Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 12:32:08 (7369)

1998-06-03 12:32:08# 122. lþ. 142.5 fundur 553. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall fyrirtækja, arðgreiðslur o.fl.) frv. 95/1998, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur, 122. lþ.

[12:32]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst þessi þræta um prósentur og æfingar í málfræði ekki mjög áhugaverð. Ég tel að það sé alveg óumdeilanlegt og það hafi verið sýnt fram á það með fullnægjandi rökum að þetta skattalega umhverfi fyrirtækjanna á Íslandi er þegar mjög hagstætt (PHB: En þessi setning?) og það stendur alveg undir þeirri fullyrðingu sem er aftast í greinargerðinni að það sé með því hagstæðasta sem þekkist.

Varðandi setninguna um tekjuskatt fyrirtækja að hann sé þegar eitt lægsta hlutfall af hagnaði sem þekkist innan OECD er auðvitað túlkunaratriði hvort rétt sé að taka svona til orða. Þarna eru þrjú Norðurlandanna með lægri prósentur, sömu prósentuna, 28% og síðan eru tvö lönd með lægri prósentu, þ.e. Ungverjaland og Tyrkland, og þá erum við komin upp í fimm. Samt er það þannig að fimm af 29 hlýtur að teljast vera í hagstæðari endanum á þessari töflu, með því lægsta sem þarna þekkist. Síðan er eitt land fyrir neðan Ísland, það er Kórea og síðan er Ísland og eitt annað land með 33%. Öll hin eru hærri þannig að Ísland er þarna vel neðan við þorrann af þessum OECD-ríkjum. Það er þannig. Við getum síðan endalaust rætt um hvernig sé best að taka til orða í þessum efnum en ég tel að þarna sé ekkert sagt sem ekki stenst þegar þetta er skoðað.