Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 20:58:30 (7393)

1998-06-03 20:58:30# 122. lþ. 143.1 fundur 439#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur, 122. lþ.

[20:58]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Löngu og stundum nokkuð ströngu þingi er að ljúka. Þetta þing hefur verið starfsamt og mjög mörg veigamikil mál hafa hlotið afgreiðslu þrátt fyrir að lengd umræðna hafi stunum keyrt úr hófi. Það er eðli þingræðisins að meiri hlutinn ráði niðurstöðu að lokum. Andmælaréttur stjórnarandstöðu er mjög mikilvægur en vandmeðfarinn og sumt sem hefur gerst hér undanfarnar vikur er ekki til að auka veg Alþingis.

Hlustendur hafa í kvöld nú þegar orðið vitni að geðprýði og hófstillingu tveggja stjórnarandstæðinga og sjálfsagt koma þeir fleiri í ræðustólinn áður en þessum fundi lýkur.

Stjórnarflokkarnir mega að flestu leyti una vel við ástand mála í þjóðfélaginu. Hér ríkir á flestum sviðum velsæld og uppgangur þó nokkrar blikur séu á lofti. Á grundvelli nýrrar vinnulöggjafar voru gerðir heillavænlegri kjarasamningar en áður hafa tíðkast. Þeir eru til lengri tíma en áður hefur þekkst og vinnufriður stuðlar að stöðugleika. Það er vissulega áhyggjuefni að þrátt fyrir nýja kjarasamninga beita einstöku hópar mjög vafasömum uppsögnum til að knýja á um meiri launahækkanir en um var samið. Lægstu launataxtar hækkuðu mjög mikið. Næstsíðast þegar heildarkjarasamningar voru gerðir var lægsti taxti 43 þús. á mánuði. Nú er lægsti taxti 70 þús. á mánuði og kaupmáttur hefur aukist stórkostlega eða um 20% frá 1995. Þetta hefur orðið án þess að verðbólga fari úr böndunum. Atvinnuleysið er á stöðugu undanhaldi og vinnuaflsskortur er orðinn víða um land þannig að við verðum að flytja inn vinnuafl í stórum stíl. Lánstraust Íslands erlendis eykst stöðugt og ber það vitni farsælli stjórn efnahags- og viðskiptamála. Ríkisstjórnin hefur fylgt aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum og ríkisbúskapurinn er rekinn hallalaus og í fyrsta sinn í mörg ár er saxað á skuldir ríkisins. Ef ríkisstjórnarflokkarnir hefðu ekki haft siðferðisþrek til þess að tryggja hallalausan ríkisbúskap, þá hefði góðærið ekki nýst þjóðarbúinu og stöðugleikinn hefði glatast.

[21:00]

Meðal þeirra mála sem mest átök hafa orðið um á þinginu er ný húsnæðislöggjöf. Ég hika ekki við að fullyrða að þessi nýja húsnæðislöggjöf er mjög stórt framfaraspor, sérstaklega verður hún til heilla hinum tekjulægri í þjóðfélaginu. Húsnæðisstofnun verður lögð niður um næstu áramót. Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna verða sameinaðir í Íbúðalánasjóð sem tekur við flestum verkefnum sem Húsnæðisstofnun sinnir nú. Húsbréfakerfið verður óbreytt en afgreiðsla húsbréfa, greiðslumat og veðmat sennilega fært til bankanna. Íbúar í félagslega húsnæðiskerfinu halda öllum réttindum sínum en um næstu áramót verður tekið upp nýtt félagslegt íbúðalánakerfi. Þá fá þeir sem eiga rétt á félagslegri aðstoð í húsnæðismálum lánsloforð fyrir húsbréfum til 40 ára fyrir 65% eða 70% kaupverðs, ef um fyrstu íbúð er að ræða, og loforð fyrir viðbótarpeningaláni 20% eða 25% en verða að leggja sjálfir 10% til kaupanna. Síðan fara þeir og velja sjálfir íbúð við hæfi sem þeir geta síðan selt þegar þeim hentar.

Niðurgreiðslu vaxta verður hætt en í þess stað teknar upp samtímagreiddar vaxtabætur. Það er miklu hagstæðara fyrirkomulag fyrir tekjulága einstaklinga en núverandi kerfi og einstætt foreldri á atvinnuleysisbótum á að geta keypt sér litla íbúð enda geti það lagt fram 10% kaupverðsins. Greiðslubyrðin í nýja kerfinu verður miklu léttari framan af lánstímanum en í eldra kerfi.

Leigumarkaðurinn verður efldur og vinna er að hefjast við að meta leiguíbúðaþörfina og fjármagnsþörf til leiguíbúða svo og við endurskoðun húsaleigulaganna. Húsaleigubætur á allt leiguhúsnæði eru orðnar skylduverk allra sveitarfélaga.

Hluti stjórnarandstöðunnar lagðist mjög hart gegn þessum breytingum og telur að núverandi félagslegt húsnæðiskerfi sé fullkomið og hótar að breyta aftur til fyrra horfs, komist þeir til áhrifa. Verði þeim að góðu. Tíminn mun leiða í ljós að þetta nýja skipulag verður miklu hagfelldara, sérstaklega fyrir tekjulága og sveitarfélögin í landinu.

Mjög mikil og stundum villandi umræða hefur í vetur spunnist um þrjú samtengd stjórnarfrumvörp sem hafa nú öll hlotið samþykki Alþingis. Sú umræða hefur tekið miklu lengri tíma en umræðan um inngöngu Íslands í Evrópska efnahagssvæðið. Þessi frv. hafa verið kölluð manna á milli hálendisfrumvörpin og þar á ég við lögin um þjóðlendur, rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu og ný sveitarstjórnarlög. Það er rétt að fara nokkrum orðum um hvað þessi lög fela í sér og hverju þau breyta.

Allt land sem einstaklingar eða sveitarfélög geta ekki sannað eignarrétt sinn á fyrir dómi, svo og auðlindir í jörðu á því svæði sem verður lýst eign ríkisins, verður lýst eign ríkisins og mun verða undir yfirstjórn forsrh. Með hliðsjón af skoðunum hæstaréttardómaranna verður að telja líklegt að mestur hluti af hálendi Íslands verði lýst eign ríkisins enda þótt sveitarfélög og einstaklingar hafi talið að um eignarlönd sín væri að ræða.

Sveitarfélögin halda stjórnsýslu á afréttum eins og þau hafa haft. En stjórnsýslumörk sveitarfélaganna verða færð upp á jöklana þannig að landið allt lúti stjórnsýslu og sé á ábyrgð einhvers sveitarfélags. Þar með öðlast lögreglustjórar löggæsluvald á landinu öllu en lögreglustjóraumdæmin eru sem kunnugt er bundin við stjórnsýslumörk sveitarfélaga.

Áhyggjur hafa komið fram út af skipulagsmálum en það verður leyst með breytingu á skipulags- og byggingarlögum. Nefnd sem hefur látið vinna tillögu að svæðisskipulagi miðhálendisins verður gerð varanleg og fjölgað verður í henni og bætt við fulltrúum af höfuðborgarsvæðinu og frá Vestfjörðum. Þessi nefnd á að láta endurskoða svæðisskipulagið á fjögurra ára fresti, yfirfara aðalskipulagstillögur sveitarfélaganna og gæta þess að þær séu í samræmi við svæðisskipulagið og séu samræmdar innbyrðis milli einstakra sveitarfélaga. Almannaréttur og frjáls för ferðamanna eru tryggð í náttúruverndarlögum og breytist ekkert við þessa nýju lagasetningu og þá er í engu spillt möguleikanum á að koma upp þjóðgörðum á hálendinu enda eru þjóðgarðar að sjálfsögðu í sveitarfélögum.

Með þessari lagasetningu vinnst það að eytt er réttaróvissu um eignarréttindi, skipulag verður samræmt og stjórnsýsla, löggæsla og heilbrigðiseftirlit nær til landsins alls. Forsrh. fer með vald eiganda og í þjóðlendum má ekki reisa mannvirki sem standa eiga til árs eða lengur nema með leyfi hans.

Hálendi Íslands er allri þjóðinni mjög dýrmætt. Aðgengi hennar til að njóta þess er tryggt og varðveisla og siðsamleg umgengni við landið allt er komin á ábyrgð sveitarfélaga og hömlur settar á heimildarlausa fjáraflastarfsemi einstaklinga og félaga í þjóðlendum.

Framsóknarmenn geta nú á vordögum litið stoltir yfir farinn veg. Okkur hefur tekist í góðu samstarfi við sjálfstæðismenn að koma flestum stefnumálum okkar í framkvæmd og bæta þetta þjóðfélag og skapa grunn að hagsæld þjóðarinnar í framtíðinni. Stórfelld uppbygging er í gangi á mörgum sviðum og henni verður haldið áfram. Fiskstofnarnir eru í vexti og munu skapa þjóðarbúinu aukinn arð og sannast þá að fiskveiðistefna okkar hefur verið skynsamleg.

Meginverkefni stjórnvalda það sem eftir lifir kjörtímabilsins hlýtur að verða að leiðrétta óæskilega byggðaþróun, rétta hlut landbúnaðarins, sem hefur á undanförnum áratug gengið í gegnum miklar þrengingar, og svo að útrýma staðbundnu atvinnuleysi. Takist okkur það verkefni þarf íslenska þjóðin ekki að kvíða framtíðinni. --- Góðar stundir.