Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 12:42:00 (7374)

1998-06-03 12:42:00# 122. lþ. 142.5 fundur 553. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall fyrirtækja, arðgreiðslur o.fl.) frv. 95/1998, GÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur, 122. lþ.

[12:42]

Guðlaugur Þór Þórðarson:

Hæstv. forseti. Það hefur verið mjög athyglisvert að hlusta á þá umræðu sem hefur farið fram og þó sýnu athyglisverðast þótti mér að heyra í hv. þm. Sighvati Björgvinssyni sem talaði um að góðærið hafi ekki skapast vegna lækkunar skatta á fyrirtækjum. Það er kannski sérstaklega athyglisvert fyrir mig sökum þess að ég var stuðningsmaður síðustu ríkisstjórnar sem samanstóð af Sjálfstfl. og Alþfl. eins og við þekkjum. Ef ég man rétt keyrðum við í kosningabaráttunni á þeim málflutningi sem ég trúði að ríkisstjórnin hefði farið út í ákveðnar aðgerðir til þess að skapa heilbrigðara rekstrarumhverfi og styrkja samkeppnisstöðu þjóðarinnar. Þar var talað um minnkandi ríkisafskipti eins og að minnka sjóði og millifærslu á vegum hins opinbera og lækka skatta. Niðurstaðan er klárlega sú að íslensk fyrirtæki eru í mun betri samkeppnisstöðu en þau voru. Kannski er skýrasta dæmið um það eins og oft hefur komið fram í umræðunni að erlend fyrirtæki sem koma hingað inn þurfa ekki að semja sérstaklega um sérstök skattalög eins og áður gerðist. Það er stór breyting. Ef þetta var ekki grunnurinn að því að nú er góðæri í þjóðfélaginu þá erum við einstaklega heppin.

Einhvern veginn er það athyglisvert miðað við þau dæmi sem tekin voru í umræðunni að það virðist vera að þau lönd sem eru að reyna að vinna sig upp úr kreppu, eru að reyna að skapa góðæri, skapa sterkara rekstrarumhverfi, virðast fara þessa leið. Nýverið fengu þingmenn skýrslu sem heitir Framsæknustu fyrirtæki og frumkvöðlar Íslands og Evrópu. Hvað kemur þar fram? Þar kemur fram að fyrirtæki frá Íslandi á lista Europe's 500 eru hlutfallslega mörg. Það kemur líka fram að fjölgun starfa á Íslandi er með því mesta sem gerist í Evrópu. Það er bara í einu landi sem er meiri heildarfjölgun starfa í prósentum á tímabilinu 1991--1996 og hvaða land skyldi það vera? Það var títtnefnt Finnland sem er með 28% skatthlutfall. Þó að það sé ekki eina ástæðan þá hlýtur það a.m.k. að vera umhugsunarefni að hvort sem við lítum til Finnlands eða hvort menn líta til Svíþjóðar virðast þessi lönd fara þá leið til þess að styrkja samkeppnisstöðu sína, til þess að fjölga störfum, til þess að ýta styrkari stoðum undir velferðina títtnefndu, þau fara þá leið að lækka skatta á fyrirtæki. Ég átta mig ekki alveg á málflutningi hv. þm. bæði Steingríms J. Sigfússonar og Sighvats Björgvinssonar þegar þeir tala um það og mikill hluti deilunnar hér snýst um það sem mér finnst ekki vera aðalatriðið, þ.e. hvort hér séu íslensk fyrirtæki með skattumhverfi sem sé það hagstæðasta sem gerist. Hvað væri að því og hvað er svo skelfilegt við það ef Ísland væri bara með hagstæðasta skattumhverfið?

Nú liggur alveg fyrir og ég held að það sé mjög hæpið að halda öðru fram, en það sé vegna þess að við séum búin að breyta úr óhagstæðu skattalegu umhverfi í tiltölulega hagstætt, það hafi skilað sér í góðæri, það hafi skilað sér í fjölgun starfa, það hafi skilað sér í betra atvinnuástandi, það hafi skilað sér í hærri tekjum. Við erum að koma styrkari stoðum undir velferðina í landinu. Hvað er að því að við værum fremstir á þessu sviði? Hvað er að því í þessari samkeppni sem íslenskt þjóðfélag er að erlend fyrirtæki mundu vilja líta hér inn og koma hingað vegna þess að við værum fremstir í skattalegu tilliti og vonandi í fleiru?

Ég vek athygli á því vegna þess að það er bara staðreynd að við erum í samkeppni við fyrirtækin og í þessri ágætu skýrslu sem Samtök iðnaðarins gáfu út eru sem betur fer sex íslensk fyrirtæki á Europe's 500 og a.m.k. tvö af þeim gætu hæglega verið hvar sem er annars staðar í heiminum. Það er ekkert sérstakt sem heldur í þau á Íslandi. Það er auðvitað það umhverfi sem við erum að fara út í og við Íslendingar höfum kannski ákveðin sóknarfæri sökum þess að við erum ekki jafnvirkir þátttakendur í samrunaþróun Evrópu og þær þjóðir sem eru í Evrópusambandinu að geta nýtt sóknarfæri eins og að vera með mjög hagstætt skattalegt umhverfi fyrir fyrirtæki Íslendinga. Ég held að það væri mjög vel ef hv. þm. mundu tileinka sér þann hugsanagang því að klárlega er orsakasamhengi á milli velferðarþjóðfélaga og þess hvernig þeir búa að fyrirtækjum sínum og einstaklingum í skattalegu tilliti.