Almannatryggingar

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 23:29:20 (7332)

1998-06-02 23:29:20# 122. lþ. 141.23 fundur 348. mál: #A almannatryggingar# (lögheimilisskilyrði, slysatrygging sjómanna o.fl.) frv. 59/1998, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[23:29]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það eru allir sammála um að það eru réttarbætur í frv. sem er hér til umræðu og við erum öll sammála um að það þurfi að samþykkja það. En það eru líka miklar réttarbætur í þeirri brtt. sem liggur fyrir, réttarbætur fyrir fólk sem verið er að brjóta á mannréttindi. Réttarbætur fyrir fólk sem á erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér.

Breytingartillagan er gerð í samráði við lögfræðinga sem eru sérfræðingar í almannatryggingum og hún er mjög skýr. Hún segir: Tekjur maka hafi ekki áhrif á tekjutryggingu lífeyrisþega. Þetta getur ekki verið skýrara. Og þetta er í samræmi við alla þá mannréttindasáttmála, mannréttindayfirlýsingar, lagasetningu og annað sem við höfum undirgengist og sett í þinginu. Það að þetta kosti 360--400 millj. kr., ég er ekki þess umkomin að meta það, en það kostar að vera lýðræðisþjóð, það kostar að hafa í heiðri mannréttindi og skerðingarreglan eins og hún er er mannréttindabrot og við getum ekki látið þau viðgangast og því eigum við að breyta þessu. Við getum ekki brotið á lítilmagnanum í þjóðfélaginu bara af því það kostar að brjóta ekki mannréttindi. Okkur ber að leiðrétta þetta. Þessi regla á ekki að líðast og ég trúi ekki öðru en ráðherrann sjái það eftir öll þau rök sem hafa komið fram í málinu að það verður að taka á þessu og leiðrétta þetta óréttlæti og þetta misrétti. Ég vonast bara til að ráðherrann sjái ljósið eftir þessa umræðu.