Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 21:53:34 (7400)

1998-06-03 21:53:34# 122. lþ. 143.1 fundur 439#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, KH
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur, 122. lþ.

[21:53]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er ekki auðvelt að koma í þennan ræðustól á eftir þeim kraftaverkamanni sem hér talaði en það verður fróðlegt að sjá hvernig orð hans standast kastljós framtíðarinnar. Við kveðjum nú senn þing hinna löngu ræðna og hinna hörðu átaka þar sem meiri hluti Alþingis fékk að kenna á harðri stjórnarandstöðu með dyggum stuðningi fjölmennra hópa utan þings. Ég þarf ekki að tíunda þessi átakamál, þau hafa verið aðalefni umræðunnar í kvöld og öll hafa þau svo sannarlega verið meira en einnar messu virði. Það sem efst stendur í huga mínum er þó reiptogið um stjórnskipan á miðhálendinu. Ekki átökin hér í þinginu, heldur miklu fremur umræðan utan veggja þessa húss. Það er hún sem skiptir máli. Ég minnist ekki jafnvíðtækra viðbragða og umræðna um mál af þessu tagi sem getur þó ekki beinlínis kallast dægurmál. Það var almenningur sem gaf frv. um sveitarstjórnarlög nafnið hálendisfrv. vegna ákvæðanna um skiptingu miðhálendisins milli 42 aðliggjandi sveitarfélaga. Nafngiftin er til marks um vægi þess í hugum þorra fólks sem hefur ríkar tilfinningar til þessa svæðis sem á ekki sinn líka þótt víða væri leitað. Formfastir alþingismenn hristu höfuðið yfir þekkingarleysi almúgans sem talaði um hálendisfrv., hélt fundi, skrifaði greinar og æsti sig yfir meðferðinni á sameign þjóðarinnar, skoraði á Alþingi í blaðaauglýsingum og tölvupósti. Misskilningur, misskilningur, sögðu þessir þingmenn og sökuðu andófsmenn á Alþingi um að afvegaleiða þjóðina og ástunda lýðskrum. Svo býsnuðust þeir í fjölmiðlum, kölluðu harða baráttu stjórnarandstæðinga einu nafni málþóf og sögðu virðingu Alþingis misboðið og forsrh. hótaði breytingum á þingsköpum til að stinga upp í málglaða þingmenn.

En góðir áheyrendur. Hverjir sýna Alþingi Íslendinga og öllum almenningi þessa lands meiri óvirðingu, þeir sem berjast fyrir málstað sem þeir trúa á með þeim ráðum sem þeir hafa lögum samkvæmt eða hinir sem sýna sætin sín auð í þingsalnum, neita að hlusta og rökræða, loka augum og eyrum gagnvart viðhorfum þúsunda manna sem báðu þó ekki um annað en að málinu yrði frestað, báðu um frest til frekari umræðu og kynningar, auðvitað í þeirri von að meiri hluti Alþingis sæi að sér og féllist á þá meginkröfu að miðhálendi landsins væri sérstakt svæði sem bæri að meðhöndla sem eina heild sem lyti einni stjórn? Og úr því að þm. Sjálfstfl. Kristján Pálsson kallaði til vitnis þá merku konu Sigríði í Brattholti þá er ég næsta viss um hverra málstað hún mundi styðja væri hún enn á meðal okkar.

Þetta fólk sem hefur mótmælt kröftuglega að undanförnu veit nákvæmlega um hvað það er að tala. Það er að tala um landið sitt, tjá tilfinningar sínar til óbyggðra víðerna hálendisins sem það vill varðveita sem órofa heild um ókomin ár. Þetta svæði sem Steinn Steinarr kallaði ,,vængjaða auðn með sín víðernin blá``. En meiri hluti Alþingis reigir sig og afgreiðir grundvallaratriði út í móa. Meiri hluti Alþingis ræður, segja þeir sem valdið hafa og varðar ekki um vilja meiri hluta þjóðarinnar. Sá vilji fær ekki að koma fram nema í skoðanakönnunum, á fundum, í áskorunum og greinaskrifum. Almenningur fær ekki að greiða atkvæði um einstök mál vegna þess að við höfum ekki lög og reglur um þjóðaratkvæði sem eðlilegt væri að beita í málum sem þessu. Það er brýnt að bæta úr þeirri vanrækslu en almenningur fær þó áður en langt um líður tækifæri sitt til að sýna hug sinn til þeirra sem hunsa vilja hans og réttmætar kröfur.

Herra forseti. Meiri hluti Alþingis er stór. Hann er í rauninni hættulega stór vegna þess að ríkisstjórnin telur sig komast upp með nánast hvað sem er. Í skjóli þessa meiri hluta er allt of algengt að ráðherrar hendi illa undirbúnum málum inn í þingið og ætlist til skjótrar afgreiðslu, jafnvel stórmála sem koma fram á síðustu stundu. Það er meginástæðan fyrir árvissu öngþveiti á síðustu vikum þings. Þessir menn virðast telja að Alþingi sé afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdarvaldið. Þeir þurfa að átta sig á að það er framkvæmdarvaldið sem er í vinnu hjá Alþingi og Alþingi er í vinnu hjá þjóðinni.

Löggjafarvaldið hefur á undanförnum árum verið að efla og treysta eftirlitshlutverk sitt og ýmissa stofnana sem ætlað er að tryggja réttláta framkvæmd laga og reglna. Það hefur sett gagnmerk lög um stofnanir sem heyra beint undir það og eiga að tryggja eftirlit og aðhald með framkvæmdarvaldinu. Almenningur hefur tekið embætti umboðsmanns Alþingis tveim höndum og Ríkisendurskoðun hefur reynst alþingismönnum ómetanleg stoð í störfum sínum. Framkvæmdarvaldið hefur hins vegar ekki tekið beint fagnandi öllum ábendingum um betri stjórnarhætti. Ráðuneytin hafa reynst ótrúlega ósamvinnuþýð þessum embættum og svarað fyrirspurnum seint eða ekki. Ráðherrar sýna umboðsmanni Alþingis og Ríkisendurskoðun hroka og bregðast við af offorsi ef þeim hugnast ekki niðurstöður þeirra.

Á liðnum vetri hefur hvert málið rekið annað þar sem ráðherrar og hinar ýmsu stofnanir framkvæmdarvaldsins hafa mátt sæta athugasemdum. Í stað þess að reifa þær á málefnalegan hátt er almenna reglan sú að ráðherrar fara í harða vörn, saka eftirlitsstofnanir um að grafa undan starfsemi ráðuneyta, tala um misskilning og panta nýja úrskurði frá einhverjum öðrum. Þessu skyld eru svo viðbrögð formanna stjórnarflokkanna þegar stjórnarandstaðan kom á fullkomlega löglegan hátt í veg fyrir flýtimeðferð frv. um bann við sjómannaverkfalli. Forsrh. brást við ævareiður og sakaði fulltrúa minni hlutans um óeðlileg vinnubrögð. Utanrrh. lét að því liggja að þeir atburðir gætu orðið til þess að ríkisstjórn freistaðist fremur til að setja bráðabirgðalög en eiga á hættu tafir af völdum stjórnarandstöðu.

Herra forseti. Atburðir liðins vetrar vekja okkur til umhugsunar um lýðræði og þingræði. Hvers vegna hlustar meiri hluti Alþingis ekki á fólkið í landinu? Hvers vegna reiðast ráðherrarnir löglegum vinnubrögðum á Alþingi? Hvers vegna sætta þeir sig ekki við athugasemdir og ábendingar óhlutdrægra eftirlitsstofnana? Hvers vegna þessi læti? Svarið er einfalt. Þetta eru valdsmenn sem þola ekki að valdi þeirra séu skorður settar. Þeirra skal vera mátturinn, lýðræði og þingræði komi í öðru sæti.

Góðir áheyrendur. Lýðræðislega sinnað fólk þarf að draga lærdóm af þessum atburðum og veita þeim ráðningu sem þannig haga sér.