Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 21:26:36 (7396)

1998-06-03 21:26:36# 122. lþ. 143.1 fundur 439#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur, 122. lþ.

[21:26]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Ég átti á dögunum erindi við Tryggingastofnun ríkisins. Slíkt væri ekki í frásögur færandi hefðu ekki verið á undan mér öldruð hjón þeirra erinda að spyrjast fyrir um hverju það sætti að ellilífeyrir þeirra hefði lækkað. Alúðleg afgreiðslukona gerði sitt ýtrasta til að skýra fyrir þeim að þar eð þau hefðu farið hvorki meira né minna en 262 krónur yfir lægstu viðmiðunarmörk í tekjum árið á undan skertist heimilisuppbót þeirra um helming.

Gömlu hjónunum gekk að vonum illa að skilja jafnt sök sína sem og refsingu. Svo hefði trúi ég, fleirum farið. En hafi ég ekki þá skilið til fulls hver rök lágu til þessarar harðýðgi skildi ég þau út í hörgul er ég hlustaði á hæstv. forsrh. ræða fjármálaástandið í sjónvarpsþætti í fyrri viku. Rökin eru sáraeinföld: Það er svo mikið til af peningum í landinu. Það eru ódæmabýsn og von á meiru. Einkaneysla fer vaxandi. Nýjum jeppum fjölgar sem aldrei fyrr. Sólarlandaferðir seljast upp. Það dregur úr sparnaði. Þess vegna þarf að standa á bremsunni. Og hæstv. ríkisstjórn lumar augljóslega á ráðum sem duga. Kjör ellilífeyrisþega, sjúklinga, þiggjenda örorkubóta, atvinnulausra, í stuttu máli kjör allra þeirra sem þurfandi eru hafa æ ofan í æ verið skert. Þeir búa nú við versnandi kjör. Þar er bremsan sem staðið er á. Þeir sem bíða eftir aðgerðum á biðlistum sjúkrahúsanna, þeir sem sendir eru heim vegna sumarlokana vita nú ástæðuna fyrir þrengingum sínum. Það er svo mikið til af peningum í landinu.

Það var um það leyti sem uppsafnaður sparnaður fortíðar var kominn í þóknanlega vasa að gróðapungarnir sneru sér að eignum framtíðarinnar og tóku í blygðunarlausri græðgi að skipta milli sín óveiddum fiski í sjónum. Ég fullyrði að aldrei í sögu þjóðarinnar hafi sambærilega eignaupptaka átt sér stað. Mér er raunar stórlega til efs að nokkurs staðar á byggðu bóli þekkist þess dæmi að aðalatvinnuvegur einnar þjóðar hafi með viðlíka hætti verið gefinn fáum útvöldum.

Við höfum ekki lengur efni á að greiða niður vexti í félagslega húsnæðiskerfinu svo skjólstæðingum þess er vísað að guð og gaddinn eða í besta falli á leigumarkað sem er ekki til. Við erum nefnilega ekki bara óguðlega rík heldur hefur nú sú harðsnúna klíka peningavaldsins í landinu, sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar er höllust undir, ekki bara það áhugamál eitt að skerða áunnin réttindi almennra launamanna heldur stendur það þessum hópi ekki síður fyrir svefni að ágóði þjóðarbúsins skili sér e.t.v. ekki í þá vasa sem hún hefur mesta velþóknun á.

Þessa daga áskotnast þjóðarbúinu u.þ.b. 25 milljarðar vegna bætts ástands veiðistofna. Þessir milljarðar eru því að sjálfsögðu umsvifalaust afhentir kvótaeigendum til fullrar eignar.

Ekki hefur farið fram hjá neinum að hæstv. menntmrh. hefur undanfarið gert víðreist og barið bumbur til að kynna hugmyndir sínar um betri skóla. Að sjálfsögðu hefur hann fengið góðar undirtekir því að það er nefnilega einmitt þess konar skóli sem velflestir vilja. Einstöku gleðispillir hefur að vísu undrast þá háttsemi að þá fyrst er grunnskólinn er kominn á framfæri sveitarfélaganna dregur menntmrh. upp úr pússi sínu uppskrift að betri skóla. Hann hefur hins vegar svarað því til að stefna hans, er hann nefnir ,,enn betri skóli`` kosti svo sem ekki neitt. Þótt slíkt sé að sönnu mikill kostur í þjóðfélagi sem á allt of mikla peninga er það samt svo að við slíkar yfirlýsingar hrökkva gamlir púlsklárar úr kennarastétt hvumpnir við því þeir vita að gegnum tíðina hafa bæði foreldrar og kennarar kvartað yfir skorti á fjármagni til skóla, skorti á kennslugögnum, skorti á skólahúsnæði og skilningsskorti ráðamanna. Þeir hafa kvartað yfir lágum launum, of fjölmennum bekkjum, versnandi vinnuskilyrðum og of mikilli kennsluskyldu.

Þeir sem hafa fengist við kennslu vita að þessar kvartanir eru á rökum reistar. Og þeir vita það líka að þær hafa flestar meira með hag nemenda að gera en kennara. Á þessum hlutum hefur því miður lítil bót fengist því að umbætur kosta fé. Hitt er sjaldgæfara að heyra kvartað yfir skorti á nýjum stefnum í menntamálum. Hvað þær snertir hefur framboð í gegnum tíðina verið snöggtum meira en eftirspurnin.

Falleg orð eru létt í vasa og það er rétt hjá menntmrh. hæstv. að þau kosta lítið. Þrátt fyrir að til séu í landinu þessi býsn af peningum sem forsrh. talaði um í áðurnefndum sjónvarpsþætti og þrátt fyrir þau sannindi að margur verði af aurum api neita ég að trúa því að á Íslandi sé einhvers konar þjóðarsátt um þá misskiptingu lífsgæða sem vex nú með hverju ári. Ég neita að trúa því að það sé vilji þjóðarinnar að kjör þeirra sem standa höllustum fæti séu skert, að launum sé haldið neðan við allt velsæmi. Eignir þjóðfélagsins séu gefnar einkavinum og ávinningur góðærisins lendi á markaðstorgi samviskulítilla braskara.

Stuðningur við stefnu núverandi ríkisstjórnar er þjóðarböl, hæstv. forseti. --- Ég þakka áheyrnina.