Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 20:33:51 (7390)

1998-06-03 20:33:51# 122. lþ. 143.1 fundur 439#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, SvG
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur, 122. lþ.

[20:33]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Í kvöld leggja stjórnarandstöðuflokkarnir fram á Alþingi óvenjulega tillögu. Það er tillaga um rannsóknarnefnd samkvæmt stjórnarskránni til að fjalla um Lindar- og Landsbankamálin. Ástæðan fyrir þessari sameiginlegu tillögu stjórnarandstöðuflokkanna liggur í augum uppi. Það er nú eins ljóst og tvisvar tveir eru fjórir að viðskrh. sagði Alþingi ekki alla söguna þegar hann var spurður um tap Landsbankans vegna Lindar hf. vorið 1996. Hann vissi betur af sex vikna gömlu bréfi formanns bankaráðs Landsbankans, jafngamalli skýrslu Ríkisendurskoðunar og fjölda blaðagreina. Slíka framkomu ráðherra getur Alþingi ekki liðið. Þess vegna flytur stjórnarandstaðan tillögu sína og þótt þinginu verði frestað nú á föstudaginn hefur það ekki lokið umfjöllun sinni um Lindar- og Landsbankamál, því fer víðs fjarri.

Það kemur í ljós þegar Lindarmálið sjálft er athugað að pólitísk vensl eru milli allra þeirra sem fara með málið. Það kemur að heita má enginn að þessu máli nema hann hafi flokksskírteini í einum og sama stjórnmálaflokknum. Hvað var það annað en pólitísk vensl sem réðu því að sami maðurinn sem stýrði Lind á lokasprettinum var ráðinn til sérstakra verkefna í utanrrn. strax og Framsfl. kom þar til húsbóndastarfa? Og í hvaða verk? Jú, samkvæmt samtímaheimild Morgunblaðsins voru þau verkefni tengd fjárhagsvanda flugstöðvarinnar og yfirleitt öllum fjármálasamskiptum við herliðið í Keflavík. Allt krefst þetta, herra forseti, rannsóknar og það er þess vegna sem stjórnarandstöðuflokkarnir hafa í kvöld lagt fram þessa tillögu. En það koma fleiri við þessa sögu en viðskrh. og utanrrh. og einn þeirra er sjálfur forsrh. landsins. Ekki með aðgerðum, heldur með aðgerðaleysi. Samkvæmt grein eftir Sverri Hermannsson vissi hæstv. forsrh. Davíð Oddsson gjörla um Lindarmálið þegar í febrúar 1996. Þá hefði forsrh. átt að leggja málið fyrir þingið eða ríkisstjórnina. Hann lagði það ekki fyrir þingið og að því er best er vitað heldur ekki fyrir ríkisstjórnina. Hann vanrækti þannig, herra forseti, augljóslega skylduverk sín.

Lindarmálið og Landsbankamálið eru talandi dæmi um aðalvanda íslenska stjórnkerfisins. Það er ófagleg stjórn, það er sukk og það er pólitískur klíkuskapur. Við höfum sett reglur um að ráðherrar verði að uppfylla tiltekin hæfiskilyrði til að skipa menn í embætti en Alþingi hefur því miður ekki fallist á tillögu um að opna skipun í embætti þannig að þeir sem tilnefndir eru í æðstu embætti þjóðarinnar þurfi að fara í gegnum yfirheyrslur í þingnefndum til að fá embættin. Þá skipan þurfum við að innleiða hér. Það ætti nú öllum að verða ljóst þegar svo er komið að þrír ráðherrar eru undir smásjá saksóknara ríkisins fyrir afskipti sín eða afskiptaleysi af Lindarmálinu.

Góðir tilheyrendur. Pólitísk umræða hefur að undanförnu vissulega snúist um grundvallaratriði. Í sveitarstjórnarkosningunum voru hörð pólitísk átök. Tímamótasigur Reykjavíkurlistans kom formanni Sjálfstfl. svo úr jafnvægi að lengi verður í minnum haft. Hann kenndi fréttastjóra sjónvarpsins um niðurlægingu Sjálfstfl. af því fréttastjórinn er giftur einum af starfsmönnum Reykjavíkurborgar. Að öllu gamni slepptu, herra forseti, er atlaga forsrh. að Ríkisútvarpinu reyndar hættulegt merki um ritskoðunaráráttu þessa mesta valdamanns Íslands og háskalegast er það kannski þegar yfirmaður Ríkisútvarpsins, pólitískt skipaður af sama Davíð Oddssyni snýst gegn sínu eigin starfsfólki í þágu flokksbróður síns sem skipaði hann. Hver var að tala um ritskoðunarríki? Er frelsi einstaklinganna á Íslandi í hættu fyrir ofríki eins einstaklings?

Hér á Alþingi ber hins vegar hæst nú að undanförnu, fyrir utan Lindar- og Landsbankamál, tvö stórmál, auðlindamálið og húsnæðisfrumvarpið. Stærsta mál vetrarins, herra forseti, er frv. til laga um að landeigendur skuli eignast allar auðlindir í jörðu hverjar sem auðlindirnar eru og hversu langt ofan í jörðina sem sótt er. Þetta frv. er nú orðið að lögum án nokkurra takmarkana á eignarréttinum inn í jörðina. Þegar frv. var afgreitt lýstum við þingmenn Alþb. og óháðra því yfir að við mundum strax við fyrsta tækifæri beita okkur fyrir breytingum á þessum nýsettu lögum. Við munum leggja til að þjóðin eignist auðlindirnar aftur.

Annað stærsta mál þingsins, herra forseti, var tillaga ríkisstjórnarinnar um að afnema félagslega íbúðalánakerfið. Sú tillaga varð því miður að lögum og þar með er verið að bera út húsnæðisvonir fátæks fólks, láglaunafólks, öryrkja, einstæðra mæðra og námsmanna. Þetta fólk hefur getað gert sér vonir um skjól í félagslega íbúðakerfinu. Vonir þess eru nú bornar út á hjarnkaldan jökul markaðshyggjunnar á Íslandi. Þar með er Ísland eina landið í Norður-Evrópu þar sem ekki er til félagslegt íbúðalánakerfi. Þegar ríkisstjórnin náði því marki að koma afnámi félagslega húsnæðiskerfisins í gegnum þingið lýsti þingflokkur okkar því yfir að við hlytum að beita okkur fyrir því að til yrði á ný félagslegt íbúðakerfi og það munum við gera í samstarfi við aðra flokka og í samstarfi við samtök launafólks.

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Fram undan eru alþingiskosningar eftir aðeins 10 mánuði eða svo. Í þeim kosningum verður tekist á um málefni. Það verður tekist á um grundvallaratriði eins og á Alþingi að undanförnu, það verður tekist á um eignarrétt á auðlindum í jörðu, það verður tekist á um nýtt félagslegt húsnæðiskerfi, það verður tekist á um að afnema gjaldtöku í heilbrigðis- og menntakerfinu, það verður tekist á um umhverfisstefnu þar sem Ísland fylgir skilyrðislaust alþjóðlegum samþykktum í umhverfismálum. Í þeim kosningum verður líka, herra forseti, tekist á um utanríkismál, t.d. um það hvort íslensk stjórnvöld vilja áfram fylgja stefnu nýrrar hernaðaruppbyggingar stækkandi Atlantshafsbandalags eða ekki, og það verður tekist á um það hvort Ísland verður áfram rekið nauðugt fremur en viljugt í flasið á Evrópusambandinu. Kosningarnar árið 1999 munu snúast um þessi grundvallaratriði, en að lokum líka um stjórnkerfi sem er heiðarlegt og opið, stjórnkerfi sem er gagnsætt eins og fjallalind en ekki ógagnsætt eins og forarpollur hagsmunagæslu, flokksvensla og spillingar.

Góðir hlustendur. Þessu þingi er senn að ljúka. Það er mánuði á eftir starfsáætlun Alþingis. Því miður hefur enn einu sinni mistekist að laga þingið að venjulegu vinnuskipulagi fólks. Þar kennum við stjórnarliðinu um, þeir okkur, en hvort sem er rétt í þessu sambandi er hitt víst að þingið sjálft geldur þeirra vinnubragða sem hér tíðkast og þar með þjóðin því hér eru teknar ákvarðanir sem sannarlega snerta alla landsmenn. Ég óska hlustendum öllum og áhorfendum gleðilegs sumars við bjartar og tærar lindir íslenskra fjallasala og ég óska þess einnig að sem flestir þingmenn megi spegla góða samvisku sína í björtum sumarlindum Íslands. --- Lifið heil.