Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 21:07:42 (7394)

1998-06-03 21:07:42# 122. lþ. 143.1 fundur 439#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur, 122. lþ.

[21:07]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þrátt fyrir gott árferði eru flestir sammála um að óvenjulega mikill titringur sé í þjóðfélaginu. Nýafstaðnar sveitarstjórnarkosningar, Landsbanka- og Lindarmálið, staða fíkniefnamála, gjafakvótinn og hálendismálin valda þar mestu að ógleymdri framgöngu fyrrverandi bankastjóra nokkurs, einstakra ráðherra ríkisstjórnarinnar og stöðu hennar um leið.

Fyrir okkur kvennalistakonur eru jafnréttismálin og staða kvenna forgangsmál og fróðlegt að skoða þau í samhengi við þau mál sem nú eru efst á baugi í þjóðmálaumræðunni yfirleitt.

Mál málanna á þessu þingi hafa verið hálendismálin. Hingað til hafa flestir Íslendingar litið á hálendið sem einskismannsland, land víðáttu og víðerna sem nærir mannssálina og ber að varðveita. Að auki eru á hálendinu auðlindir í jörðu og virkjunarkostir sem eru mikils virði. Réttaróvissa hefur ríkt um það hver eigi þessar auðlindir. Langflestir landsmanna eru þeirrar skoðunar, samkvæmt skoðanakönnunum, að hálendið eigi að vera sameign íslensku þjóðarinnar.

Ríkisstjórnin ákvað því miður að fara svipaða leið og með fiskimiðin, segja í orði að hálendið eða þjóðlendur séu eign þjóðarinnar en veita síðan 40 sveitarfélögum skipulagsréttinn á misstórum ræmum sem ná allt til jökla og jöklarnir meðtaldir. Þá er landeigendum heimilað að nýta auðlindir allt inn að jarðarmiðju þó að slíkt sé ekki nauðsynlegt vegna eignarréttarákvæðis stjórnarskrár. Allur vafi er túlkaður landeigendum eða einstökum sveitarfélögum í hag gegn hagsmunum heildarinnar. Hér er ríkisstjórn sérhagsmuna að verki, ríkisstjórn sem virðir að vettugi þau kröftugu mótmæli og þær sterku tilfinningar sem þjóðin hefur sýnt.

Við kvennalistakonur viljum að hálendið verði ein stjórnsýsluleg heild og að nýting auðlinda sé í þágu almannahagsmuna. Átökin um hálendið fara eftir skýrum pólitískum línum og þjóðin mun fá tækifæri í næstu kosningum til að láta álit sitt í ljós.

Hroki ríkisstjórnarinnar kom skýrt fram í hálendismálunum. Veigamikil rök komu fram um að fresta afgreiðslu þeirra eins og fulltrúar fjölmargra almannasamtaka báðu um. Nei, Davíð Oddsson bað um frestun á afgreiðslu málanna sem frambjóðandi í Reykjavík en hafnaði henni sem hæstv. forsrh. Já, það var sannkallaður ráð-herra að verki, herra sem ræður, en ekki þjónn sem þiggur vald sitt af þjóðinni. Það er því af lýðræðisástæðum fullt tilefni til að breyta um orð fyrir ráðherra, samanber þáltill. okkar um að taka upp nýtt orð fyrir ráðherra sem bæði kynin geta borið. Konur geta verið menn en þær geta ekki verið herrar frekar en að karlar geti verið frúr. Því er það ekki boðlegt í jafnréttismálum að eyrnamerkja æðstu embætti ríkisstjórnarinnar valbjóðandi körlum.

Ekki verður séð að nokkuð verði af raunhæfum jafnréttisaðgerðum í tíð þessarar ríkisstjórnar. Enn bólar lítið á umbótum vegna kynhlutlauss starfsmats og ekkert bendir til að launamunur kynjanna sé að minnka. Eitt af þeim málum sem þingið afgreiddi nýlega var ný jafnréttisáætlun til næstu fjögurra ára. Þar er ýmsar nýjungar að finna sem benda til að málflutningur okkar kvennalistakvenna sé að skila sér. Þar á ég t.d. við nauðsyn fræðslu um jafnréttismál fyrir æðstu ráðamenn, aðgerða gegn kynferðislegri áreitni, lengt fæðingarorlof fyrir báða foreldra, að stjórnarfrv. séu greind með tilliti til áhrifa þeirra á stöðu kynjanna og að nota beri samþættingaraðferðina í jafnréttismálum.

Gott ef satt væri að ríkisstjórnin meinaði eitthvað með þessum fallegu fyrirheitum. En því miður sýnir áætlunin aðeins að við eigum vel upplýsta embættismenn á sviði jafnréttismála. Áþreifanlegasta sönnun þess er að kostnaður vegna áætlunarinnar er aðeins áætlaður um 7--10 milljónir fyrir fjögur ár. Jafnréttisáætlanir undanfarinna ára hafa ekki komist í framkvæmd og engin ástæða er til að ætla að svo verði á meðan stjórnarflokkarnir eru við völd. Til þess þarf pólitískan vilja og tilheyrandi fjármagn, pólitískan vilja til að jafnréttismálin verði meginmál sem snerti alla málaflokka, meginmál með styrka stöðu innan stjórnsýslunnar og sterka jafnréttisstofnun í stað bitlauss Jafnréttisráðs og valdalausrar kærunefndar. Í stað þess að geyma jafnréttismálin í skúffu í félmrn. þarf að tengja þau betur inn í öll ráðuneyti undir yfirumsjón og á ábyrgð jafnréttisráðherra.

Herra forseti. Sveitarstjórnarkosningarnar mörkuðu tímamót í íslenskum stjórnmálum. Þar ber hæst sigur Reykjavíkurlistans í höfuðborginni og samstöðu félagshyggjufólks í framboðum um allt land. Ég lít á sigurinn í Reykjavík sem persónulegan sigur Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sigur kvenna, sigur Kvennalistans, sigur heiðarlegrar kosningabaráttu og sigur allra þeirra sem starfa saman í anda kvenfrelsis, jafnaðar og félagshyggju.

Meginstraumar í íslenskum stjórnmálum eru að breytast. Þriggja blokka kerfi er í mótun. Þetta er veruleg ógnun við Sjálfstfl. enda hefur hæstv. forsrh. ekki getað hamið viðbrögð sín í fjölmiðlum sem birtast hvað skýrast í ómaklegum árásum hans á fréttastofu Ríkisútvarpsins.

Það mál sem nú veldur hvað mestum titringi er Landsbanka- og Lindarmálið. Það byrjaði með laxi, risnu og uppsögnum bankastjóra. Nú snýst málið annars vegar um ábyrgðina á gjaldþroti Lindar og hvort það var pólitísk spilling sem varð til þess að hundruð milljóna af almannafé glötuðust. Hins vegar snýst málið um þá alvarlegu stöðu sem kom upp við það að hæstv. viðskrh. hélt upplýsingum frá þinginu í júní 1996. Vantraust vofir yfir hæstv. viðskrh. fyrr eða síðar. Til að slík tillaga komist á dagskrá eftir 1. apríl þarf meiri hluti þingsins að samþykkja afbrigði. Það er óviðunandi í ljósi stjórnarskrárinnar að tæknileg atriði þingskapa komi í veg fyrir að hægt sé að bera upp vantraust umsvifalaust. Það á eftir að koma í ljós hvort Davíð Oddsson er tilbúinn að taka pólitísku ábyrgðina eða hvort ábyrgðin lendir á viðskrh. og Framsfl. með tilheyrandi afleiðingum fyrir stjórnarsamstarfið. Mikilvægt er að ítarleg rannsókn fari fram á málinu þannig að allar hliðar þess verði upplýstar og réttir aðilar sæti ábyrgð og verði sakfelldir. Meginmálið fyrir Alþingi nú er að horfast í augu við þann trúnaðarbrest sem er orðinn milli þess og viðskrh. og það er mikið umhugsunarefni að samkvæmt hefð komast ráðherrar hér upp með moðreyk sem annars staðar varðar embættismissi.

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Það er sérkennilegt andrúmsloft í þjóðfélaginu þessa fallegu júnídaga og það styttist í næstu alþingiskosningar. Við kvennalistakonur höfum fullan hug á að fylgja eftir hugmyndafræði okkar inn í stjórnmál næstu aldar. Það hefur verið styrkur kvennalistakvenna að láta ekki viðjar vanans og gamalla hefða hefta sig. Við höfum ætíð farið ótroðnar slóðir með kvenfrelsið að leiðarljósi. Kvennalistinn hefur nú verið á kvenfrelsisvaktinni í 15 ár og áorkað miklu. Enn á ný skoðum við hvaða leiðir séu vænlegastar til árangurs og fetum hiklaust nýjar slóðir.

Við tökum nú þátt í viðræðum stjórnarandstöðuflokkanna um sameiginlega málefnaskrá fyrir næstu alþingiskosningar. Viðræðurnar ganga vel þó að of snemmt sé að segja til um hver útkoman verður því margt á enn eftir að skýrast. Ef við berum gæfu til að læra af reynslu Reykjavíkurlistans og skapa nýtt og framsækið afl munum við ekki aðeins njóta fyrstu borgarstjórnar allra borgarbúa, bæði kvenna og karla, heldur gæti orðið til fyrsta ríkisstjórnin sem þjónaði í raun öllum þegnum þessa lands, bæði konum, börnum og körlum. --- Góðar stundir og gleðilegt sumar.