Yfirskattanefnd

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 13:34:12 (7377)

1998-06-03 13:34:12# 122. lþ. 142.8 fundur 641. mál: #A yfirskattanefnd# frv. 96/1998, Frsm. EOK
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur, 122. lþ.

[13:34]

Frsm. efh.- og viðskn. (Einar Oddur Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti efh.- og viðskn. um frv. til laga um breyting á lögum nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum.

Nefndin ræddi sérstaklega ákvæði 5. gr. frumvarpsins þar sem gert er ráð fyrir heimild til ríkisskattstjóra til að gera skattaðila skatt að nýju á grundvelli 3. mgr. 101. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt komi fram ný gögn eða upplýsingar sem ekki lágu fyrir við hina kærðu skattákvörðun. Með þessu er stefnt að því að ýmis smærri mál geti hlotið fljótvirkari afgreiðslu en ella. Í 24. gr. stjórnsýslulaga er að finna almenna heimild fyrir stjórnvöld til að taka mál til meðferðar á ný. Endurupptaka er þó ekki heimil hafi mál verið kært til æðra stjórnvalds. Með hliðsjón af þessu er sú sérregla sem lögð er til í ákvæði 5. gr. talin nauðsynleg. Þá telur nefndin rétt að fram komi sá skilningur hennar að ákvæði frumvarpsins gildi um öll mál sem þegar eru til meðferðar hjá yfirskattanefnd og hafa ekki hlotið afgreiðslu.

Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með eftirfarandi breytingu:

Við 4. gr. Orðið ,,verulegan`` í 2. efnismálsgrein falli brott.