Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 22:00:13 (7401)

1998-06-03 22:00:13# 122. lþ. 143.1 fundur 439#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, BH
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur, 122. lþ.

[22:00]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Það líður að lokum kjörtímabilsins en í síðasta lagi næsta vor ganga landsmenn til alþingiskosninga. Ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. hefur á þeim þremur árum sem liðin eru frá síðustu kosningum komið mörgum óskamálum sínum í gegn þótt sum séu í mýflugumynd og þótt enn vanti nokkuð á að loforðin sem flugu fyrir kosningar séu efnd. Það er rétt sem hæstv. iðn.- og viðskrh. sagði áðan að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur á þessu kjörtímabili komið á gífurlegum þjóðfélagsbreytingum sem munu hafa mikil áhrif á stöðu landsmanna þegar fram í sækir. Þessar breytingar hafa einkum beinst að því að tryggja hagsmuni ákveðinna hópa í þjóðfélaginu á kostnað annarra. Þeir sem eiga eitthvað undir sér munu eignast enn meira en þeir sem lítið eiga munu eiga enn minna.

Þau mál sem hvað mestum hrolli hafa valdið hjá landsmönnum eru hin svokölluðu hálendismál. Skipting hálendisins á milli fjölmargra sveitarfélaga án þess að tryggt sé að heildarskipulag á svæðinu og afhending sameiginlegra auðæfa þjóðarinnar til einstakra landeigenda með auðlindafrumvarpinu munu styrkja séreignastefnuna í sessi, stefnu sem ríkisstjórnin hefur svo sannarlega unnið ötullega fyrir á þessu kjörtímabili.

Afrakstur auðlinda í jörðu á samkvæmt nýjum lögum þar um að ganga til einstakra landeigenda rétt eins og kvótanum var úthlutað til einstakra útgerðarmanna án endurgjalds á sínum tíma. Nýlega var bætt við þorskkvótann 32 þús. tonna en söluverðmæti þessarar aukningar á markaði í dag eru hvorki meira né minna en 25 milljarðar króna, ágætu áheyrendur, svo maður leiki sér svolítið að tölum. Þetta er bara dregið upp úr hattinum niðri á Hafrannsóknastofnun á góðum eftirmiðdegi og þykir sennilega einhverjum tilefni til að gera sér dagamun.

Leiguverðmæti þessarar aukningar eru tæpir 3 milljarðar á ári þannig að útgerðarmenn fá nú svolítið í aðra hönd hvernig sem á málið er litið. Um leið og þetta er gert er lagt fram frv. á þingi þar sem enn eru lækkaðir skattar á fyrirtæki en launafólk fær að axla sínar byrðar að fullu.

Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur ráðist í það verk að leggja niður félagslega húsnæðiskerfið. Það eru flestir sammála um að það hafi þurft lagfæringa við en að leggja það niður án þess að nokkur örugg úrræði séu í hendi fyrir tekjulægstu hópana til öflunar húsnæðis er algerlega óviðunandi.

Fjöldi fólks býr nú við óöryggi um framtíð sína í kjölfar breytinganna því tekjulægstu hópunum hefur ekki verið tryggð nein lending í húsnæðismálum. Leigumarkaður, eins og hann er á Íslandi í dag, er ekki notalegur verustaður og þarf að taka miklum breytingum áður en hægt er að vísa fólki þangað með góðri samvisku.

Námsmenn hafa bent á að þeir búa við kerfi sem með sanni er hægt að kalla hálfgerða öfugmælavísu. Framfærslan er nú tæpar 57 þús. kr. fyrir einstakling í leiguhúsnæði sem er lægra en atvinnuleysisbætur og tæpum 13 þús. kr. lægra en lágmarkslaun sem þykja þó engin ofrausn. Námslánin byrja hins vegar að skerðast við 185 þús. kr. sumartekjur þannig að námsmaður sem vinnur á lágmarkslaunum í þrjá mánuði býr við skert námslán af þeim sökum. Af tilsvörum hæstv. menntmrh. um þessi mál má helst skilja að það sé menntastefna ríkisstjórnarinnar að sjá til þess að námsmenn vinni sem mest með námi.

Það sér hver heilvita maður að þetta eru ekki sanngjarnar reglur og langt í frá til þess að hvetja fólk til að leggja stund á nám og efla þannig mannauð íslensku þjóðarinnar. En ríkisstjórn Davíðs Oddssonar vill ekki nota efnahagsbatann í þetta. Það eru önnur verkefni í forgangi. Afleiðingarnar verða þær að þeir sem eru algjörlega háðir námslánum eiga á hættu að hrekjast frá námi á meðan hinir sem eiga sterkan bakhjarl geta auðveldlega sótt sér menntun.

Það er rétt í tilefni umræðna um ráðherraábyrgð á umliðnum vikum að minna á orð sem féllu í ræðu á síðasta kjörtímabili. Páll Pétursson, núv. hæstv. félmrh., hafði þetta um ráðherraábyrgð að segja þá, með leyfi forseta:

,,Mér finnst að hæstv. ráðherrar geti farið frjálslega með sannleikann í fjölmiðlum, á blaðamannafundum hér heima eða erlendis eða hvort tveggja, og á áróðursfundum. Ég tel að þetta [þ.e. ráðherraábyrgðin] eigi einungis að gilda um upplýsingar sem ráðherra gefur Alþingi, þjóðþinginu, með formlegum hætti.``

Vonandi eru þessi ummæli hæstv. félmrh. ekki til marks um siðferðisstig hæstv. ríkisstjórnar en því miður virðist sem skilningur hæstv. ráðherra á því hvað ráðherraábyrgð þýðir gefi ekki tilefni til bjartsýni.

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar notar ekki þá fjármuni sem til ráðstöfunar eru til þess að styrkja stoðir fjölskyldunnar með fjölskyldupólitík sem skiptir máli. Fögur fyrirheit án fjármögnunar er allt sem ríkisstjórnin hefur að færa fjölskyldufólki. Barnabætur eru tekjutengdar svo öruggt sé að barnafólk nái ekki til sínum of miklum skerfi af samneyslunni þrátt fyrir að þessi sami hópur skili miklu til hennar. Jaðarskattaáhrif eru enn mikil og þeirra gætir ekki síst hjá öldruðum og hefur ríkisstjórnin ekki tekið á þeim vanda þrátt fyrir loforð þar um. Millitekjuhópar launafólks eru að sligast undan samneyslunni á meðan stór hluti landsmanna borgar enga skatta. Er það svona samfélag sem við viljum?

Nei, góðir áheyrendur, og það eru til aðrir kostir. Það sýndi sig í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum að vinstri menn eiga möguleika á að skapa afl sem dugir til að breyta því landslagi sem við búum við í stjórnmálum í dag og vonir standa til að slíkur valkostur bjóðist líka í næstu þingkosningum því dæmin sanna að þörfin fyrir samstöðu félagshyggjufólks er aldrei meiri en nú. --- Góðar stundir.