ekki eftir því að þingmenn væru margorðir um að þetta ákvæði hefði haft í för með sér kostnaðarauka. Því má í raun og veru ætla að þetta hafi verið hugsað þannig að þessu væri mætt með sparnaði á öðrum sviðum, eins og reyndar hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir kom inn á þegar hún mælti fyrir tillögunni.

Hæstv. ráðherra hefur ítrekað, bæði við utandagskrárumræðuna fyrir ári, og reyndar síðar komið inn á það, að þarna sé um að ræða ákvæði sem hafi staðið óbreytt árum saman og þess vegna hafi bara verið sjálfsagt að láta það standa óbreytt því ekkert hafi breyst. Það er rangt. Við höfum á nokkrum undanförnum árum gerst aðilar að alþjóðlegum samningum, eins og kemur fram í þessu bréfi frá kjaramálanefnd Öryrkjabandalags Íslands. Ég vil gjarnan trúa því að þegar Alþingi undirgengst það að íslensk stjórnvöld undirriti alþjóðlega samninga þar sem við göngumst undir ákveðnar skuldbindingar þá meinum við eitthvað með því þó ég verði að viðurkenna að á ýmsum sviðum finnst mér þessir samningar hafa haft afskaplega takmarkað gildi. Ég vil þar nefna annan málaflokk sem skiptir verulegu máli en það eru umhverfismálin þar sem við höfum undirgengist og tekið þátt í þó nokkrum alþjóðlegum samningum sem virðast síðan ekki skipta neinu máli þegar er verið að afgreiða frumvörp frá Alþingi Íslendinga sem ganga í allt aðra átt heldur en þær skuldbindingar segja til um.

En gagnvart mannréttindasáttmálanum, gagnvart meginreglum Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra þá vil ég gjarnan trúa því að það sé ekki bara undirritun sem ekkert eigi að fylgja, heldur eigi athafnir að fylgja orðum, að við ætlum okkur að standa við þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist. Ég vil gjarnan trúa því líka að á tímum þar sem hæstv. ríkisstjórn og ráðherrarnir fara hér hver um annan þveran vítt og breitt um landið, í alla fjölmiðla landsins, talandi um þetta góðæri sem skilar miklum tekjum í ríkissjóð og hefur gert það á undanförnum árum, góðærið hefur skilað tekjum í ríkissjóð. Ég vil gjarnan trúa því að menn ætli sér að nýta þessar auknu tekjur fyrir þá sem minna mega sín í þjóðfélaginu, ekki síst sá flokkur sem fór hér í kosningar fyrir rúmlega þremur árum síðan með kjörorðið Fólk í fyrirrúmi.

Hvaða fólk var þar í fyrirrúmi? Hvaða þjóðfélagshópar voru það? Það voru ekki bara ungu námsmennirnir sem allir ætluðu að verða lögfræðingar eða tannlæknar í auglýsingunum frá Framsfl. Við skulum vona að það hafi líka verið þeir þjóðfélagshópar sem mega sín minna og hafa haft mjög lélegar tekjur og framfærslu mörg undanfarin ár, að það hafi verið ætlun Framsfl. að þegar betur áraði þá væru það þessir hópar þjóðfélagsþegna sem fyrst nytu ágóðans. En svo er ekki. Og það er með ólíkindum, ef hér er aðeins um að ræða um 150 einstaklinga, að það skuli ekki hafa verið gert á þessu ári af hæstv. ráðherra sem aftur og aftur er búinn að senda út sögu almannatrygginga, því að svörin eru helst fólgin í því að farið er vítt og breitt yfir sögu almannatryggina, þegar spurt er um skerðingu á tekjutryggingu öryrkja, þá fær maður söguna. Það hefur bæði gerst hér í ræðustól á Alþingi og eins virðist það vera, miðað við það bréf sem ég fór yfir frá kjaramálanefnd Öryrkjabandalags Íslands, að það sé helsti háttur á að svara ekki spurningunni með öðru en því að rekja sögu almannatrygginga.

Það vill svo vel til að líklega þekkja þá sögu fáir betur en einmitt fulltrúar A-flokkanna, Alþb. og Alþfl., hv. þm. þessara tveggja flokka. (ÖS: Nýi flokkurinn.) Nýi flokkurinn, segir hv. formaður heilbr.- og trn. Má vera að nýi flokkurinn sem boðað hefur verið að verði stofnaður og ætlar að breyta kvótakerfinu ætli sér að láta öryrkjana og þá sem minna mega sín í þjóðfélaginu sérstaklega njóta þeirra úrbóta sem þar verða á ferðinni. Það má vera. Batnandi fólki er best að lifa, en ég man nú ekki eftir því að þeir fulltrúar sem fara fyrir þeim flokki hafi barist neitt sérstaklega fyrir þessum hópi þjóðfélagsþegna á sínum tíma. En má vera.

En það stendur engu að síður upp á hæstv. heilbrrh. að leiðrétta þessa mismunun. Og það getur ekki talist okkur sæmandi, sérstaklega ekki á tímum margumrædds góðæris, þá getur það varla talist okkur sæmandi að laga ekki óréttlætið sem þessir einstaklingar búa við. Í bréfi kjaramálanefndar Öryrkjabandalags Íslands kemur fram í upphafi að það sé í raun og veru verið að stuðla að því að öryrki geti ekki bundist í sambúð, vígðri eða óvígðri, heilbrigðum einstaklingum.

Ég held nú að því miður sé þarna um víðtækari áhrif að ræða vegna þess að öryrki, sem hefur eitthvað skerta starfsgetu en vinnur þó hlutastarf úti, sé í sjálfu sér ekki lengi að ná þeim tekjum sem til þarf til þess að skerðingin byrji. Það er 38.677 kr. á mánuði. Það er kominn tími til fyrir löngu síðan í þessu velferðarþjóðfélagi að við hættum að tala um þær greiðslur sem öryrkjar fá sem einhverjar sérstakar ölmusubætur. Það er löngu kominn tími til að þeirri umræðu ljúki. En henni lýkur ekki. Og sá hugsanagangur, sem liggur að baki þeirri ákvörðun að skerða tekjutryggingu öryrkja þegar tekjur maka hans ná 38.677 kr. á mánuði, er nú ekki til þess fallinn að draga úr þessu viðhorfi. Að þarna sé um ölmusugreiðslur að ræða sem viðkomandi einstaklingur skuli fá --- nema hann fari að búa með einhverjum sem gæti náð í tekjur, þessar líka háu tekjur, 38.677 kr. á mánuði, að þá skuli mega skerða þær greiðslur sem þessi einstaklingur fær frá samfélaginu.

Við höfum viljað státa af samábyrgð, að þessi litla þjóð búi yfir sérstakri kennd sem er þessi samábyrgð, að við látum okkur varða um kjör hvers annars. Þessi hugsjón er fyrir bí miðað við störf og stefnu þessarar ríkisstjórnar. Á hátíðastundum og þar fyrir utan í ræðustól þegar hæstv. ráðherra kemur hér og segir okkur að hér komi hver sendinefndin á fætur annarri frá milljónaþjóðunum til þess að segja okkur hvað við búum við ofsalega gott kerfi, heilbrigðiskerfi og tryggingakerfi og allt sé þetta til fyrirmyndar, og allar þessar sendinefndir séu alveg óskaplega hrifnar af öllu því sem við höfum, þá veltir maður því oft fyrir sér ef þessar sendinefndir sem koma fengju þá spurningu frá hæstv. ráðherra: Gætuð þið nú kannski ekki bara búið til svona kerfi ef það væri gildandi eitt kerfi fyrir hvert úthverfi ykkar stórborga, þar sem búa kannski jafnmargir einstaklingar og á öllu Íslandi? --- Er ekki bara auðveldara fyrir okkur við þær aðstæður sem við búum við að vera með góð kerfi sem við getum státað af hvar sem er og þessari samábyrgð sem við viljum að stjórni verkum okkar? Er það ekki bara tiltölulega auðveldara heldur en þar sem um er að ræða kerfi milljónaþjóðfélaga?

Það kemur reyndar fram í bréfi Öryrkjabandalagsins til heilbr.- og trn. að gerð hafi verið athugasemd af þeim fulltrúa Sameinuðu þjóðanna sem á að fylgja því eftir að reglum Sameinuðu þjóðanna sé framfylgt. Hann hafi í desember sl. séð sérstaka ástæðu til þess að gera athugasemd við það hvernig við framfylgjum þessum reglum hér á landi. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að í öllum sínum ræðum og alls staðar í fjölmiðlum tekur hún ævinlega upp þann vitnisburð að við séum hér með eitthvert besta heilbrigðiskerfi sem gerist í veröldinni: Hefur hæstv. ráðherra í hyggju að taka eins mikið mark á orðum þessa einstaklings, sem kemur hér til þess að athuga hvort við framfylgjum reglum sem settar eru varðandi allan aðbúnað öryrkja í landinu? Hefur hæstv. ráðherra hug á því að halda þeirri niðurstöðu, sem hann hefur kynnt, eins á lofti eins og því hrósi sem hæstv. ráðherra hefur fengið frá sendinefndum sem hafa skoðað sérstaklega heilbrigðiskerfið og hún hefur kynnt okkur svo rækilega?

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi fengið þær athugasemdir sem þessi umboðsmaður Sameinuðu þjóðanna í málefnum fatlaðra gerði. Einnig hvort hæstv. ráðherra hafi hug á því í ljósi þess að þessi mál voru sérstaklega tekin upp í utandagskrárumræðu 17. apríl á síðasta ári --- þar sem hæstv. ráðherra var með þau rök helst að þar sem þetta hefði alltaf verið svona þá ætti þetta að vera svona áfram --- hvort hæstv. ráðherra hafi hug á því eftir þá umræðu sem þar átti sér stað að kynna hv. þm. sérstaklega niðurstöðu þessa einstaklings, umboðsmanns Sameinuðu þjóðanna í málefnum fatlaðra, ef ráðuneytið á þær athugasemdir til í skjalasafni sínu. Ég býst við að svo hljóti að vera og hæstv. ráðherra og starfsmenn ráðuneytis hafi kynnt sér þær sérstaklega um leið og þeir fóru yfir sögu almannatrygginga áður en umboðsmanni Alþingis var svarað eða Öryrkjabandalaginu eða farið var hér í ræðustól á Alþingi. Það væri kannski rétt að skoða þær athugasemdir sem hefðu verið gerðar í ljósi þeirra söguskýringa sem hér hafa verið hafðar uppi.

[23:00]

Virðulegi forseti. Þetta mál sem hér er til umræðu og hefur verið tekið upp áður og búið er að leita eftir áliti umboðsmanns Alþingis og svarað var svona seint --- og það er líka rétt að krefja ráðherrann hæstv. svara við því hvers vegna það var svona erfitt fyrir ráðuneytið og hvers vegna það dróst svona að ráðuneytið svaraði þeim spurningum sem umboðsmaður Alþingis hafði sent. Hvað er það sem veldur því að það vafðist fyrir ráðuneytinu mánuðum saman að senda umboðsmanni Alþingis svör við þeim spurningum sem ráðuneytið hafði fengið? Hvaða ástæður liggja þar að baki? Ég býst við að fyrir umræðuna 17. apríl í fyrra hafi verið farið yfir þessi mál öll í ráðuneytinu. Þær spurningar sem hæstv. ráðherra fékk þá beindust allar að framkvæmd 17. og 18. gr. laga um almannatryggingar og hvort þetta bryti í bága við 65. gr. stjórnarskrár. Þannig að þær spurningar sem ráðuneytið fær í framhaldi af því frá umboðsmanni Alþingis eru í nákvæmlega sama dúr og hæstv. ráðherra svaraði hér fyrir ári síðan. Hvers vegna vafðist það þá svo fyrir ráðuneytinu að senda umboðsmanni Alþingis þau svör sem beðið var um? Það væri fróðlegt að heyra skýringar hæstv. ráðherra á því.

En við höfum fengið fleiri gögn frá Öryrkjabandalaginu sem ég tel, virðulegi forseti, í ljósi þess að umboðsmaður Alþingis taldi að við hefðum samþykkt eitthvað allt annað en við samþykktum, af því við hefðum ekki rætt málin út frá nýjum forsendum frá því sem áður hafði verið. Og mér finnst þetta satt að segja mjög merkileg niðurstaða. Það er mjög merkileg túlkun frá umboðsmanni Alþingis og heilbrrn. að við höfum hér á Alþingi verið að afgreiða lög en meint eitthvað allt annað en það sem stendur í lagagreinunum. Það er umhugsunarvert fyrir forsn. ef það er almenn túlkun að Alþingi geti verið að samþykkja eitthvað allt annað en það sem stendur skýrt í þeim greinum sem hér eru samþykktar. Ég fór að skoða hvernig atkvæðagreiðslan hafði verið varðandi þessa 17. gr. Mér sýnist að hún hafi verið samþykkt samhljóða, sem er þá bara einróma vilji þingsins að það sé staðið að verki eins og um getur án þess að veita hæstv. ráðherra nokkra heimild til að breyta því með reglugerð.

Þess vegna er sú túlkun umhugsunarverð fyrir þingið og fyrir hv. þm. alla að það hafi ekki verið ætlun löggjafans að fella á brott heimild til setningar reglugerðar á grundvelli 17. gr. laga. Það er niðurstaða ráðuneytis, sem er út af fyrir sig líka mjög merkileg, að ráðuneytið skuli túlka heimild sína til þess að setja reglugerð í þá veru að Alþingi hafi bara samþykkt eitthvað allt annað heldur en það ætlaði. Það hafi ætlað að veita hæstv. ráðherra þessa heimild en það hafi orðið út undan, bara rétt sisvona. Og af því að hæstv. ráðherra heldur að hv. þm. hafi bara gleymt þessu og þetta hafi orðið út undan þá er allt í lagi að setja reglugerðina.

Það er mjög skýrt, og það hefur komið fram hjá öllum þeim lögfræðingum sem ég hef haft samband við út af þessari reglugerð og 17. og 18. gr. almannatryggingalaga, að reglugerð er aðeins heimilt að setja að hún eigi sér styrka stoð í lögum. Um leið og hægt er að efast um gildi reglugerðarinnar vegna þess að hún eigi sér ekki þessa lagastoð þá hafi hún ekkert lagagildi. Þá hafi hún ekkert gildi og þá sé óheimilt að vinna eftir henni. Og þess vegna er þetta enn merkilegri skilningur umboðsmanns Alþingis og hæstv. ráðherra og starfsmanna ráðuneytis, þessi lagatúlkun sem verður örugglega lengi í minnum höfð, að Alþingi hafi ætlað að samþykkja eitthvað allt annað heldur en það samþykkti samhljóða og stendur í lagagreininni. Það er ótrúlegt að sjá þessa niðurstöðu, það er hreint alveg með ólíkindum.

Maður veltir því fyrir sér í framhaldi af þessari túlkun, ef farið yrði með þetta mál fyrir dómstóla, hvort niðurstaða dómstóla yrði byggð á því líka að hugsanlega hefðu alþingismenn ætlað sér að samþykkja eitthvað allt annað en þeir gerðu og þess vegna sé hægt að dæma á allt annan hátt heldur en lög gera ráð fyrir. Þetta er umhugsunarvert og hættuleg þróun ef þetta er það sem koma skal í störfum ráðuneyta.

Reyndar hefur það gerst í tíð þessarar hæstv. ríkisstjórnar að reglugerðarheimildir eru mjög víðtækar og í sumum tilvikum er um að ræða reglugerð í nánast hverju einasta ákvæði laga sem veita ráðherrum mjög mikið vald, allt of mikið vald miðað við það hvernig þeir hafa farið með það í þessari hæstv. ríkisstjórn því þeir hafa ekki kunnað að beita því fyrir þá sem minnst mega sín í þjóðfélaginu.

En til þess að taka af allan vafa um hver sé vilji þeirra sem flytja þessa brtt. og til þess að menn velti því nú ekki fyrir sér lengi hver hafi verið hinn raunverulegi vilji þá tel ég rétt að fara yfir þá punkta sem við höfum fengið frá fulltrúum Öryrkjabandalagsins, lesa þá upp hér frá orði til orðs. Það er líka gott fyrir okkur að hafa það í Alþingistíðindum þannig að sjónarmið Öryrkjabandalagsins og þeirra baráttumál, sem hefur tekið allt of langan tíma að fá úrlausn á og alveg merkilegt í ljósi þess --- svo ég komi nú inn á það aftur --- að umboðsmaður Alþingis telur að þetta séu 150 einstaklingar, það er alveg merkilegt hvað það hefur vafist fyrir hæstv. ráðherra og öllum þeim embættismannahópi sem er í heilbr.- og trmrn. að leysa þetta mál þannig að það standist þá alþjóðlegu samninga sem við höfum undirritað og að við sýnum öryrkjum þá virðingu sem þeim ber sem manneskjum, sem hluta af þessu þjóðfélagi sem við viljum gjarnan, a.m.k. þeir sem eru í stjórnarandstöðu, að einkennist af samkennd og umhyggju okkar hvert fyrir öðru.

Ég tel rétt, virðulegi forseti, að fara yfir nokkra aðra minnispunkta sem hafa komið frá Öryrkjabandalaginu til þess að vilji þeirra sé alveg skýr og aldrei skuli það gerast aftur að það komi fram álit, hvorki frá hæstv. ráðherra, ráðuneytinu, umboðsmanni Alþingis né neinum þeim sem á að fjalla um þetta mál að viljinn hafi ekki legið fyrir og vandamálið hafi ekki verið þingheimi ljóst. Það er líka rétt að fara yfir þetta vegna þess að ég treysti því að þeir þingmenn sem ekki eru viðstaddir umræðuna a.m.k. lesi og fari yfir þingtíðindin og kynni sér um hvað þetta mál snýst. Þetta er mannréttindamál, þetta snýst um virðingu okkar fyrir samborgurunum og það er mjög hart hvað hún er orðin lítil og hvað hægt er að vera hnarreistur þegar maður gengur á réttindum samborgaranna. Það er merkileg upplifun að sjá það æ ofan í æ hér úr þessum ræðustól.

En þess vegna ætla ég að fara yfir þetta frá orði til orðs, og það byrjar svona, með leyfi forseta:

,,Vegna sífelldra tilvísana í fortíðina mætti minna núv. hæstv. heilbrrh. á að sú meginhugsun sem liggur að baki almannatryggingum kom skýrt fram hjá sjálfum höfundum laganna árið 1935 en í nefndarálitinu segja þeir:

,,Alþýðutryggingar eru í því fólgnar, ef haldið er hreinu tryggingaformi, að gera ráðstafanir til þess að hver borgari þjóðfélagsins tryggi sig og þjóðfélagið gegn því að þurfa að leita á náðir þess af orsökum sem hann getur tryggt sig fyrir gegn árlegu gjaldi sem hverjum heilbrigðum vinnandi manni á að vera viðráðanlegt. Tryggingastofnun ríkisins, sem frv. gerir ráð fyrir að verði stofnuð, geri honum þetta kleift.``

Í þessari stuttu tilvitnun koma tvö grundvallaratriði fram. Annars vegar að í almannatryggingum felist hrein persónutrygging og hins vegar að um tryggingafélag sé að ræða. En eins og önnur tryggingafélög hafa þróast, þar á meðal Atvinnuleysistryggingasjóður, er fráleitt að líða almannatryggingum að firra sig ábyrgð ef hinn tryggði leyfir sér að ganga í hjónaband eða taka upp sambúð, firra sig ábyrgð og koma tryggingaskyldunni yfir á makann. Þetta er ekki einungis fráleitt heldur stríðir þetta gegn þeim mannréttindasáttmálum og alþjóðasamningum sem Ísland hefur skuldbundið sig til að virða, að ekki sé nú talað um okkar eigin lög og stjórnarskrá.

Í inngangsorðum mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, sem samþykkt var á allsherjarþinginu hinn 10. des. 1948, segir í 1. mgr.:

,,Það ber að viðurkenna, að hver maður sé jafnborinn til virðingar og réttinda, er eigi verði af honum tekin, og er þetta undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum.``

Og strax í 2. gr. sama sáttmála segir:

,,Hver maður skal eiga kröfu á réttindum þeim og því frjálsræði, sem fólgin eru í yfirlýsingu þessari, og skal þar engan greinarmun gera vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.``

Um jafnrétti til hjúskapar og fjölskyldustofnunar er fjallað í 16. gr. og er þar sérstaklega kveðið á um hlutverk fjölskyldunnar og skyldur ríkisins gagnvart henni en þar segir m.a.:

,,Fjölskydan er í eðli sínu frumeining þjóðfélagsins, og ber þjóðfélagi og ríki að vernda hana.``

Í 25. gr. segir enn fremur:

,,Hver maður á kröfu til lífskjara, sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan hans sjálfs og fjölskyldu hans. Telst þar til matur, klæðnaður, húsnæði, læknishjálp og nauðsynleg félagshjálp, svo og réttindi til öryggis gegn atvinnuleysi, veikindum, örorku, fyrirvinnumissi, elli eða öðrum áföllum, sem skorti valda og hann getur ekki við gert.``

Í alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sem samþykktur var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1966 og undirritaður af Íslands hálfu þann 30. des. 1966, segir í 26. gr.:

,,Allir eru jafnir fyrir lögum og eiga rétt á sömu lagavernd án nokkurrar mismununar. Lögin skulu því í þessu skyni banna hvers konar mismunun og ábyrgjast öllum mönnum jafna og raunhæfa vernd gegn mismunun svo sem vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernisuppruna eða félagslegs uppruna og ætternis eða annarra aðstæðna.``

Í öðrum samningi, alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem samþykktur var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og undirritaður af Íslands hálfu 30. des. 1968, segir í 2. gr.:

,,Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að ábyrjast að réttindum þeim sem greind eru í samningi þessum muni verða framfylgt án nokkurrar mismununar vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernisuppruna eða félagslegs uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.``

Í 10. gr. sama samnings segir m.a.:

,,Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna að mesta mögulega vernd og aðstoð skuli látin fjölskyldunni í té, en hún er hin eðlilega grundvallarhópeining þjóðfélagsins, sérstaklega við stofnun hennar og á meðan hún er ábyrg fyrir umönnun og menntun framfærsluskyldra barna.``

Í 11. gr. segir m.a.:

,,Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til viðunandi lífsafkomu fyrir hann sjálfan og fjölskyldu hans, þar á meðal viðunandi fæðis, klæða og húsnæðis.````

Skyldi það vera þannig að þeir tekjumöguleikar sem öryrkinn hefur, sem byrja að skerðast þegar náðst hafa 38 þús. kr. mánaðartekjur makans, að þau eigi við þarna?

Í mannréttindasáttmála Evrópu, sáttmála sem kom við sögu í 14 hæstaréttardómum hérlendis á síðasta ári er í 12. gr. kveðið á um rétt karla og kvenna til að ganga í hjónaband og stofna fjölskyldu. 14. gr. sáttmálans hljóðar svo:

,,Réttindi þau og frelsi sem lýst er í samningi þessum skulu tryggð án nokkurs manngreinarálits svo sem vegna kynferðis, litarháttar, tungu, trúarbragða, stjórnmála- eða annarra skoðana, þjóðernis eða þjóðfélagsstöðu, tengsla við þjóðernisminnihluta, eigna, uppruna eða annarrar stöðu.``

Í meginreglum Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðra, sem heita raunar ,,Grundvallarreglur Sameinuðu þjóðanna um jöfn tækifæri fatlaðs fólks``, er í 8. reglu kveðið á um að aðildarríkin séu ábyrg fyrir og skuli tryggja hverjum fötluðum einstkalingi félagslegt öryggi og fullnægjandi tekjutryggingu. Í 6. lið sömu reglu segir enn fremur:

,,Ekki skyldi dregið úr tekjutryggingu eða hún felld niður fyrr en hinn fatlaði er orðinn fær um að afla sér viðunandi og öruggra tekna.``

Ég endurtek: Ekki skyldi dregið úr tekjutryggingu eða hún felld niður fyrr en hinn fatlaði --- hinn fatlaði, ekki maki hans heldur hinn fatlaði --- er orðinn fær um að afla sér viðunandi og öruggra tekna.

Og enn fremur segir í inngangi 9. reglu, orðrétt:

,,Aðildarríkin skyldu stuðla að því að fötluðum sé kleift að taka virkan þátt í fjölskyldulífi. Þau skyldu tryggja réttindi fatlaðra til mannlegrar reisnar og tryggja að fötluðum sé ekki mismunað með lögum hvað varðar kynferðissambönd, hjónaband og barneignir.``

Virðulegi forseti. Lokaspurning mín til hæstv. ráðherra er þessi: Telur hæstv. ráðherra að reglugerð nr. 485/1995 standist þessar reglur? Telur hæstv. ráðherra að með reglugerðinni tryggi hún fötluðum þann rétt sem þessar reglur kveða á um?