Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 10:48:18 (7355)

1998-06-03 10:48:18# 122. lþ. 142.5 fundur 553. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall fyrirtækja, arðgreiðslur o.fl.) frv. 95/1998, SJS
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur, 122. lþ.

[10:48]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég stend að nál. meiri hluta efh.- og viðskn. með fyrirvara eins og fram kom hjá hv. frsm. áðan og sá fyrirvari tengist einkum einu atriði frv., sem er tekjuskatts\-álagningin sjálf eða prósentan sem notuð er til að skattleggja hagnað fyrirtækja.

Varðandi það atriði flytjum við brtt. á þskj. 1342, ég og hv. þm. Ágúst Einarsson og Sighvatur Björgvinsson, og ég mun mæla fyrir þeirri tillögu.

Ég vil fyrst segja um málið almennt að frv. tekur á atriðum sem engin deila er um í efh.- og viðskn. að þarft er að lagfæra eða taka þarf á og á ég þar sérstaklega við vandamál sem geta komið upp í tengslum við arðgreiðslur og hagnað fyrirtækja vegna t.d. starfandi dótturfyrirtækja erlendis. Frv. eða breytingarnar sem í því felast eiga m.a. að koma í veg fyrir að um efnahagslega tvísköttun eða fælingaráhrif verði að ræða þannig að fyrirtæki geti til að mynda með eðlilegum hætti tekið heim inn í móðurfélög arð vegna hlutafélaga eða dótturfyrirtækja sem þau kunna að eiga erlendis og út af fyrir sig einnig innan lands.

Það var hins vegar umdeilanlegt, enda um margar leiðir að ræða, hvaða aðferð er best og ég ætla ekki að fara út í alla þá umræðu. Það var nokkuð rætt við 1. umr. málsins en ég kemst þó ekki hjá því að lýsa því fyrir mitt leyti að ég hef vissar áhyggjur af því að sú aðferð sem hér er valin komi lakar út fyrir smærri fyrirtæki og fyrir einyrkja í atvinnurekstri en betur fyrir stærri félög og félagasamsteypur. Ég ekki viss um að menn hafi ratað þar alveg á rétta niðurstöðu og mér er auðvitað ljóst að engin ein aðferð í þessu er alveg gallalaus. Það sem ég óttast fyrst og fremst í þessu sambandi er að sú breyting að hverfa frá því að leyfa arðgreiðslur til frádráttar fyrir greiðslu tekjuskatts en heimila fyrirtækjum í staðinn að meðhöndla arð sem þau fá í innbyrðis viðskiptum á þann hátt komi fyrst og fremst þeim fyrirtækjum til góða sem eru hlutar af stærri samsteypum þar sem fyrirtækin eiga jafnvel hvert í öðru, fram og til baka, dótturfélög og dótturdótturfyrirtæki, og síðan færa þau arðinn á milli sín og þeim nýtist reglan í því sambandi þó að arður greiddur til hluthafa sé ekki frádráttarheimill, en algerlega sjálfstæð fyrirtæki og einyrkjar, ef svo má að orði komast í þeim skilningi í atvinnurekstri, geri upp alla veltuna innan eins og sama fyrirtækisins, hafa þar af leiðandi ekki arð vegna eigna í öðrum félögum sem máli skiptir í þessu sambandi en missa af þeim möguleika sem áður var til staðar að draga arðgreiðslur til hluthafa sinna frá. Ég held að þessi breyting verki fremur íþyngjandi fyrir þau en ívilnandi fyrir hin.

Ég er þeirrar skoðunar og reynslan hefur rækilega sannað það, hygg ég vera, að nýsköpun í atvinnulífi verður fyrst og fremst í minni fyrirtækjum og í nýjum fyrirtækjum sem seinna verða að vísu oft stór ef vel gengur og jafnvel hlutar af stærri samsteypum. En það eru þessir vaxtarsprotar í atvinnulífinu sem þarf að hlúa að og þess vegna þarf skattkerfið alveg sérstaklega að leggja sig eftir því að vera vinsamlegt nýsköpun, stofnun fyrirtækja og rekstri þeirra á fyrsta æviskeiði. Þetta, herra forseti, verð ég að segja um þá leið sem er valin í sambandi við breyttar reglur um skattalega meðferð arðgreiðslna í atvinnurekstri.

Hins vegar er það þannig, herra forseti, að frv. byggir á þeirri aðferðafræði að reynt er að meta í greinargerð frv. hversu mikið skattstofn fyrirtækja eða lögaðila hækki þegar heimild til að draga greiddan arð frá skattstofni er felld niður. Sú heimild hefur verið mun hærri upphæð heldur en móttekinn arður innan fyrirtækjanna til frádráttar verður. Þann mismun í formi hærri skattstofns er síðan ætlunin samkvæmt frv. að jafna með því að lækka álagningarprósentuna sjálfa. Þar hins vegar er alveg ljóst að höfundar frv. ætla að láta fyrirtækið njóta vafans og rúmlega það. Fyrirtækið byggir á því að lækka tekjuskattsprósentuna úr 33% niður í 30% og í því felst óumdeilanlega og samkvæmt fylgiskjölum frv. sjálfs raunlækkun á skattgreiðslum fyrirtækjanna. Um það þarf ekki að deila því að í fylgiskjalinu á bls. 7 og bls. 8 er farið yfir þessa hluti í tölum.

Við sem skipum minni hlutann í efh.- og viðskn. erum andvígir því og að því lýtur brtt. okkar á þskj. 1342. Við teljum að í raun og veru væri engin sérstök ástæða til að hrófla við prósentunni þó að þessi breyting á meðferð arðgreiðslna í atvinnulífi sé gerð. Vilji menn koma eitthvað til móts við fyrirtækin vegna þess að skattstofninn mun væntanlega stækka nokkuð eins og fram kemur í grg. frv. þá væri meira en nóg að sú lækkun væri eitt prósentustig. Tillaga okkar gengur því út á það að í stað hlutfallstölunnar 30% í frv., í 6. gr. frv. er lækkun úr 33% niður í 30% eins og áður sagði, leggjum við til að þar komi 32%. Lækkunin yrði sem sagt aðeins eitt prósentustig og það er okkar mat að út úr því kæmi u.þ.b. óbreytt eða a.m.k. verulega lítið hærri skattbyrði á fyrirtækjunum. Lækkun niður í 30% þýðir hins vegar umtalsverða raunlækkun á sköttum fyrirtækjanna og það er ekki í samræmi við það sem við teljum brýnast og þarfast að gera í íslenskum ríkisfjármálum, þ.e. að lækka sérstaklega nú í góðærinu enn frekar en þegar hefur verið gert tekjuskattsgreiðslur fyrirtækja í ríkissjóð.

Það er rétt að hafa í huga, herra forseti, að tekjuskattur fyrirtækja hefur á fáeinum árum verið lækkaður verulega og ekki er langt síðan hann var á milli 40 og 50%. Auðvitað var þar að einhverju leyti á ferðinni arfur frá fyrri tíð þegar menn voru að baksa við að reyna að meta verðbólgu að einhverju leyti inni í álagningarhlutföll í skattgreiðslum í eftirágreiddum sköttum og það er að sjálfsögðu ekki fyrirkomulag sem neinn langar til að hverfa til á nýjan leik, þ.e. að fá verðbólguna, en hitt er ljóst að umtalsverð raunlækkun hefur orðið á þessum greiðslum undanfarin ár og á þremur til fjórum árum hefur þetta hlutfall lækkað fyrst úr 45% í 39%, síðan 36% og loks 33% eins og það hefur verið nú um árabil. Þetta þýðir að skatthlutfall fyrirtækja hér, þ.e. hlutfall greiddra skatta af hagnaði er eitt það lægsta sem þekkist innan OECD.

Síðan er rétt að minna á það að fyrirtækjum hefur verið ívilnað á undanförnum árum að ýmsu öðru leyti. Þannig voru t.d. aðstöðugjöld flutt á einu bretti frá fyrirtækjum yfir á launamenn eða yfir í launaskatta þegar aðstöðugjaldið var lagt niður og tekjuskattur og útsvar einstaklinga hækkað á móti fyrir nokkrum árum. Launatengdur kostnaður fyrirtækja hér er með minnsta móti, það er viðurkennt, þannig að þegar allt er dregið saman er alveg ljóst, herra forseti, að skattalegt umhverfi fyrirtækja á Íslandi er nú þegar eitt það hagstæðasta sem þekkist, og efh.- og viðskn. hafði í höndum gögn, m.a. frá Efnahags- og þróunarstofnuninni OECD, sem sýna þetta á óhrekjandi hátt. Það er því engin ástæða til þess að mati okkar flutningsmanna brtt. að grípa til enn frekari lækkana nú. Við teljum að við þá raunlækkun á tekjusköttum fyrirtækja sem hér er lögð til í frv. ríkisstjórnarinnar, svo ekki sé talað um brtt. hv. þm. Péturs H. Blöndals og Einars Odds Kristjánssonar sem leggja til í brtt. sem vafalaust verður mælt fyrir á eftir, að þetta hlutfall lækki enn frekar, ef ég man rétt úr 30% niður í 28%, þá sé náttúrlega ljóst að um væri að ræða umtalsverða gjöf til fyrirtækjanna að þessu leyti.

Það er rétt, herra forseti, að hafa í huga að ein aðalrökin fyrir því að létta byrðum af fyrirtækjum á undanförnum árum, og þá alveg sérstaklega þegar aðstöðugjaldið var lagt niður, voru að það þyrfti að hjálpa fyrirtækjunum í gegnum erfiðleikatímana. Launamenn yrðu að taka á sig byrðar tímabundið, bæði með sérstökum kjarasamningum, þjóðarsáttum og öðru slíku en einnig yrðu þeir að taka á sínar herðar enn auknar skattbyrðar, því miður vegna þess að hlífa yrði atvinnulífinu, en að sjálfsögðu var reiknað með því og allir sóru og sárt við lögðu að þegar aftur batnaði í ári hjá fyrirtækjunum, þá mundu þau skila þessu til baka, þá mundu þau fara að leggja meira af mörkum í sameiginlega sjóði. Ég kalla það, herra forseti, ekkert annað á íslensku en svik, nú þegar afkoman í atvinnulífinu hefur sannanlega batnað umtalsvert og við erum að sjá framan í verulegt góðæri í mörgum greinum íslensks atvinnulífs ef þá á að sleppa fyrirtækjunum algerlega við það að leggja meira í sameiginlega sjóði vegna þess að prósenturnar verði þá lækkaðar sem því nemur. Það er m.a. það sem hér er á ferðinni, að útkoman úr því að afgreiða þetta svona yrði raunlækkun á hlutfallslegri skattbyrði og hlutfallslegu framlagi fyrirtækjanna í sameiginlega sjóði. Það þýðir ekki að einblína á það að tekjuskattur fyrirtækja kunni að skila u.þ.b. jafnmörgum krónum nú og í fyrra eða hittiðfyrra vegna þess að í því var fólgin umtalsverð raunlækkun hlutfallslega þegar borin er saman batnandi afkoma í atvinnulífinu.

Ég tel, herra forseti, í ljósi þess að skattalegt umhverfi fyrirtækja á Íslandi er þegar með því hagstæðasta sem þekkist, að engin sérstök rök séu fólgin í því að létta þurfi enn frekar af þeim sköttum. Það er ekki hægt að færa fram rök fyrir því að hætta sé á því að fyrirtæki fari úr landi vegna þess að skattalegt umhverfi þeirra á Íslandi sé óhagstæðara en erlendis, þvert á móti er það öfugt. Það er alveg ljóst að í mörgum nálægum löndum sem mönnum gæti dottið í hug að bera þetta saman við, þá er skattalegt umhverfi þar óhagstæðara. Ekki flýja fyrirtækin héðan til Þýskalands til að sleppa við mikinn launatengdan kostnað því þar er hann margfalt hærri en hér. Og svo mætti áfram telja.

Í ljósi þess einnig, herra forseti, að afkoma í atvinnulífinu er góð og batnandi í mörgum greinum, þá er engin ástæða til þess að ívilna fyrirtækjunum sérstaklega að þessu leyti. Það er sanngjarnt að þau skili auknum tekjum til sameiginlegra þarfa á komandi árum. Ég vil t.d. nefna alveg sérstaklega í þessu sambandi sjávarútvegsfyrirtækin. Það er enginn vafi á því að sjávarútvegsfyrirtækin mörg hver sem hafa verið að njóta góðs af góðæri til sjávarins og hagstæðum efnahagsskilyrðum eru unnvörpum búin að fullnýta eða u.þ.b. að verða búin að fullnýta uppsafnað tap frá erfiðleikaárunum þrátt fyrir að menn hafi af rausnarskap sínum hér verið að lengja þann tíma sem fyrirtækin mættu nota eldgömul töp. En samt sem áður er það þannig og ég hygg að þeir sem fylgst hafa með afkomutölum stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna, t.d. gegnum milliuppgjör á undanförnum mánuðum þegar þau hafa verið að koma fram, hafi tekið eftir því að hreinn hagnaður sumra þeirra hefur verið að lækka, þ.e. eftir greidda skatta, af þeirri einföldu ástæðu að skattgreiðslur eru að koma til, oft og tíðum í fyrsta skipti um langt árabil hjá þessum fyrirtækjum. Það er gott. Að því var einmitt stefnt. Það var ætlunin með því að gera starfsskilyrði þeirra hagstæð. Og það er að koma aftan að hlutunum að mínu mati, herra forseti, að rjúka þá til og fara að lækka tekjuskattsprósentuna enn frekar en orðið er. Það eru ekki efndir á þeim sáttmála launamanna, atvinnulífs og stjórnvalda sem ég hélt að menn hefðu í raun og veru talið sig meira og minna vera að framfylgja og undirbyggja allt frá árinu 1990, bæði gegnum kjarasamninga og hvað varðar skattalegar ráðstafanir og fleira í þeim dúr. Ég er því mjög spenntur að heyra rök hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar fyrir því að fara nú af stað með alveg sérstaka tekjuskattslækkun á fyrirtækin, hvernig hv. þm. sér það í ljósi efnda, þjóðarsáttar og samskipta launamanna og atvinnulífs í landinu. (EOK: Þú færð að heyra þau.) Ég fæ að heyra þau, er kallað fram í úr salnum og það verður spennandi að hlýða á það.

Herra forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég tel mig hafa rökstutt það með fullnægjandi móti að tillögur ríkisstjórnarinnar þýða skattalækkun, raunlækkun á skattbyrði fyrirtækja hvað varðar tekjuskattshlutfall af endanlegum hagnaði. Við leggjum til að þessi hundraðstala fari úr 33% niður í 32%. Við teljum að það þýði u.þ.b. óbreytta, e.t.v. lítið eitt hærri skattbyrði á fyrirtækin sem þau eru í ágætri aðstöðu til að bera eins og nú háttar til.