Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 11:08:51 (7359)

1998-06-03 11:08:51# 122. lþ. 142.5 fundur 553. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall fyrirtækja, arðgreiðslur o.fl.) frv. 95/1998, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur, 122. lþ.

[11:08]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ekki sé hægt að taka meðalskattprósentu einstaklinganna og meðhöndla hana í samanburði með þessum hætti því að þá verðum við að hafa í huga að fjölmargar jöfnunaraðgerðir innan skattkerfisins valda þeirri meðalprósentu eins og hún er, ekki bara persónufrádrátturinn heldur tekjutenging ýmissa liða. Allt spilar þetta saman. Hins vegar það sem launamaðurinn sjálfur horfir á að eftir að komið er upp fyrir skattleysismörkin þá er hann að borga tæp 40%, 40 kr. af hverjum 100 af þeim launum sem eru þar fyrir ofan. Fyrirtækin borga hins vegar ekki fyrr en þau eru búin að draga allt frá sem hugsast getur og þá er prósentan þessi.

Er hagnaður íslenskra fyrirtækja of mikill miðað við það sem er erlendis? Svarið er auðvitað nei enda snýst þetta mál ekkert um það að við séum á móti hagnaði fyrirtækjanna og hann megi ekki vera fyrir hendi. Þetta snýst ekki um það. Þetta snýst um hvort ekki sé sanngjarnt að fyrirtækin borgi eðlilega af þeim hagnaði í sameiginlega sjóði. Auðvitað er alveg ljóst að sú prósenta má ekki fara upp úr öllu valdi því að þá verkar það letjandi fyrir fyrirtækin til þess að skila hagnaðinum, sýna hann og það getur hvatt til óhagkvæmari fjárfestingar og allt það. En það eru ekki rök fyrir því að fara með þessa prósentu niður í núll og ég vona að hv. þm. sé ekki að leggja það til. Einhvers staðar þurfa þessi sjónarmið að mætast í skynsamlegum og hóflegum mörkum og það sem við erum að segja hér er ósköp einfaldlega þetta: Við teljum að menn séu að fara niður fyrir þau sanngirnismörk sem eðlilegt megi telja að fyrirtækin leggi þarna af mörkum.