Gjöld af bifreiðum

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 14:57:34 (7387)

1998-06-03 14:57:34# 122. lþ. 142.15 fundur 715. mál: #A gjöld af bifreiðum# frv. 83/1998, Frsm. meiri hluta EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur, 122. lþ.

[14:57]

Frsm. meiri hluta (Einar Oddur Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Það skal sannarlega viðurkennt að sú gjaldskrá sem sett er upp í 2. gr. frv. er tilraun til þess að koma í veg fyrir að hækkun verði á þeim töxtum langferðabíla sem flytja vörur hvað lengstar leiðir. Það skal viðurkennt að það er aðeins tilraun og við trúum því að með þessari skipan hækki kostnaður ekki á hinum lengstu leiðum. Það kann að vera að við þurfum að endurskoða þetta. Þá þurfum við að gera það. Ég vil taka fram að það er einlægur vilji allra flutningsmanna að koma í veg fyrir að kostnaður á lengstu leiðum, þ.e. vöruverð, hækki í mestu fjarlægð frá Reykjavík, þ.e. á Austfjörðum, Norðurlandi eystra og Vestfjörðum.

Ég minni líka á það og vil bæta því við rökin sem komu fram áðan gegn olíugjaldinu að það var alveg ljóst að ef við tækjum upp olíugjaldið værum við að mismuna mönnum óskaplega mikið vegna þess að það vill svo til á Íslandi að vegakerfið víða er mjög frumstætt. Það vill líka svo til að einmitt þar sem það er hvað frumstæðast er kannski um mesta hálendið að ræða, þar er kannski um mestu vetrarhörkurnar að ræða, þar eru menn að keyra bíla í frosti, í krapi, í snjó á vondum moldarvegum. Það er gríðarlegur munur á þeim olíukostnaði eða að keyra bíla á sléttu landi á malbikuðum vegum þannig að það var alveg víst að ef við tækjum upp olíugjaldið þá værum við að mismuna landsbyggðinni mjög í óhag.

Við sem erum flutningsmenn þessa frv. töldum að við ættum ekki annarra kosta völ, búið væri að fresta þessu það oft að ekki yrði hjá því komist að taka af skarið og við vonum að með þessu frv. hafi það tekist. Hins vegar skal viðurkennt að menn þurfa að vera á varðbergi með gjaldskrána sjálfa. Það má vel vera að við þurfum að endurskoða hana.