Virðisaukaskattur

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 14:24:42 (7383)

1998-06-03 14:24:42# 122. lþ. 142.13 fundur 689. mál: #A virðisaukaskattur# (aðgangur að vegamannvirkjum) frv. 80/1998, Frsm. EOK
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur, 122. lþ.

[14:24]

Frsm. (Einar Oddur Kristjánsson):

Herra forseti. Þetta frv. til laga um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, er flutt af efh.- og viðskn. þingsins. Það er mjög stutt, aðeins tvær greinar. 1. gr. orðast svo:

Við 2. mgr. 14. gr. laganna bætist nýr töluliður sem orðast svo: Aðgangur að vegamannvirkjum.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.

Í frumvarpi þessu er lagt til að skatthlutfall vegna gjaldtöku fyrir aðgang að vegamannvirkjum verði 14%, en samkvæmt gildandi lögum er skatthlutfallið 24,5%. Verði frumvarp þetta að lögum mun ákvæðið taka til sölu á aðgangi að vegamannvirkjum án tillits til hverrar tegundar vegamannvirkið er að því tilskildu að seldur sé aðgangur að því. Frumvarp þetta er í samræmi við þingsályktunartillögu sem samþykkt var árið 1994, á 117. löggjafarþingi, um vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð. Með lögum nr. 45/1990, um vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð, var kveðið á um heimild til gjaldtöku af umferð um vegamannvirki sem reist yrði í því skyni að koma á vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð. Í áðurnefndri þingsályktunartillögu var staðfestur samningur við hlutafélagið Spöl hf. um einkarétt til að annast undirbúning, fjármögnun, framkvæmdir og rekstur vegamannvirkis á viðskiptagrundvelli með gjaldtöku af umferð í tiltekinn tíma. Í áðurnefndum samningi er gert ráð fyrir að virðisaukaskattur af umferðartekjum vegna reksturs Hvalfjarðarganganna verði ekki hærri en 14%.

Frumvarp þetta miðar að því að breyta 14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, til samræmis við þær skyldur sem íslenska ríkið hefur tekist á hendur gagnvart Speli hf. Þar sem farið er að líða að því að lokið verði við þetta mannvirki er nauðsynlegt að Alþingi taki ákvörðun um þá breytingu á lögum um virðisaukaskatt að skatthlutfallið verði 14%.