Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 12:01:54 (7367)

1998-06-03 12:01:54# 122. lþ. 142.5 fundur 553. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall fyrirtækja, arðgreiðslur o.fl.) frv. 95/1998, SJS
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur, 122. lþ.

[12:01]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kaus að fara ekki í andsvar við hv. þm. úr því að svo vel stóð á að ég var næstur á mælendaskrá og ætla að leyfa mér að svara hv. þm. með nokkrum orðum.

Ég verð að segja að mér fannst hv. þm. fara nokkuð hörðum orðum um þá greinargerð með brtt. sem við höfum lagt fram og ég er höfundur að og skal gangast við með mikilli ánægju. Ég bið hv. þm. að færa því stað að farið sé með ósannindi eða lygar í þessari greinargerð. Það eru að sjálfsögðu fullyrðingar í þessari greinargerð sem byggja á huglægu mati á hlutum, en að farið sé rangt með einhverjar tölulegar staðreyndir eða farið með lygar kannast ég ekki við. Og ég bið hv. þm. að venja sig á að rökstyðja slíka hluti áður en hann skellir slíku á mig. (EOK: Já, ég skal gera það.) Já, ég bið hv. þm. að gera það. Ég kann því heldur illa að vera kallaður lygari úr ræðustóli á Alþingi, hef ekki lagt það í vana minn að ljúga vísvitandi og ég bið hv. þm. ... (EKJ: Þú kallaðir mig svikara áðan.) Ég sagði að ég kallaði það svik að gera tiltekna aðgerð og hv. þm. verður svo að meta það fyrir sjálfan sig hvort hann telur sig vera í þeim hópi.

En við skulum fara aðeins yfir þessi mál sem hv. þm. ræðir af svo mikilli speki. Eitt af því sem hann taldi að við færum rangt með og væri rangt í þessari greinargerð væri það að halda því fram að skattalegt umhverfi fyrirtækja á Íslandi væri hvað? Eins og segir hér í greinargerðinni --- með því hagstæðasta sem þekkist. Það fullyrti hv. þm. að væri rangt, væru lygar, mikil ósannindi sagði hv. þm.

Herra forseti. Nú liggur það fyrir að ekki bara er tekjuskattsprósenta íslenskra fyrirtækja í lægri kantinum innan OECD og verður með því lægsta sem slík þegar búið verður að lækka hana eins og flutningsmenn frv., svo ég tali nú ekki um tillögumenn leggja til og þá eru einu dæmin um sambærilega eða lægri tölu þrjú hinna Norðurlandanna og svo fyrirmyndarríkin Ungverjaland og Tyrkland sem hv. þm. vill greinilega bera sig sérstaklega saman við. Þannig stendur það. Það er óhrekjandi. Öll OECD-ríkin eru hér á töflu sem var dreift á borð þingmanna og þessar tölur eru þannig.

Til viðbótar liggur það fyrir að launatengdur kostnaður íslenskra fyrirtækja er einnig með því lægsta sem þekkist. Það er vitað að mörg lönd sem eru með hærri tekjuskattsprósentu eru til viðbótar með miklu hærri launatengd gjöld. Þegar heildarskattalegt umhverfi fyrirtækjanna er skoðað sem greiða lítið til sveitarfélaga vegna þess að þegar aðstöðugjaldið var fellt niður á einu bretti var ekki valin sú leið hér sem gert hefur verið sums staðar annars staðar að leita eftir einhverjum afkomutengdum sköttum í staðinn. Menn hafa t.d. gjarnan skoðað þann möguleika að fyrirtækin færu að greiða meira vegna ýmiss konar umhverfiskostnaðar sem svo er kallaður og sveitarfélögin leggi á þau. Þetta er ekki til staðar hér. Ég hygg að þegar önnur gjöld eru skoðuð sem fyrirtæki hér greiða í einhverjum mæli eins og fasteignagjöld eða annað því um líkt, þá sé það allt saman á heldur hóflegum nótum, enda liggur það fyrir, herra forseti, að Norðurlöndin hafa búið fyrirtækjum sínum eitthvert hagstæðasta skattalega umhverfi sem þekkist, alla vega innan OECD. Það liggur alveg fyrir og um það er ekki deilt. Það var markvisst að því unnið t.d. í Svíþjóð og víðar vegna þess að Svíar sáu á eftir mörgum fyrirtækjum og voru í aðgerðum á síðasta áratug og fram á þennan til þess að snúa þeirri þróun við.

Ísland stendur í þeim samanburði innan Norðurlandanna mjög vel, vel í þeim skilningi að þar er þetta skattalega umhverfi mjög hagstætt. Ég fullyrði það, herra forseti, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson getur ekki rökstutt þau orð sem hann hafði um það að farið sé rangt með í greinargerðinni að skattalegt umhverfi fyrirtækja á Íslandi sé með því hagstæðasta sem þekkist. (EOK: Það er rangt.) Það er ekki fullyrt annað. Ég bið þá hv. þm. að koma með þær tölur.

Það er kannski nauðsynlegt, herra forseti, að lesa þessar prósentur upp til að þeir sem á þetta hlýða eða þetta kunna að lesa átti sig á því hvað liggur fyrir framan menn þrátt fyrir fullyrðingar hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar. Við skulum bara renna yfir ríkin. Hér er verið að taka saman á töflu sem efh.- og viðskn. fékk í gegnum fjmrn. að ég hygg en eru opinber gögn frá OECD og reyndar vel þekkt því að slíka töflu eða sambærilega hef ég oft skoðað í skýrslum þeirrar stofnunar. Teknir eru bæði tekjuskattar eða sambærilegir skattar við tekjuskatta sem renna til sveitarfélaga eins og þekkist í nokkrum tilvikum og síðan hlutur ríkisins, þetta er tekið og lagt saman.

Þá eru þessar hundraðshlutatölur þannig, herra forseti, að í Austurríki er þetta samtals 34%, hærra en það er á Íslandi í dag. Í Ástralíu er þetta 36%, hærra en það er á Íslandi í dag. Í Bandaríkjunum er þetta 6,9% til sveitarfélaga og 35% til ríkis eða fylkis, 39,5%, verulega hærra en það er á Íslandi í dag. Í Belgíu er þetta 40,17%, verulega hærra en á Íslandi í dag. Í Bretlandi er þetta 33%, sama hlutfall og á Íslandi í dag. Í Danmörku er þetta 34%. Vera kann að sú tala breytist eins og hv. þm. var að vitna til að gæti gerst en þá það. Þetta er sú tala sem liggur fyrir í þessari skýrslu og fullyrðingin byggir auðvitað á því sem nú liggur fyrir í málinu. Síðan kemur Finnland að vísu með 28%, enda var sú prósenta lækkuð drastískt í Finnlandi fyrir nokkrum árum sem hluti af krísuaðgerðum þar. Í Frakklandi er hlutur ríkisins að svo miklu leyti sem það er sambærilegt 33%, sama og á Íslandi í dag, í Grikklandi 40% eða 35%, tveir flokkar, hærra í báðum tilvikum en á Íslandi í dag. Í Hollandi 35%, hærra en á Íslandi í dag. Á Írlandi 38%, talsvert hærra en á Íslandi í dag og hafa Írar þó haft á sér orð fyrir að hafa lagt sérstaklega mikið á sig til að reyna að stuðla að nýsköpun og örva hagvöxt í því landi og hefur margt tekist vel en þeir hafa greinilega ekki það sama álit á tekjuskattsprósentu af hagnaði fyrirtækja og hv. þm. Pétur Blöndal og Einar Oddur Kristjánsson í því sambandi, því að þeir eru þarna með verulega hærra hlutfall en við. Svo kemur Ísland í töflunni með sín 33%. Svo kemur Ítalía með 52,2%, og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hafði um það þau orð að á Ítalíu væri allt í kalda koli sem gæti verið í kalda koli. (EOK: Löngum.) Löngum já, dregur aðeins í land með það.

Staðreyndin er sú, og það er alveg rétt að efnahagsstjórn á Ítalíu hefur gengið upp og ofan eins og gengur og þar hafa þeir kannski ekki síður goldið pólitísks óstöðugleika heldur en efnahagslegs. Þeim tókst þó að klára EMU-kröfurnar og náðu að koma efnahagnum á Ítalíu inn fyrir þau mörk sem þar voru sett. Það var að vísu tæpt en það tókst þó. Ég leyfi mér að fullyrða að það sé býsna útbreitt vanmat í gangi á efnahagslegum styrk Ítalíu. Það vita allir sem vilja vita að neðanjarðarhagkerfið á Ítalíu er stórt og kannski á það einhvern þátt í því að prósentan er svona há eða öfugt að það leitar niður fyrir vegna hárrar prósentu. Það er alveg hárrétt. (Gripið fram í.) En það er margt fleira sem þar kemur til sögunnar en tekjuskattsprósentan ein. Nei, ég hef ekkert mótmælt því að hún eigi sér einhver mörk. Ég sagði það í ræðu minni. Er ekki hægt að ræða hérna við menn með rökum án þess að snúa endalaust út úr fyrir mönnum? Ég viðurkenni það vissulega að því eru líka takmörk sett hversu hátt þessi prósenta má fara. Það gefur auga leið að ef hún væri orðin 90 eða 100% þannig að allur hagnaður fyrirtækja væri gerður upptækur eða svo til, þá mundu menn reyna að forðast að sýna hann. Það liggur alveg ljóst fyrir og það er engin speki, hv. þm. Þetta vita allir. Menn þurfa ekki að hafa lært í Þýskalandi í mörg ár til að vita þetta, það liggur alveg fyrir og það sama á við um skatta launamanna þannig að svona þvættingsmálflutningur af hálfu þeirra hv. þm. Péturs Blöndals og Einars Odds Kristjánssonar er leiðigjarn vegna þess að þeir fást ekki til að ræða þessa hluti við mann með rökum. (Gripið fram í: Er þingmaðurinn reiður?) Já, ég hef ástæðu til. Ég er að svara hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni sem hafði uppi mjög stór orð um málflutning okkar og þá greinargerð sem við höfum lagt fram til rökstuðnings brtt. af okkar hálfu. Ég er að fletta frá hv. þm. með því að fara með tölulegar staðreyndir sem ég veit að hv. þm. mun ekki geta hrakið af því að þeim hefur verið dreift á borð þingmanna og þær eru á ábyrgð OECD og það mun sýna að svigurmæli hans hér áðan eiga sér ekki stoð.

Ítalía með sín 52% og við getum þess vegna orðið sammála um að þar sé fulllangt gengið. Síðan kemur Japan með 37,5%, hærra en á Íslandi í dag. Ég minni á, herra forseti, að það er aðeins eitt af þeim tíu eða tólf löndum sem ég hef þegar lesið upp sem er með lægri prósentu en Ísland. Öll eru með sambærilega eða hærri prósentu. Síðan kemur Kanada samtals með 43%, verulega hærri en á Íslandi í dag. Svo kemur að vísu Kórea. Þar er hlutfallið 31,15. Það er þó hærra en hv. þm. leggja til og mun hærra en tvíeykið leggur til í sinni brtt. með 28%. Næst kemur Lúxemborg og þykir þó ganga alveg þokkalega í efnahags- og atvinnumálunum þar, Lúxemborg eitt ríkasta land í heiminum og með firnasterkan efnahag þótt smáríki sé, þar láta menn sig ekki muna um að ætla fyrirtækjunum að borga 39% og frekar rúmlega en hitt, mun hærri en á Íslandi í dag. Þá kemur Mexíkó með 34%, svo kemur Noregur, annað þriggja Norðurlanda sem er með hin frægu 28% en þar kemur á móti að ýmiss annar kostnaður fyrirtækja í norsku atvinnulífi er mjög hár. Það vita menn. Þeir hafa að vísu styttra sumarfrí en t.d. hin Norðurlöndin en á móti kemur ýmiss annar launatengdur kostnaður sem er hár í Noregi, miklar greiðslur í lífeyrissjóði o.s.frv.

Nýja-Sjáland með 33%, Portúgal með 39,6%, Póllandi með 38%, mun hærra en á Íslandi í dag. Spánn 35%, Sviss 39,8%, tæp 40% og hafa Svisslendingar ekki þótt neinir hálfvitar í efnahagsmálum. Þá kemur þriðja Norðurlandið sem þarna er með lægri tölu, 28%, Tékkland með 39% og svo fyrirmyndarríkin sem hv. þm. vilja líkjast, Tyrkland og Ungverjaland. (Gripið fram í: Hver sagði það?) Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson var að mæra ástandið í Ungverjalandi í þessum efnum og hvað þetta væri gáfulegt hjá þeim að hafa þessa lágu prósentu og úthúða Ítölum. Svo kemur Þýskaland með mun hærri prósentu, 45% í hærri flokki og 30% í þeim lægri. Og er þó t.d. vitað og frægt að launatengdur kostnaður í þýsku atvinnulífi er gífurlega hár. Ætli hann nálgist ekki 20%. Einhvern tíma sá ég fyrir fáeinum árum töluna 18% yfir beinan launatengdan kostnað fyrirtækjanna. (EOK: Hann er núll í Danmörku.)

Þessar tölur, herra forseti, liggja fyrir. Samt heldur hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson því fram að það sé rangt sem hér er sagt, að skattalegt umhverfi fyrirtækja á Íslandi sé með því hagstæðasta sem þekkist. Það er ekki hægt að undirbyggja slíka fullyrðingu hjá hv. þm. Þetta er rétt. Skattalegt umhverfi fyrirtækja á Íslandi er með því hagstæðasta sem þekkist. Það liggur ekki bara fyrir í þessum tölulega samanburði. Það hefur líka legið fyrir t.d. þegar erlend fyrirtæki hafa verið að skoða skattkerfið hér. Þau hafa yfirleitt verið bærilega sátt við það að greiða í aðalatriðum skatta eftir íslenskum skattareglum. Þegar samið var um ég hygg stækkunina í Straumsvík frekar en eitthvert batterí uppi á Grundartanga, þá vildi hinn erlendi aðili fá val um að fara inn á íslenska skattkerfið frekar en greiða áfram samkvæmt þeim sérsamningum sem hann var með. Svo nálægt var íslenska skattkerfið því að vera hagstæðara fyrir fyrirtækin. (Gripið fram í: Hagstæð hverjum?) Hagstæðara heldur en þeir samningar sem þarna voru gerðir, og fyrirtækið kvartaði ekki undan því. Af einhverjum ástæðum samdi það og kom hingað með starfsemi sína. (EOK: Með sérlögum.) Kom hingað með sína starfsemi. Þetta þekki ég einnig, herra forseti, af ýmsum öðrum dæmum. Ég kannast ekki við að erlendir aðilar sem á annað borð hafa verið að kíkja á möguleikana á að koma með atvinnustarfsemi hingað, að skattbyrðin hafi sérstaklega fælt þá frá. Og fráleitt að það hafi gerst núna hin síðustu ár eftir að búið er að lækka þetta svona mikið.

[12:15]

Herra forseti. Ég tel að sú fullyrðing hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar sé hrunin, a.m.k. að þetta atriði í greinargerð með tillögu okkar sé rangt. Reyndar held ég að öll stóryrðin sem hv. þm. hafði um tillögu okkar og málflutning okkar falli meira og minna dauð og ómerk niður og hv. þm. ætti að varast að skjóta ekki sjálfan sig í lappirnar í málflutningi sínum eins og stundum vill henda hann.

Varðandi það sem hv. þm. sagði um afnám aðstöðugjaldsins þá er deilan ekkert um það að aðstöðugjaldið var vondur skattstofn enda studdu allir að það væri lagt af. Það sem ýmsir sögðu og þar á meðal ég og hafði þess vegna fyrirvara á í því máli var það að mér þótti kannski mega á milli vera að flytja skattbyrði sem var auðvitað tekin af fyrirtækjunum. Þau voru greiðendurnir hvernig sem útgjöldin dreifast síðan og fara út í verðlag. Það er það sem hér er verið að vísa til. Fyrirtækin í landinu voru greiðendur að skattstofni sem að núgildi er sjálfsagt í nágrenni við 5 milljarða kr. og hann var færður yfir í beina launamannaskatta. Þetta eru staðreyndir. Ég sagði þá og ég segi það enn, fyrr má nú gagn gera. Að mínu mati hefði ekki verið óeðlilegt að skoða að þetta færðist a.m.k. að einhverjum hluta yfir í einhverja afkomutengda skatta hjá fyrirtækjunum sjálfum. Þar hefði t.d. mátt skoða umhverfiskostnað eða leita annarra leiða til þess að fyrirtækin greiddu t.d. eitthvað til sveitarfélaga sinna þar sem þau eru staðsett í formi einhvers konar afkomutengdra gjalda. Ég held því, herra forseti, að ég þurfi ekkert að draga til baka í sambandi við ummæli mín um aðstöðugjaldið, ekki neitt. Ég vísa því til föðurhúsanna að í því sem ég sagði um það mál hafi falist einhver málflutningur sem ég get ekki staðið við.

Varðandi það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði um arðgreiðslurnar gerist sá merkilegi hlutur, sem gerist reyndar af og til, að við hv. þm. erum þar sammála. Hv. þm. var með mjög sambærilegar efasemdir um þá aðferð sem hér er valin og ég kom fram með í ræðu minni og ég get bara vísað til þess og endurtekið það sem ég sagði um þær áhyggjur mínar að þessi aðferð þýði óhagstæðari útkomu fyrir smærri fyrirtæki og fyrir fyrirtæki sem eru tiltöulega ný af nálinni, hún sé ekki nýsköpunarvæn ef við getum komist svo að orði í sambandi við atvinnulífið en muni fyrst og fremst nýtast stærri fyrirtækjunum og samsteypunum sem fái þarna rýmri stöðu.

Að lokum, herra forseti, nokkur orð í viðbót um hið fræga hlutfall og hvar það eigi að liggja. Ég vísa aftur á nýjan leik í fylgiskjalið sem ég fór yfir áðan varðandi það hvar við stöndum í þessum efnum í samanburði við önnur lönd en það er ekki nema eitt af mörgu sem er eðlilegt að skoða í þessum efnum því að a.m.k. enn þá eru skattareglur að einhverju leyti mismunandi á milli landa þó að mikil viðleitni sé uppi í Evrópusambandinu að samræma þær á öllu því svæði. Ætli það mundi þá ekki fljótt verða sá söngur uppi hér að við yrðum að gera það einnig og alveg ljóst að með tilkomu efnahags- og myntbandalagsins, evrunnar, og nýja evrópska seðlabankans verður mikill þrýstingur á þau ríki sem þar eru með og þau sem eru aðilar að sambandinu, ríkin fjögur sem standa þó ekki að EMU en eru engu að síður aðilar að Evrópusambandinu, að samræma til fulls skattapólitík sína, ríkisfjármál og fleira. En enn er það svo að menn geta að einhverju leyti ráðið þessu sjálfir og þá þarf að hyggja að mörgu fleira en bara prósentunni einni. Það þarf líka að hyggja að því hvernig skattareglur fyrirtækjanna eru að öðru leyti, hversu rýmilegar reglur eru um afskriftir, hvaða aðrar frádráttarheimildir hafa fyrirtækin o.s.frv. Það verður því líka að skoða það í samhengi. Og hversu rýmilegir menn eru við fyrirtækin um að þau megi nota gömul töp, kaupa á milli sín töp þannig að fyrirtæki í góðum rekstri og með hagnaði geti keypt fyrirtæki í sömu grein sem hafa lent í erfiðleikum og sloppið við að borga skatta árum saman vegna þess að þau kaupa það tap o.s.frv.

Hvað varðar fælingaráhrif hárrar tekjuskattsprósentu, sem hv. þm. Pétur H. Blöndal gerði mikið að umtalsefni og lagði aðallega út af, fannst mér í raun og veru hv. þm. ganga ansi langt í því að fullyrða að fyrirtækin mundu gera allt annað en borga tekjuskatt, menn mundu jafnvel bara gera tóma vitleysu frekar en borga tekjuskatt. Er það þá mat hv. þm. á forustumönnum í íslensku atvinnulífi að þeir muni kaupa um hver áramót ónýtan eða gagnslausan tölvubúnað í stórum stíl eða eitthvað sem þau hafa meira og minna enga þörf fyrir bara til þess að losna við að borga tekjuskatt? Mér finnst hv. þm. verða aðeins að hafa í huga að almennt eru stjórnendur íslenskra fyrirtækja skynsamir menn og taka skynsamlegar ákvarðanir. Ein af þeim skynsamlegu ákvörðunum hlýtur að vera sú að reka fyrirtækið með góðum hagnaði og sýna þann hagnað þannig að fyrirtækið sé bæði sýnilegt og efnislegt og í reynd að fyrirtækinu vegni vel. Höfum t.d. í huga öll þau fjölmörgu fyrirtæki sem eru nú komin á hlutabréfamarkað, ýmist á verðbréfaþing eða á tilboðsmarkað eða eru a.m.k. hlutafélög þar sem eignarhald er farið að dreifast í einhverjum mæli. Að sjálfsögðu skiptir það þá máli fyrir stjórnendur og eigendur þeirra fyrirtækja að þau séu gerð upp með hagnaði og að sá hagnaður sé sýnilegur. Hvað ætli verði um gengi hlutabréfa í fyrirtæki sem rekið er með því hugarfari sem hv. þm. var að gefa í skyn að rjúki til og eyði hverri einustu krónu um hver einustu áramót þess vegna næstum að segja í óþarfa og vitleysu frekar en að borga sanngjarnt hlutfall í tekjuskatt? Auðvitað er þetta ekki svona.

Það má frekar segja að í einkafyrirtækjum eða lokuðum fyrirtækjum þar sem menn eru ekki að horfa í gengi á bréfum og annað í þeim dúr, sé ekki sama aðhald að þessu leyti, ég viðurkenni það alveg, en þar ætti á hinn bóginn að vera meira aðhald hvað það varðar að sýna ráðdeild í rekstrinum og eyða ekki fé fyrirtækjanna í einhvern óþarfa. Vissulega er næmt samband á milli þrýstings í fyrirtækjunum á fjárfestingar og svo aftur skattgreiðslur eða arðgreiðslur út úr fyrirtækjunum. Það er alveg vitað. En ég vísa til þess að þarna verða menn að finna sér einhver hófleg mörk og í þeim efnum eru sjálfsagt engin sérstök vísindi til en það er væntanlega ekki verra en hvað annað að líta til þess hvernig skattalegt umhverfi fyrirtækjanna í heild sinni er hér á landi og stendur í samanburði við önnur lönd og það er það sem við höfum gert í málflutningi okkar og tillaga okkar er grundvölluð á. Ég bakka ekki með eitt einasta orð sem ég hef sagt um þau efni né dreg neitt til baka af því sem stendur um það efni í greinargerðinni.

Að lokum, herra forseti, er þetta ekki eingöngu reikningsdæmi. Þetta er ekki bara fræðileg spurning að finna út hvar er best að vera nákvæmlega á kúrfunni og svo geta menn látið það eitt ráða. Er það ekki líka þannig, herra forseti, að við erum með ákveðna þörf fyrir tekjur til að standa straum af sameiginlegum útgjöldum? Við erum að reyna að finna einhverja sæmilega réttláta niðurstöðu hvað það varðar að dreifa þeim byrðum, reyna að láta þá borga sem eru borgunarmenn fyrir hlutunum. Þess vegna er verið með ákveðnar reglur um tekjuskatta á einstaklinga. Menn eru með persónufrádrátt, tiltekin skatthlutföll, álag á hæstu tekjur og þar fram eftir götunum. Ég er ósköp einfaldlega þeirrar skoðunar að það sé sanngjarnt að atvinnulífið leggi sitt af mörkum í þessum efnum og fyrirtækjum sem hefur verið búið hagstætt umhverfi og hagnast vel greiði talsvert hlutfall af þeim hagnaði til sameiginlegra þarfa og eigi svo afganginn til að byggja upp og styrkja stöðu sína enn frekar. Þannig á þetta að vera og um þetta held ég að menn séu ekkert ósammála þegar þeir komast niður á jörðina og hætta að ræða þetta í einhverjum upphlaupsstíl. Spurningin er þá bara um rök og gagnrök fyrir því að þetta eigi frekar að vera hérna en þarna. Það er það sem við erum að ræða og það er ekki eins og menn séu að takast á um að það sé himinn og haf á milli manna. Ég vek athygli á því að það sem við erum að leggja til er lækkun um 1%, í 32%, það sem þrír aðrir nefndarmenn leggja til, þ.e. þeir sem styðja frv. óbreytt, er 30% og svo er tillaga tvímenninganna, hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar og Péturs H. Blöndal, 28%. Þarna er svo sem ekkert himinn og haf á milli og einhverjum kann að þykja það undarlegt í ljósi þess hita sem hlaupið hefur í umræðuna að í reynd ber ekki meira en þetta á milli.

Ég verð að játa það, herra forseti, að mér finnst stundum að þegar hægri menn eru að ræða um skattamál og það snýr bæði að sköttum fyrirtækja og sköttum einstaklinga, komi þeir kannski ekki alveg hreint til dyranna þegar þeir eru að rökstyðja skattalækkanirnar eingöngu út frá því að það sé svo góð pólitík og muni skila sér í hærri og meiri sköttum síðar o.s.frv. En skyldi það ekki líka blunda á bak við hjá einstöku hægri manni að með því er líka verið að minnka tekjurnar sem eru til þess að standa undir samneyslunni í landinu og draga þar með saman samneysluna. Það er auðvitað hin hliðin á málinu. Ætli það sé ekki í hjarta sumra íhaldsmanna einmitt það jákvæða sem þessu fylgi og þar kemur að hinum pólitíska grundvallarágreiningi. Þar erum við algerlega ósammála, ég og hv. þm. Pétur H. Blöndal. Ég vil afla tekna í ríkissjóð til þess að hægt sé að standa undir góðu velferðarkerfi á Íslandi, til þess að hægt sé að búa vel að öldruðum, sjúkum o.s.frv. Þessa tekjuöflun vil ég reyna að byggja upp með þeim hætti að það sé sanngjarnt og menn borgi eftir því sem efnahagur þeirra leyfir. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst það vera þannig að miðað við skattbyrðina eins og hún er t.d. á launamönnum á Íslandi og almenningi sem borgar mjög háa tekjuskattsprósentu þrátt fyrir þá lækkun sem þar hefur orðið vegna þess hve skattfrelsismörkin eru lág og sem bera einhvern hæsta neysluskatt sem þekkist í heiminum og því getur hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson tæplega mótmælt þó hann reyni ýmislegt hér að virðisaukaskatturinn á Íslandi er sá annar eða þriðji hæsti í heiminum sem a.m.k. ég þekki og ég bið hv. þm. að hjálpa mér ef hann þekkir fleiri dæmi nema þá Danmörku og Svíþjóð þar sem þetta hlutfall er svipað eða hærra. Þegar við lítum til þess hvað þarna er í raun og veru tekið, fyrst beint og síðan óbeint, til samneyslunnar af öllum þeim fjármunum sem einstaklingarnir hafa á milli handanna, verður þá ekki svolítið holt undir umræðunni hér um að það sé sérstök nauðsyn nú í góðærinu og með verulega batnandi afkomu fyrirtækja að lækka sérstaklega prósentuna á tekjuskatt af hagnaði fyrirtækjanna, á endanlegum hagnaði fyrirtækjanna, þegar þau hafa gert upp, nýtt alla frádráttarmöguleika sína, dregið frá gömul töp eins og þau áttu o.s.frv., á sama tíma og launamennirnir eru að borga þessa háu tekjuskatta af svo til hverri krónu sem þeir fá brúttó í laun og fara svo með afganginn út í búð og kaupa þar vörur og borga af þeim einhvern hæsta virðisaukaskatt í heimi?