Gjöld af bifreiðum

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 14:59:58 (7388)

1998-06-03 14:59:58# 122. lþ. 142.15 fundur 715. mál: #A gjöld af bifreiðum# frv. 83/1998, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur, 122. lþ.

[14:59]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þetta andsvar og hreinskilnina sem í því fólst. Það er alveg ljóst að menn eru nánast að gera tilraun hvað varðar skattlagninguna og það er náttúrlega svona og svona að standa frammi fyrir því og þurfa að viðurkenna það. Ég tel að vísu mikilvægt að fyrir liggi eindregin yfirlýsing um það og tek undir hana að menn vilji sem sagt finna þá útfærslu á þessum gjöldum sem tryggir að ekki verði um íþyngingu að ræða, um aukna skattbyrði að ræða fyrir flutningsaðila á lengstu leiðum. Það er mjög mikilvægt. En mér sýnist dæmið því miður blasa nokkurn veginn við eins og það lítur út í frv. þannig að það er það sem er á ferðinni þegar um akstur yfir 80--100 þús. km er að ræða.

Varðandi olíugjaldið er alveg ljóst að það er heldur ekki gallalaust ef svo má að orði komast. Það skattleggur menn vissulega eftir notkuninni og eldsneytisnotkunin er háð mörgum þáttum. Hún er þá háð ástandi veganna, það hversu fjöllótt er og jafnvel veðráttu að viðbættri vegalengd. Það er ljóst. Það er léttara fyrir flutningabíla að rúlla af stað suður og austur um land eftir láglendinu þar en berjast upp yfir fjöll og heiðar á leiðinni norður eða vestur, ég tala ekki um þegar vegirnir versna, ófærð kemur til o.s.frv. Samt sem áður var það þannig að flestir starfandi menn í þessari grein voru sáttir við upptöku olíugjaldsins svo fremi að um væri að ræða hreint olíugjald og hóflega gjaldtöku í því og þeir losnuðu við allt hitt óhagræðið og leiðindin sem þungaskattsfyrirkomulaginu hefur verið samfara. Það hafi að sjálfsögðu þýtt íþyngingu fyrir einhverja umfram það sem þungaskattskerfið með afsláttunum var. En það er rétt að hafa í huga að menn í greininni voru almennt stuðningsmenn þeirrar breytingar.