Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 21:47:14 (7399)

1998-06-03 21:47:14# 122. lþ. 143.1 fundur 439#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur, 122. lþ.

[21:47]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Á síðustu þremur árum hafa lífskjör á Íslandi batnað helmingi meira að meðaltali en í þeim löndum sem við helst berum okkur saman við. Þar kemur tvennt til. Annars vegar tiltölulega hagstæð ytri skilyrði og svo hins vegar þær aðgerðir sem ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. hefur beitt sér fyrir. Lífskjarabatinn birtist í því að kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur aukist um 20% frá árinu 1995. Þannig hefur nú fjögurra manna fjölskylda 750 þús. kr. meira í tekjur en hún hafði. Skuldasöfnun ríkisins hefur verið stöðvuð, erlendar skuldir af landsframleiðslu hafa lækkað um 50 milljarða króna. Tekjuskattur einstaklinga lækkar á árinu 1997 til ársins 1999 úr tæpum 42% í 38% sem þýðir að ráðstöfunartekjur hjóna munu aukast um 140 þús. kr. á mánuði. Lagður hefur verið grunnur að lækkun orkuverðs í landinu upp úr aldamótum um 20--30% á tíu árum þar á eftir. Tólf þúsund störfin sem við framsóknarmenn töluðum um að skapa þyrfti skilyrði fyrir að yrðu til til aldamóta verða ekki tólf þúsund heldur þrettán þúsund. Af þessum árangri erum við sem gengum til alþingiskosninga 1995 undir kjörorðinu ,,Fólk í fyrirrúmi`` stolt. Þetta hefur stjórnarandstaðan á Alþingi ekki áhuga á að ræða. Lífskjör fólksins í landinu skipta hana litlu sem engu máli. Hún er upptekin af eigin málum og við það að koma höggi á saklausa einstaklinga og þá fyrst færist skörin upp í bekkinn þegar hv. þm. Svavar Gestsson ætlar að setjast í dómarasæti. Maðurinn sem þekkir kannski fjármálaleg samskipti Þjóðviljans og Landsbankans betur en nokkur annar. Þetta er sá maður sem hefur hér ásamt nokkrum öðrum hv. þm. flutt tillögu á Alþingi um að skipa þurfi sérstaka rannsóknarnefnd í Lindar- og Landsbankamálum. Málum sem nú eru í höndum ríkissaksóknara. Ætli þjóðin haldi að hv. þm. Svavar Gestsson, fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans, sé betur í stakk búinn til að rannsaka þau mál en sjálfur ríkissaksóknari?

Ríkisstjórnin, sem stjórnarandstaðan í upphafi kjörtímabilsins kallaði ríkisstjórn stöðnunar og afturhalds, hefur sannað sig sem ríkisstjórn athafna og framfara. Í áratug töluðu fyrrv. viðskiptaráðherrar um að breyta þyrfti rekstrarformi ríkisviðskiptabankanna. Ekkert gerðist. Þessu hefur nú verið lokið með það að markmiði að auka samkeppni, lækka vexti og bæta þjónustuna. Í 15 ár töluðu fyrrv. viðskiptaráðherrar um að stokka þyrfti upp sjóðakerfi atvinnulífsins en þeir bara töluðu og það gerðist ekkert. Þetta erum við nú búin að gera með það að markmiði að hagræða og spara, veita atvinnulífinu aðgang að ódýrara lánsfé. Í tvo áratugi töluðu fyrrv. iðnaðarráðherrar um að auka þyrfti erlenda fjárfestingu í orkufrekum iðnaði, en ekkert gerðist. Á síðustu þremur árum höfum við gengið frá þremur nýjum stóriðjusamningum og lagt þannig grunninn að auknum útflutningstekjum upp á 16 milljarða króna og 50 milljarða króna fjárfestingu og skapað þannig 2.350 ný störf á framkvæmdatímanum. Í aldarfjórðung töluðu fyrrv. iðnaðarráðherrar um að nauðsynlegt væri að skjóta fleiri og styrkari stoðum undir rekstur lítilla og meðalstórra fyrirtækja með því að setja á fót nýsköpunarsjóð fyrir atvinnulífið en það gerðist ekkert. Nú hefur verið stofnaður nýsköpunarsjóður fyrir atvinnulífið sem mun styrkja samskeppnisstöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Um þetta vill stjórnarandstaðan ekki tala heldur hefur hún lagst gegn flestum þeim málum sem hér hafa verið lögð fram sem horft hafa til atvinnusköpunar og bættra lífskjara fyrir fólkið í landinu. Ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. mun halda áfram á braut athafna og framfara. Hún mun ekki láta hjáróma raddir og úrtöluraddir stjórnarandstöðunnar villa sér sýn. Við munum halda áfram að fjölga atvinnutækifærum og betur launuðum störfum. Við munum halda áfram að auka fjölbreytnina í atvinnulífinu, skapa ungu og vel menntuðu fólki metnaðarfull og krefjandi störf við sitt hæfi. Við munum halda áfram að styrkja stoðir velferðarþjónustunnar. Við munum halda áfram umbótum á fjármagnsmarkaði með það að markmiði að auka öryggi í fjármálaþjónustunni, lækka vexti og bæta þjónustuna.

Herra forseti. Athafnir og framfarir, nýjungar og nýsköpun hafa einkennt störf ríkisstjórnarinnar. Í verkum sínum hefur hún haft fólkið í fyrirrúmi og mun hafa það áfram. --- Ég þakka þeim sem hlýddu.