Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 22:25:15 (7405)

1998-06-03 22:25:15# 122. lþ. 143.1 fundur 439#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, KH
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur, 122. lþ.

[22:25]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Margt merkilegt hefur verið sagt í þessari umræðu og eins og nærri má geta er sjálfshólið rauður þráður í ræðum stjórnarsinna á milli þess sem þeir kvarta sáran undan harðri en málefnalegri gagnrýni stjórnarandstæðinga. Ég má til með að leiðrétta hv. þm. Sjálfstfl., Sturlu Böðvarsson, sem talaði áðan og varð nú heldur fótaskortur þegar hann kenndi málþófi stjórnarandstöðunnar um að tímamótatillaga forsrh. um byggðamál hefði ekki fengist afgreidd. Það fær illa staðist vegna þess að sú tillaga kom ekki fram fyrr en í lok apríl, nokkrum dögum áður en þingi átti að ljúka skv. starfsáætlun þingsins og stjórnarliðar geta því sjálfum sér um kennt.

Það vekur athygli að allir ræðumenn stjórnarflokkanna í kvöld eru karlmenn. Það er sjálfsagt ekki stórmál að þeirra áliti enda er það yfirlýst stefna stærsta stjórnmálaflokks landsins að það sé hæfnin sem ráði í stóru sem smáu en ekki kynferði og undir það gangast konurnar í þeim flokki og trúa því þá væntanlega um leið að ástæðan fyrir ósýnileika þeirra í starfi flokksins sé skortur á hæfni. Því trúi ég ekki, herra forseti, og því skyldi enginn trúa. Staðan er einfaldlega sú að við erum ekki enn þá komin nær jafnri stöðu og jafnrétti kynjanna en svo að við getum leyft okkur andvaraleysi af þessum toga. Það þarf að sýna viljann í verki. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram hér og nú að langflestir Íslendingar séu svo réttsýnir að telja að jöfn staða kynjanna sé sjálfsagt mál eða a.m.k. æskileg. Þó skal ekki svarið fyrir að allnokkrir hugsi eins og karlinn sem sagði: ,,Jafnrétti er svo sem allt í lagi, bara að það gangi ekki of langt.`` Kannski hefur sú hugsun ráðið einhverju um val ræðumanna stjórnarflokkanna í kvöld. Mér finnst þeir ættu að hugsa sitt ráð.

Einhvern veginn er það nú svo að hvert einasta skref í átt til jafnrar stöðu og jafnra réttinda kynjanna hefur kostað baráttu, stundum alveg ótrúlega harða baráttu. Sú barátta hefur verið nánast öll á aðra hlið. Það eru konur sem hafa unnið með öllum ráðum og gerðum að jöfnuði kynjanna og hvers vegna skyldi það vera? Jú, auðvitað er það vegna þess að hallað hefur á konur og það hallar enn þá á konur. Á lagalega sviðinu stöndum við bærilega í samanburði við aðrar þjóðir. Kveðið er á um jafnan rétt kynjanna í stjórnarskrá og í 22 ár höfum við haft sérstök lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Meinið er auðvitað að lög og reglur eru eitt og framkvæmd þeirra er allt annað mál. Fyrst og fremst skortir eftirfylgni við þessi lög og þær yfirlýsingar og fyrirheit sem gefin hafa verið. Það er t.d. athyglisvert að bera saman tvær stofnanir í íslensku þjóðfélagi sem eiga að sjá um eftirlit og fylgja eftir framkvæmd laga. Þar á ég við skrifstofu jafnréttismála annars vegar og Samkeppnisstofnun hins vegar. Til að sinna verkefnum Jafnréttisráðs og kærunefndar jafnréttismála starfar sérstök skrifstofa sem heyrir undir ráðherra jafnréttismála, félmrh., sem hér ræddi áðan um velsæld og uppgang í þjóðfélaginu og þakkaði sér og hinum herrunum í ríkisstjórninni. Á skrifstofu jafnréttismála hafa undanfarin ár verið fimm og hálft stöðugildi og skrifstofan hefur um 27 millj. kr. til rekstursins í ár. Með þessu fjármagni og fámennu starfsliði verða auðvitað engin stórvirki unnin, hversu mikill sem viljinn er þar innan veggja. Til samanburðar höfum við Samkeppnisstofnun sem heyrir undir viðskrh., kraftaverkamanninn og handhafa sannleikans sem talaði hér fyrr og hefur það hlutverk að framfylgja samkeppnislögum. Þar starfa yfir 20 manns og fjárveiting til stofnunarinnar nemur rétt tæpum 89 millj. kr. á fjárlögum þessa árs. Þessi mikil aðstöðumunur segir auðvitað sitt um áherslur og raunverulegan vilja stjórnvalda. Hann segir okkur t.d. að tillaga Kvennalistans um jafnréttisfræðslu fyrir æðstu ráðamenn þjóðarinnar þarf að komast til framkvæmda hið fyrsta. Þeir þurfa að gera sér grein fyrir stöðunni og sýna raunverulegan vilja til úrbóta. Jöfn staða kynjanna er ekki einhver hégómi sem ráðamenn geta afgreitt fyrir aftan bak.

Góðir áheyrendur. Ég vakti athygli á því að allir ræðumenn stjórnarflokkanna í kvöld eru karlmenn. Menn hafa væntanlega einnig tekið eftir því að af níu ræðumönnum stjórnarandstöðunnar eru átta konur. Um það var ekkert samráð og menn geta lesið úr þessum staðreyndum það sem þeir vilja en þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem stjórnarandstaðan bjargar heiðri Alþingis.

Ég vil aðeins segja þetta að lokum: Konur eiga rétt á að vera metnar á eigin forsendum. Þær hafa mikið til málanna að leggja, ekki síður en karlar. Landsmenn eiga rétt á að heyra hvað þær hafa að segja. --- Ég þakka þeim sem hlýddu. Gleðilegt sumar.