Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 20:49:54 (7392)

1998-06-03 20:49:54# 122. lþ. 143.1 fundur 439#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur, 122. lþ.

[20:49]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Þetta þing og atburðir vetrarins munu hafa sögulega skírskotun í framtíðinni. Þessir atburðir snerta framtíð og lífskjör íslensku þjóðarinnar. Þeir snúast um samtryggingu stjórnarflokkanna í eignatilfærslu frá þjóðinni til landeigenda, kvótahafa og eignarmanna. Þeir snúast um hvernig þessir samtryggingarflokkar hafa læst saman klónum til að verja siðleysi og siðblindu í þjóðfélaginu. Þeir snúast um hvernig þeir hafa sent út í hafsauga félagslega aðstoð í húsnæðismálum. Þeir snúast um hvernig hofmóðugir valdhafar henda í ruslakörfuna ósk um frestun á miðhálendis- og húsnæðisfrv. frá 40 almannasamtökum sem telja yfir 100 þús. Íslendinga.

Atburðir þessa árs gætu líka orðið upphafið að sögulegum sáttum jafnaðarmanna og klofningi Sjálfstfl. en margir liðsmenn hans greina hann ekki lengur frá Framsfl. þar sem sérhagsmunir og samtrygging er í fyrirrúmi en ekki fólkið. Á þessum vetri var staðfest á Alþingi að ekki aðeins í tíð samsteypustjórnar Framsóknar og Sjálfstfl. 1983 voru tugir milljarða færðir með gjafakvóta til fárra kvótakónga heldur á nú að færa auðlindir sem finnast í jörðu til landeigenda sem kosta mun þjóðina og skattgreiðendur milljarða í næstu framtíð. Miðhálendið þar sem helstu náttúruperlur landsins finnast var líka fært á forræði fárra.

Á sama tíma ræðst Framsfl. grimmilega að fátæku fólki og úthýsir því úr húsnæðiskerfi þjóðarinnar með þeim afleiðingum að einstæðir foreldrar, fatlaðir, námsmenn og fátækar barnafjölskyldur verða á hverju ári hundruðum saman án húsaskjóls. Þegar ríkisstjórn jafnaðarmanna kemst til valda verður auðlindum þjóðarinnar skilað aftur til eigendanna, þjóðarinnar allrar og á nýjan leik verður reist flagg félagslegrar aðstoðar fyrir þá sem höllum fæti standa í þjóðfélaginu.

Í góðærinu sl. þrjú ár hafa skuldir heimilanna vaxið um 70 milljarða kr. og nú hótar forsrh. vaxtahækkun á skuldug heimili þegar aflaheimildir kvótakónganna aukast um 25 milljarða kr. Valdhafar hafa ekkert --- ekkert umboð til að útdeila arði og verðmætum þjóðarinnar eins og ránsfeng til fárra útvalinna. Það er fólkið, þjóðin sjálf sem unnið hefur hörðum höndum til að byggja upp þennan arð. Það er hún sem á að njóta ávaxtanna af þessum verðmætum, ekki fjölskyldurnar fjórtán sem í skjóli helmingaskiptastjórnar íhalds og Framsóknar hafa rakað til sín milljarðaauði, ekki örfáir sægreifar sem kvótakerfið hefur gert að milljarðamæringum, ekki fjármagnseigendurnir sem greiða nú aðeins 10% skatt af arði í stað 40% áður. Þessi gífurlega eignatilfærsla breikkar bilið milli ríkra og fátækra og gerir þjóðina og þjóðfélagið í heild fátækara. Að þessu standa saman helmingaskiptaflokkarnir tveir, íhaldið og Framsókn, flokkarnir sem eftir þennan vetur standa líka berstrípaðir eftir að hafa með samtryggingu, sjónarspili og blekkingum varið forréttindi og spillingu. Ríkið og löggjafarþingið það er ég, má segja um forsrh. eftir þennan vetur. Hann sem gat ekki hamið reiði sína eftir sigur Reykjavíkurlistans og sýnt hefur dramb sitt og hroka gagnvart fjölmiðlum og þingræðinu sem lengi verður í minnum haft.

Undir forustu hans var ákveðið að verja bankaráð Landsbankans og viðskrh. en láta bara bankastjórana fjúka. Í Lindarmálinu á aftur að slá skjaldborg um bankaráðið og viðskrh. sem í öðrum löndum hefði fyrir löngu verið látinn taka pokann sinn. Spjótin eiga að beinast að stráknum sem týndi 900 millj., eins og forsrh. orðaði það. Þeir átta sig ekki enn á því úr sínum fílabeinsturni að þjóðin sér í gegnum þessa samtryggingu.

Á rúmum tíu árum hafa verið afskrifaðir rúmir 67 milljarðar kr. í bönkum og sjóðum. Í Landsbankanum einum um 14 milljarðar á sl. fimm árum og enginn ber ábyrgð --- enginn ber ábyrgð og skattgreiðendur borga brúsann af óráðsíunni.

Herra forseti. Opinber rannsókn óháðra aðila á þessum útlánatöpum verður að fara fram, útlánatöpum sem samsvara nettótekjuskatti einstaklinga í fimm ár. Rannsaka þarf til hlítar öll mál tengd Landsbankanum eins og stjórnarandstaðan hefur lagt til. Líka hvort bankastjórar Landsbankans hafa verið beittir þrýstingi af hálfu Eimskips til að knýja samkeppnisaðilann, Samskip, til uppgjafar.

Stjórnmálaflokkar verða líka að opna bókhald sitt og fjárreiður til að eyða öllum getgátum um samtryggingu við valdablokkir eða sterk fyrirtæki í þjóðfélaginu en því hefur Sjálfstfl. harðneitað. Þjóðin er líka farin að átta sig á kjarna þessa máls og líta á það í stærra samhengi. Í samfélagi þar sem einn pólitískur flokkur hefur áratugum saman haft yfirburðastöðu, flokkur sem helstu valdhafar og valdablokkir íslensks efnahags- og atvinnulífs tilheyra, flokkur þar sem safnast saman helstu fjármagnseigendur landsins, þar er farvegur fyrir spillingu, sérhagsmunagæslu og forréttindi á kostnað heildarinnar. Þannig búum við enn við lénsveldi. Nútímaþrælahald í formi misskiptingar lífsgæða og þess vegna er til allt of mikil fátækt á Íslandi. Þjóðin segir líka: Við eigum líka landið, gögn þess og gæði, ekki bara forréttindastéttirnar sem hirða arðinn af vinnu okkar og skammta okkur síðan molana af borði sínu. Það er þetta misrétti, þetta brot á jafnræði í íslensku samfélagi sem verður að stöðva og endurreisa á nýjan leik, samfélag jöfnuðar, réttlætis og siðgæðis sem íslenska þjóðin er stolt af að tilheyra.

Spillingin og samtryggingin hjá valdaflokkunum í þjóðfélaginu, dekur við atvinnulífið sem býr við skattaparadís en skilar einna minnstri framleiðni og greiðir lægstu launin innan OECD-landanna, gífurleg eignatilfærsla í formi gjafakvóta og afhending á auðlindum í jörðu til landeigenda er ein helsta ástæða þess að það er til allt of mikil fátækt á allt of mörgum heimilum í landinu. Þess vegna þarf fjórði hver öryrki og ellilífeyrisþegi að framfleyta sér af tekjum sem eru undir lágmarkslaunum. Þess vegna þarf að skera niður í heilbrigðiskerfinu. Þess vegna þarf stór hluti þjóðarinnar að lifa á hungurtöxtum. Og þjóðin spyr kröftugar en nokkru sinni fyrr: Gilda hér tvenn lög í landinu? Ein fyrir forréttindahópa og önnur fyrir skulduga einstaklinga og hin venjulegu heimili þessa lands?

Heimilin greiða fyrir útlánatöpin hjá sofandi gæslumönnum almannahagsmuna, fyrir veisluborð ráðamanna, laxinn, dagpeningana, lúxusreisurnar og gjafakvótann hjá toppunum sem spóka sig í fríðindaklúbbnum á fyrsta farrými meðan almenningur dregur vagninn og líður fyrir með verri kjörum fyrir sig og börnin sín.

Góðir áheyrendur. Þjóðin hefur á þessum vetri séð inn í lítið horn af spillingu og sóun, græðgi bankastjóra og ráðamanna þar sem misfarið hefur verið með almannafé í eiginhagsmunaskyni sem sumir kalla þjófnað. Kröftug mótmæli fólksins gegn þessu mun skila árangri. Þjóðin er að krefjast réttlætis og ábyrgðar valdhafanna. Það mun sigra að lokum.