Gjöld af bifreiðum

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 14:29:18 (7385)

1998-06-03 14:29:18# 122. lþ. 142.15 fundur 715. mál: #A gjöld af bifreiðum# frv. 83/1998, Frsm. meiri hluta EOK
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur, 122. lþ.

[14:29]

Frsm. meiri hluta (Einar Oddur Kristjánsson):

Herra forseti. Þetta frv. til laga um brottfall laga um vörugjald af olíu og breytingar á lagaákvæðum um gjöld af bifreiðum er flutt af meiri hluta efh.- og viðskn., þeim Vilhjálmi Egilssyni, Einari Oddi Kristjánssyni, Gunnlaugi M. Sigmundssyni, Pétri H. Blöndal, Árna Ragnari Árnasyni og Valgerði Sverrisdóttur.

[14:30]

Lög nr. 34/1995, um vörugjald af olíu, voru sett á 118. löggjafarþingi en gildistöku þeirra frestað til 1. janúar 1996. Lögin kveða á um vörugjald af gas- og dísilolíu sem endurgreitt skal ef olían nýtt til annarra nota en aksturs skráningarskyldra ökutækja. Með lögum nr. 120/1995, er breyttu lögum nr. 34/1995 á 120. löggjafarþingi, var gildistöku laganna frestað til 1. janúar 1998. Á síðastliðnu vorþingi, 1997, lagði síðan fjármálaráðherra fram frumvarp til laga um breytingu á lögunum þar sem gert var ráð fyrir að í stað upptöku olíugjalds með endurgreiðslu vegna gjaldfrjálsrar notkunar olíu yrði tekið upp olíugjald með litun gjaldfrjálsrar olíu. Frumvarpið hlaut ekki afgreiðslu úr efnahags- og viðskiptanefnd. Þess í stað lagði nefndin fram nýtt frumvarp er kvað á um að gildistöku laga nr. 34/1995 skyldi frestað til 1. janúar 1999. Það frumvarp var síðan samþykkt sem lög frá Alþingi sama vor, sbr. lög nr. 90/1997.

Í frumvarpi því sem lagt var fyrir Alþingi nú á 122. löggjafarþingi um breytingar á lögum um vörugjald af olíu, nr. 34/1995, með síðari breytingum, 358. máli, þskj. 569, var lagt til að felld yrðu brott ákvæði laganna um endurgreiðslu olíugjalds til aðila sem ekki ættu að bera það en þess í stað yrðu settar reglur um litun á olíu sem seld yrði sömu aðilum án gjalds. Jafnframt yrði kveðið á um álagningu sérstaks olíugjalds á þá sem yrðu uppvísir að því að nota litaða olíu á skráningarskyld ökutæki.

Þá var í frumvarpinu lagt til að auk olíugjalds yrði innheimt kílómetragjald vegna aksturs bifreiða og eftirvagna sem eru 10.000 kg eða meira að heildarþyngd, annarra en bifreiða til fólksflutninga. Gjaldið yrði ákvarðað sem tiltekin fjárhæð á hvern ekinn kílómetra. Um yrði að ræða gjaldtöku sambærilega þeirri sem tíðkast hefur í þungaskattskerfinu. Greiðendur gjaldsins hefðu þó orðið helmingi færri en greiðendur í núverandi þungaskattskerfi, gjaldið hefði orðið mun lægra en fjárhæð þungaskatts og álestrartímabil færri en í þungaskatti.

Samkvæmt frumvarpinu var gert ráð fyrir að olíufélögin lituðu þá olíu sem seld yrði til gjaldfrjálsra nota þannig að sérstöku litarefni, ásamt merkiefni, yrði blandað í olíuna áður en hún yrði afhent. Upptöku olíugjalds með litun gjaldfrjálsrar olíu fylgir óhjákvæmilega verulegur kostnaður, m.a. hefðu olíufélögin þurft að kaupa búnað til litunar, og lituninni sjálfri fylgir nokkur kostnaður, auk kostnaðar vegna óhagræðis við dreifingu, aukinnar umsýslu o.fl.

Nefnd, sem skipuð var fulltrúum olíufélaganna, fjármálaráðuneytis og ríkisskattstjóra, kannaði líklegan kostnað við upptöku olíugjalds. Í því skyni mátu olíufélögin líklegan stofnkostnað miðað við þann búnað sem félögin áttu fyrir og þær aðferðir sem félögin töldu hagkvæmastar til litunar og dreifingar gjaldskyldrar og gjaldfrjálsrar olíu. Stofnkostnaður félaganna vegna kaupa á eigin búnaði var samkvæmt þessu mati talinn nema um 330 millj. kr., m.a. vegna byggingar birgðageyma og kaupa á litunarbúnaði, olíuflutningabílum og búnaði í þá o.fl. Kostnaður af fjölgun olíugeyma fyrir verktaka í blönduðum rekstri og bændur var metinn á um 84 millj. kr. Olíufélögin töldu að aukinn árlegur rekstrarkostnaður þeirra af upptöku olíugjalds yrði samtals um 143 millj. kr. Þar af næmi beinn rekstrarkostnaður um 70 millj. kr. en fjármagns- og afskriftakostnaður hins vegar um 73 millj. kr. Við mat á árlegum fjármagns- og afskriftakostnaði miðuðu félögin við að þau bæru kostnað af kaupum á geymum fyrir verktaka og bændur.

Líklegt var talið að upptaka litunarkerfis og sá kostnaður sem því fylgdi leiddi til einhverrar hækkunar á verði olíu. Ekki var auðvelt að segja fyrir um hversu mikil sú hækkun yrði eða hvort hún yrði eingöngu á gas- og dísilolíu.

Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að álagning og önnur framkvæmd varðandi olíugjald og kílómetragjald yrði í höndum ríkisskattstjóra en að hann gæti þó falið Vegagerðinni eða skattstjórum að fara með einstaka þætti framkvæmdarinnar. Ákvæði frumvarpsins að þessu leyti eru samsvarandi ákvæðum laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar. Sú ráðstöfun að færa álagningu og eftirlit þungaskatts til ríkisskattstjóra þykir hafa gefið afar góða raun. Þar sem framkvæmd olíugjalds með litun var talin mjög einföld og þar sem verkefni er lúta að kílómetragjaldi yrðu umfangsminni en verkefni í núverandi þungaskattskerfi var ekki gert ráð fyrir auknum kostnaði frá því sem verið hefur í þungaskattinum.

Loks var gert ráð fyrir því í frumvarpinu að Vegagerðin hefði eftirlit með gjaldskyldum ökutækjum eins og verið hefur. Eftirlit með því að ekki yrði notuð gjaldfrjáls olía til gjaldskyldra nota skyldi einkum felast í því að athuguð yrðu sýni úr olíugeymi ökutækja. Kæmi í ljós að olían væri lituð eða eftirlitsmönnum þætti af öðrum ástæðum tilefni til frekari skoðunar yrði sýnið sent á rannsóknarstofu þar sem kannað yrði magn sérstaks merkiefnis sem sett yrði í alla litaða olíu.

Þegar fjármálaráðherra mælti fyrir framangreindu frumvarpi tók hann fram að Alþingi yrði auk þess að taka afstöðu til frumvarpsins að taka afstöðu til málsins í heild sinni, þ.e. hvort taka ætti upp olíugjald með litun eða hvort endanlega ætti að falla frá hugmyndinni um olíugjald, og fól efnahags- og viðskiptanefnd útfærslu málsins.

Nefndin hefur á síðastliðnum mánuðum fjallað ítarlega um málið og fengið á fund sinn mikinn fjölda einstaklinga, svo og marga ráðuneytismenn. Þá hefur nefndinni einnig borist mikill fjöldi umsagna frá flestum þeim aðilum sem annast flutningamál á Íslandi og eru hagsmunatengdir þeim flutningum.

Niðurstaða meiri hluta nefndarinnar er sú að falla skuli frá því að taka upp olíugjald þar sem ávinningur af því að viðhalda tvöföldu kerfi, þ.e. annars vegar olíugjaldi og hins vegar kílómetragjaldi, er ekki talinn svara þeim kostnaði sem af því hlýst. Slíkt tvöfalt kerfi hefði í för með sér verulega aukinn kostnað frá því sem nú er vegna litunarbúnaðar og aukins dreifingarkostnaðar. Þá hefur framkvæmd þungaskattskerfisins verið stórbætt frá því að lögin um vörugjald af olíu, nr. 34/1995, voru samþykkt. Því leggur meiri hlutinn til að lögin um vörugjald af olíu verði felld brott og gerðar verði endurbætur á núverandi þungaskattskerfi, sbr. lög nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar. Þá verði vörugjald lækkað í áföngum, sbr. lög nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., og gerðar breytingar á lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, sem miða að hækkun bifreiðagjalds til að mæta lækkun vörugjalds.