Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 12:36:11 (7371)

1998-06-03 12:36:11# 122. lþ. 142.5 fundur 553. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall fyrirtækja, arðgreiðslur o.fl.) frv. 95/1998, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur, 122. lþ.

[12:36]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta er náttúrlega sama þrætan áfram hjá hv. þm. Hann lemur bara höfðinu við steininn. Það sem ég sagði um aðstöðugjaldið og er rétt er það að aðstöðugjaldið var greitt af fyrirtækjunum. Fyrirtækin voru greiðendur að þeim skatti og álagningarstofninn var á sínum tíma þegar þetta var flutt yfir þannig að það hefði skilað a.m.k. rúmlega 4 milljörðum kr. á verðlagi upp úr 1990 eða hvenær þetta nú var. Skattarnir voru fluttir yfir í tekjuskatt og útsvar og það hækkaði prósentuna hjá einstaklingunum um líklega eitthvað nálægt 3% ef ég man rétt. Það er því ósköp einfaldlega ekkert sagt annað í greinargerðinni hvað þetta snertir en það sem er rétt, það hvernig aðstöðugjaldið dreifðist síðan út í verðlag og það að halda því fram þegar upp er staðið að lokum, þá hafi þetta allt verið borgað af launamönnunum. Auðvitað má segja um allan kostnað fyrirtækja og alla skatta og alla hluti að þeir endi alltaf þar með sömu rökum. En er ekki hægt að hugsa sér að a.m.k. eitthvað af þessum kostnaði hafi komið fram í minni arði eigenda fyrirtækjanna og í öðrum hlutum? Dreifingin getur því verið með fleiri hætti en þeim einum að þetta hafi allt farið yfir á launamenn og beint út í verðlagið sem þeir hafi síðan goldið fyrir.

Að skattalegt umhverfi hér sé hagstætt í skilningnum skattar til ríkis og sveitarfélaga, þá stendur það. Skattgreiðslur íslenskra fyrirtækja til ríkis og sveitarfélaga, það sem við köllum skatta í venjulegum skilningi þess orðs eru mjög lágir. Það þýðir ekki að blanda einhverjum öðrum hlutum inn í það sem hefur vissulega áhrif á samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs eins og framleiðni í íslenskum fyrirtækjum, það að hér er smár heimamarkaður eða eftirlitskostnaður eða annað því um líkt. Við erum að tala um skatt til ríkis og sveitarfélaga í þessu máli. Þetta er frv. til laga um tekjuskatt og eignarskatt. Ég hélt að hv. þm. væri búinn að átta sig á því hvaða mál þetta væri þó hann væri eitthvað ruglaður á því í morgun.