Almannatryggingar

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 23:56:02 (7344)

1998-06-02 23:56:02# 122. lþ. 141.23 fundur 348. mál: #A almannatryggingar# (lögheimilisskilyrði, slysatrygging sjómanna o.fl.) frv. 59/1998, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[23:56]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra talar um að reglugerðin hefði ekki verið sett ef þetta hefði verið brot á öllum þessum lögum og mannréttindasáttmálum sem við töldum til og spurðum út í. Reglugerðin var sett án þess að hafa stoð í lögum. Þannig eru nú vinnubrögðin á þeim bæ. Reglugerðin var sett árið 1995 án þess að hún hefði stoð í lögum eftir að lög höfðu verið sett 1993 um það að ráðherrann hefði ekki heimild til að setja þarna reglugerð.

Hæstv. ráðherra talar um gagnkvæma framfærsluskyldu. Það hefur margsinnis komið fram í málflutningi okkar þingmanna sem höfum rætt um þetta frv. og þessa brtt. að þessi skerðingarregla kemur í veg fyrir að öryrkjar geti uppfyllt ákvæði gildandi hjúskaparlaga um það að hjón sjái fjölskyldu sinni sameiginlega farborða. Það er alveg ljóst. Og ég ætla ekki að fara að lengja þessa umræðu með því að tína þetta allt til aftur. Ég er búin að margsegja þetta og kom með þessi rök öllsömul í langri ræðu í síðustu viku. Það er alveg ljóst að það er verið að brjóta þarna á stórum hópi fólks og að reglugerðin var sett án þess að eiga nokkra stoð í lögum, tveimur árum eftir að lögin voru sett.